Pólitísk jólahugvekja
Frásögn Lúkasar af fæðingu Jesú lætur ekki mikið yfir sér. Hún líkist að sumu leyti kvikmyndahandriti. Kvikmyndavélin svífur yfir stóru sögusviði, yfir öllum hinum forna menningarheimi við Miðjarðarhafið, byrjað er í Róm, á keisaranum, svo er fjórðungsstjórinn nefndur, hvort tveggja valdsins menn sem virðast hafa alla þræði í höndum sér og geta stjórnað þessum heimi eins og brúðuleikhúsi. En svo þrengist sjónarhornið og kvikmyndavélin kemur auga á ungt ferðlúið par frá fjarlægu þorpi, það hefur lagt að baki hundrað kílómetra til að láta skrásetja sig. Vélin lækkar flugið og allt leiðir að einum punkti, sem er í fullkominni andstöðu við upphafið, að lítilli jötu. Þangað leiðir Lúkas lesandann, að jötunni þar sem barnið liggur. Og svo víkur sögunni annað, ekki inn í hallir keisara og konunga heldur út á vellina þar sem hirðarnir eru. Frá þeirra sjónarhorni er óttinn upphaf jólaguðspjallsins þegar óvæntur gestur stendur skyndilega frammi fyrir þeim, engill.
Þeir skunda kunnuglega leiðina til fjárhússins og flýta sér svo aftur til að færa fréttirnar. Þeir eru fyrstir til að flytja jólaboðskapinn – frásögnin minnir hér óneitanlega á upprisufrásagnir guðspjallanna, þar sem konurnar undrast og óttast, fara og sjá hvað gerst hefur og hlaupa svo sem fætur toga til að segja tíðindin.
Jólaguðspjallið er einföld saga – en innihaldsrík. Á yfirborðinu er allt friðsælt og fagurt en lesandinn þarf ekki að velkjast lengi í vafa um að þar er þungur undirstraumur. Það er hvorki jólasnjór né hækkandi sól, sem helgisögn Lúkasar snýst um, heldur tíminn “þegar Kýreneus var landstjóri á Sýrlandi...” Gullöld Ágústusar er baksviðið. Og þegar áfram er lesið kemur enn einn leiðtoginn við sögu, Heródes, sem óttast barnið í jötunni meir en allt annað og lætur myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni, tveggja ára og yngri, til að koma í veg fyrir að spádómar Gamla testamentisins um hinn fyrirheitna Messías rætist.
Þarna takast á valdið í hásætinu í höfuðborg hins forna heims, Rómaborg, og hið nýja veldi í heimi mannsins, sem á sér fáránlega táknmynd, jötu, sem gefur eitthvað allt annað til kynna en vald. Frásögnin gefur tilefni til hugleiðinga um valdið í þessum heimi, vald hinna voldugu annars vegar en á hinn bóginn beinist sagan að boðskapnum um kjarna málsins: incarnatio, hvernig Guð verður áþreifanlegur þar sem valdið virðist lengst undan.
Þessa dagana les ég í nýútkominni bók vestanhafs. Fréttamaðurinn sem skrifar bókina, sem heitir Fall Bagdadborgar, er staddur í sjúkrahúsi í Bagdad löngu eftir að forseti Bandaríkjanna hafði lýst því yfir að stríðinu væri lokið. Tugir þúsunda óbreyttra borgara í Írak hafa eftir það látið lífið og særst í átökum.
Blaðamaðurinn, Jon Lee Anderson, lýsir því sem fyrir augu ber þennan daginn. Hann horfir á lítið barn limlest og látið á sjúkrahúsinu. Lýsingin er í hrópandi mótsögn við yfirlýstan mannúðlegan tilgang stríðsins. Orðrétt segir: “Áður en ábreiðan var lögð yfir barnið sá ég að stúlkan var ötuð blóði, bróðir hennar virtist vera sofandi hjá henni, en bæði voru þau látin. Móðir þeirra var þarna, viti sínu fjær af sorg; þetta var konan sem ég hafði áður séð gráta við múrinn og berja hann utan í sorg sinni. Fólkið umhverfis móðurina brotnaði niður, þar á meðal læknarnir og hjúkrunarkonurnar, allir brotnuðu niður og grétu. Sjálfur þoldi ég ekki meir og gekk út, settist niður og grét. Nokkra metra frá mér sá ég föður barnanna grátandi í sorg sinni.”
Þannig lýsir fréttamaður hins virta vikurits, The New Yorker, atviki í bókinni þar sem hann segir frá reynslu sinni í þessu stríði sem hann hefur fylgst með frá upphafi.
Það er einkennandi fyrir bandarískan bókamarkað um þessar mundir að mikið er skrifað um stríðið og goðsögnin um hið “göfuga stríð” og hina göfugu hermennsku er rækilega dregin í efa. Raunveruleiki stríðsins hefur aldrei fyrr verið afhjúpaður eins miskunnarlaust í orði og myndum og undanfarin misseri. Í því efni hafa stafrænar myndavélar og myndbandstökuvélar í höndum óbreyttra hermanna valdið tímamótum.
Hið göfuga stríð þar sem heilög gildi eru varin – hvar er það? Segja ekki sagnfræðingarnir okkur að öll stríð snúist um hagsmuni, um yfirráð yfir landi og auðlindum, og byggist á blekkingum, brengluðum upplýsingum og fordómum; í fáum orðum flestu því versta sem til er í fari mannsins. Þannig er veruleikinn sem dreginn er upp af því stríði sem hefur blasað við sjónum okkar undanfarin misseri.
Stríðið sýnir vanmátt mannsins til að viðhalda friði. En það er einnig annað: það er vitnisburður um virðingarleysi mannsins fyrir lífinu, öðrum þræði er þar dauðahvöt mannsins að verki, sem á í vök að verjast fyrir þrá mannsins til lífsins. Dauðahvötin er hin myrka löngun mannsins til að deyja, leyndardómur í sál mannsins sem forfeður nútímasálfræði, m.a. Freud sjálfur, vöktu fyrst athygli á.
En hvar hefst stríðið? Og á hverju þrífst stríð? Það hefst í hjarta mannsins og það þrífst á fordómum í hans sama hjarta, það er undirbúið með margvíslegum hætti. Hvað um leikföng og leiki barna?.... Það lýtur engum öðrum lögmálum en vilja mannsins til leggja aðra að velli í orði og verki. Kannski ein hliðin á menningu sigurvegaranna.
Það er dapurlegt að Íslendingar skuli hafa ljáð máls á því að styðja þessar aðgerðir og það er umhugsunarvert hvernig okkar ráðamenn hafa staðið að verki í því efni.
Á jóladag í fyrra átti ég leið suður í Mosfellsdal snemma morguns og hlustaði á rás tvö á leiðinni, m.a. var leikinn sálmurinn Heims um ból í hinn frægu útsetningu Simon og Garfunkel frá 1966. Sálmurinn er afar vel fluttur en undir heyrist rödd fréttaþular lesa sjöfréttir á bandarískri útvarpsstöð á jóladag. Þetta var eftirminnilegur jóladagsmorgunn.
Í tónverkinu birtist hinn daglegi veruleiki þjóðarinnar þegar Víetnamstríðið tók sífellt á sig hrikalegri myndir, þegar barátta Martin Luther Kings fyrir mannréttindum nýtur takmarkaðs skilnings, þegar eiturlyf eru byrjuð að flæða yfir. Með öðrum orðum: þarna er tvíþættum veruleika jólaguðspjallsins teflt fram, annars vegar er hin heilaga og hreina návist jesúbarnins en hins vegar sá heimur sem á eftir að festa hann á krossinn.
Jólaguðspjallið afhjúpar hið fegursta sem til er í veröld mannsins þegar birtu af veröld Guðs leggur inn í heim hinna smæstu – en á hinn bóginn er myrkrið sem fylgir hinum grimma leiðtoga, sem svífst einskis í valdafíkn sinni, skammt undan, morðið á saklausum börnum vefst ekki fyrir honum. Og spurningin vaknar með lesandanum: Er þetta ekki saga um okkar heim sem kemst á sinn hátt nær kjarna málsins en fréttir og fréttaskýringar fjölmiðlanna?
Í frásögn Lúkasar er hinum vanmáttugu og umkomulausu teflt fram gegn valdsins mönnum. Og innst inni viljum við öll vera þeim megin sem hinir vanmáttugu og umkomulausu standa, þar er mennskan og mannúðin, þar eru þau lífsgildi sem við viljum standa vörð um og þær aðferðir sem við vildum helst beita þeim til varðveislu. Þar eru hirðarnir, þar eru María og Jósef og þar er nýfætt Jesúbarnið sem kallar á umhyggju og vernd.
Jólaguðspjallið er innihaldsþrungin frásögn sem talar beint til okkar, hún á erindi við það dýpsta í vitund hans og vilja, hún talar til drauma hans um frið og fegurð. Frásögnin er samofin andstæðum sem hver maður þekkir án frekari skýringa og á þeirri stundu sem hann heyrir söguna veit hann hvar hann á að standa í þessum heimi. Sagan vekur hann til vitundar um hið góða, fagra og fullkomna. En við vitum jafnframt að sagan er tímalaus, hún er enn að gerast, hún gerist á hverjum degi í ýmsum myndum, m.a. þegar hið góða, fagra og fullkomna er fótum troðið, þegar hernaðarveldin hvert af öðru eira engu í blindri eftirsókn eftir meiri auðlegð og meiri yfirráðum.
Við þurfum ekki að fara til Betlehem sögunnar fyrir tvö þúsund árum til að finna baráttu hinna smæstu við ofurefli valds og vopna, þar sem réttlæti og mannúð mega sín lítils. Sú saga er enn að gerast árið 2004. Óttinn svífur yfir heimsbyggðinni um þessi jól eins og svo oft áður.
Þegar engillinn stendur frammi fyrir hirðunum skynja þeir návist hins heilaga og finna eigin smæð, synd og sekt. Frammi fyrir hinu heilaga verður maðurinn ofursmár og umkomulaus. En þá hljómar þessi boðskapur: “Verið óhræddir, ég boða yður mikinn fögnuð...”.
Jólin flytja okkur boðskap í dimmum heimi um nýtt hugrekki sem tekur ekki óttann frá manninum heldur veitir honum nýja fullvissu, nýtt mótvægi, nýja sannfæringu. Jólin flytja okkur rétt eins og hirðunum nýjan fögnuð sem veitir þrótt í daglegu lífi. Síðast en ekki síst eiga jólin erindi til okkar með nýja von, án vonar getur enginn maður lifað.
Boðskapur jólanna er ekki aðeins fyrir okkur, hann er falinn okkur á herðar annarra vegna, samfélagsins vegna, hann er falinn okkur á herðar alls heimsins vegna. Hvernig boðum við frið á jörðu? Hvernig flytjum við fögnuð inn í þennan heim? Hvernig sýnum við hið nýja hugrekki trúarinnar? Er það ekki heima fyrir, í fjölskyldunni, sem hvort tveggja byrjar? Þar ber okkur að byrja að vinna að friði og fögnuði í þessum heimi, í hinu smáa, í umgengni hvert við annað, í leikjum sem við kennum börnunum, í samtali um menn og málefni, í gagnrýnni umræðu um pólitík dagsins.
Jólaguðspjallið kallar okkur til jötunnar, til hans sem lagði allt í sölurnar. Erum við hans fólk, fylgjum við fordæmi hans, treystum við honum? Kirkjan í þessum heimi og þar með sérhver kristinn maður hefur miklu hlutverki að gegna. Og það á reyndar ekki aðeins við um kirkjuna heldur öll trúarbrögð og öll samtök sem vinna að góðum málum. Vilja ekki flestir vinna að framgangi hins góða, fagra og sanna? Í slíkri baráttu eiga kristnir menn að vera fremstir í flokki og leggja sig mest fram. Í sérhverri baráttu fyrir mannúð og mennsku, fyrir réttlæti og samvinnu, ekki hvað síst á alþjóðlegum grundvelli.
Um þetta snýst jólaguðspjallið. Sagan eftir fæðinguna heldur áfram, hún hefst þá við jötuna og stefnir út í heiminn, til allra, hvar sem þeir búa. Guð kom til hirðanna, hann kemur til þeirra sem þrá hann innst inni og vilja gera hjarta sitt að jötu hans. Þannig veitum við honum viðtöku, þannig koma jólin.
Gleðileg jól.