SAMFYLKINGIN SEGI HVORT HÚN VILJI VINNA TIL HÆGRI EÐA VINSTRI
Í lok apríl á síðastliðnu ári skrifaði ég grein á þennan vef sem bar nafnið ,,Tvígengisvélin hikstar". Tilefni greinar þeirrar var að þá var mikil krísa í samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks þar sem forseti Íslands hafði neitað að skrifa undir fjölmiðlalögin s.k., og allar líkur á að lögin yrðu borin undir þjóðaratkvæði. Ef þjóðin hefði hafnað þeim lögum, hefði ríkisstjórnin orðið að segja af sér þar sem slík úrslit hefðu þýtt að þjóðin hefði lýst yfir vantrausti á stjórnina. Eins og alkunna er þá dró ríkisstjórnin lögin til baka, enda þorði hún ekki að leggja þau undir dóm þjóðarinnar. Í grein þeirri sem að framan er getið, lagði ég til að stofnað verði til kosningabandalags stjórnarandstöðuflokkana, þ.e. VG, Frjálslynda flokksins og Samfylkingarinnar fyrir næstu alþingiskosningar. Slíkt bandalag ætti að vera með niðurnjörfaðan stjórnarsáttmála og hafa skýra stefnu sem yrði borin undir dóm þjóðarinnar sem valkostur við þá afturhaldsstjórn sem nú er við völd.
S.l. mánudag birtist í Morgunblaðinu grein eftir mig sem ber heitið ,,Er vilji til samstarfs?". Tilefni greinar þeirrar eru hin vægast sagt dræmu viðbrögð forystu Samfylkingarinnar við tilboði Steingríms J Sigfússonar formanns VG um samstarf eins og að ofan hefur verið lýst. Kallaði ég þar eftir skýrum svörum frá forystu Samfylkingarinnar um hver hinn raunverulegi pólitíski vilji Samfylkingarinnar er. Ég spurði hvort Samfylkingin vildi vinna með hinum stjórnarandstöðuflokkunum að uppbyggingu betra þjóðfélags fyrir alla, eða með íhaldinu að enn frekari tilfærslu auðs og eigna til handa fáum.
Vil ég að Samfylkingin svari þeirri spurningu fyrir næstu alþingiskosningar og gangi þar með bundin til kosninga. Svari skýrt og skorinort hvort hún vilji vinna til hægri eða vinstri.
Sjá HÉR þá grein sem vísað er til.
Eftrifarandi er Morgunblaðsgreinin sem vísað er til
Er vilji til samstarfs?
Nú ryðst fram á ritvöllinn fólk úr Samfylkingunni sem heldur því fram að VG hafi ekki viljað vera með í samstarfi um áframhaldandi framboð R-listans í Reykjavík. Mér er það bæði ljúft og skylt að leiðrétta þennan leiða misskilning. Ekki stóð á VG að halda samstarfinu áfram. Á hinn bóginn lá það ljóst fyrir að til að svo gæti orðið, ætlaði VG sér ekki að vera hækja til styrktar Samfylkingunni, heldur fullgildur aðili að slíku samstarfi á jafnræðisgrundvelli. Á þetta var ekki fallist af hálfu Samfylkingarinnar, og því runnu viðræðurnar út í sandinn. Þ.e. Samfylkingin vildi fá fleiri fulltrúa í 8 efstu sæti listans en þeim bar, ásamt borgarstjóraefninu, en hinir flokkarnir áttu að fá leifarnar. Sem sagt atkvæði og stuðningur VG ágæt til síns brúks, en annað ekki. Slíkt gengur bara ekki upp, og því fór sem fór. Einna grátlegast er þó að viðræðurnar komust aldrei á það stig að farið væri að ræða um stefnu framboðsins, málefni og áherslur sem fulltrúum VG fannst tímabært að endurskoða með það að markmiði að færa í átt til félagshyggju.
Boðið til samstarfs.
En snúum okkur að öðru. Á ný afstöðnum landsfundi VG, opnaði formaður flokksins á þann möguleika að stjórnarandstöðuflokkarnir á Alþingi, byðu kjósendum upp á þann möguleika að velja í næstu kosningum á milli tveggja blokka í íslenskum stjórnmálum. Þ.e. áframhaldandi stjórn afturhalds eða nýja stjórn framfara. Þó að það sé aukaatriði í þessari umræðu gladdi þessi framsetning Steingríms J Sigfússonar mig mjög, þar sem ég hef viðrað þessa hugmynd bæði við mína flokksfélaga og fólk innan Samfylkingarinnar og Frjálslyndra. Og hefur verið tekið nokkuð vel í þessa hugmynd af þeim sem ég hef rætt við, sem aftur ætti að þýða vilja til að skipa málum á þann hátt. Með þessu móti væri á raunhæfan hátt hægt að koma Íhaldinu og Framsóknarflokknum frá völdum og blása til sóknar í velferðarmálum. Má þar nefna gjaldfrjálsan leikskóla sem VG fyrstur flokka lagði fram tillögur um, úrbætur í málefnum aldraðra og öryrkja sem allir stjórnarandstöðuflokkarnir hafa lagt áherslu á, blása til nýrrar sóknar í mennta- og heilbrigðismálum, uppbygging sjúkrastofnana o.s.frv. o.s.frv. Enda af nógu að taka sem flokkar sem kenna sig við félagshyggju og velferð geta náð samstöðu um. Mikilvæg atriði til að ganga út frá, og ættu að vera hafin yfir vangaveltur um persónulegan ávinning eða leiki í fléttu til að gera öðrum flokkum sem um margt hafa sömu áherslur, pólitískar skráveifur.
Bleik brugðið!
Bregður þá svo við, að bæði formaður og varaformaður Samfylkingarinnar taka illa í þessa hugmynd. Vilja halda öllum leiðum opnum, ekki tímabært að hefja viðræður á þessu stigi, láta úrslit næstu alþingiskosninga ráða för, ekki binda hendur sínar o.fl. o.fl. sem kalla má fyrirslátt. Var því nema von að Ögmundur Jónasson spyrði hreint út hver stefna Samfylkingarinnar væri, og hvert hún stefndi. Þessar einföldu spurningar hafa af einhverjum undarlegum ástæðum orðið þess valdandi að mikill hiti er hlaupinn í marga innan Samfylkingarinnar. Í stað þess að svara efnislega þessum spurningum, er rokið til og manninum m.a. sagt að éta það sem úti frýs og fleira í þeim smekklega stíl. Ekki ætla ég s.s. að gagnrýna fæðuval Samfylkingarfólks, en ráð væri að gestum hennar væri boðið upp á annað og betra en þessa rétti. Ég hlýt líka að spyrja hvort Samfylkingin sé í raun félagshyggjuflokkur, því að greinilegt er af orðum formanns og varaformanns hennar að verið er að daðra við íhaldið, og Framsóknarflokkinn svona til vara. Það er nefnilega ekki hægt að vera félagshyggjuafl með fyrirvara. Spurningin sem fyrir Samfylkingunni liggur að svara, er einfaldlega sú hvort flokkurinn vilji starfa með VG og Frjálslynda flokknum að uppbyggingu betra þjóðfélags fyrir alla, eða vinna að afloknum næstu alþingiskosninum með Sjálfstæðisflokknum að frekari tilfærslu auðs og eigna til handa fáum útvöldum.
Grundavallarspurning.
Því er það mótsagnakennt að á sama tíma og Samfylkingin kennir VG, ómaklega þó, um að hafa slitið samstarfi um R-lista, getur flokkurinn ekki tekið af skarið og sagt væntanlegum kjósendum sínum hvort Samfylkingin ætli að starfa til hægri eða vinstri að afloknum næstu alþingiskosningum.
Þetta langar mig a.m.k. til að vita.
Steingrímur Ólafsson.