Fara í efni

Palestína í skugga olíustríðs


Draumórar heimsvaldasinna, martröð Íraka
 
Þess var að vænta að örlög palestínsku þjóðarinnar, hernám lands þeirra og áframhaldandi morð á saklausu fólki, féllu í skuggann þegar fjölmiðlarisarnir færu að dansa í takt við stríðsherrana í Washington og kjölturakkann í Lundúnum. Hér verður ekki fjallað um það ömurlega hlutskipti sem öflugustu sjónvarpstöðvar og dagblöð hafa tileinkað sér, að þjóna stríðsstefnunni gegn Írak og fleiri þriðja heims þjóðum, stefnu sem er nú víða kölluð því nafni, sem hún hefur áunnið sér með rentu, heimsvaldastefna Bandaríkjanna. Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að hernema Írak og setja þar upp eigin landsstjórn, skipaða gömlum bandarískum herforingjum, leyniþjónustu- og stjórnarerindrekum. Það verður ekki einu sinni hægt að tala um leppstjórn því að Bush ætlar að ráða ríkjum með herstjórn sem á að sitja í 5 ár, lengur eða skemur eftir hentuleikum, eða þar til hægt er að setja á laggirnar nothæfa leppstjórn. Þessir draumórar heimsvaldasinnanna í Washington eru ekki lengur pappírsgagn sem þótti fráleitt í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum heldur hernaðarstefna núverandi Bandríkjastjórnar og um leið hugsanlega sú martröð sem íbúar í Írak eiga eftir að vakna upp við. 

Á hverjum degi.... 

Hernám alls palestínsks lands sem fullkomnaðist í leifturstríði Ísraela gegn öllum nágrönnum sínum árið 1967 og tók aðeins 6 daga er nú löngu orðið lengsta hernám samtímasögunnar. En það sem sérkennir þetta hernám er grimmd hernámsliðsins og þeirrar ríkisstjórnar sem samkvæmt alþjóðalögum og Genfarsáttmálunum ber þó að tryggja öryggi íbúanna. Í stað þess að gegna skyldum sínum og fara að lögum þá fremur þetta ríkisvald stríðsglæpi upp á dag hvern gagnvart íbúunum, sem eru varnarlausir gagnvart ofurmætti eins fullkomnasta hernaðarveldis veraldar. Á hverjum degi er fólk á öllum aldri drepið, ekki síst börn, sem hafa á stundum verið að mótmæla hernáminu með grjótkasti en verið refsað með sprengikúlu í höfuðið. Það þarf þó ekki mótmæli til. Þannig fór fyrir Kristínu, 10 ára gamalli telpu, kennaradóttur í Betlehem sem var á heimferð fyrir nokkrum dögum  í bíl með foreldrum sínum og 12 ára bróður, er hermenn skutu á þau, særðu öll og Kristínu til ólífis með sprengikúlu í höfuðið. Á hverjum degi er verið að eyðileggja hýbýli fólks, sprengja heimili í loft upp og eyðileggja þau með jarðýtum. 

Lífsbjörg eyðilögð, ógnaraðgerðir og útgöngubann 

Án þess að reynt sé að dylja glæpinn sem hóprefsingar eru samkvæmt alþjóðalögum, er því lýst yfir að húsið sé mölvað í spað vegna skyldleika íbúanna við einstaklinga sem grunaðir eru eða staðnir að hernaði gegn Ísrael. Lífsbjörgin er eyðilögð, ólífu- og ávaxtatré rifin upp eða felld, vatnsbólin eyðilögð, bann lagt við því að bora eftir vatni eins og til þarf, strangar takmarkanir og bann við sjósókn til fiskveiða frá Gaza og þannig má lengi telja. Ógnaraaðgerðir af fjölbreyttu tagi eru sérgrein Ísraelshers og hafa að markmiði að brjóta niður baráttu- og siðferðisþrek palestínsku þjóðarinnar, en verður þó lítt ágengt. Útgöngubannið er hvað erfiðast, sem sett er á aftur og aftur dögum saman og haldið upp af hervaldinu, þannig að það getur kostað lífið ef barn eða hver sem er gefst upp á innilokuninni augnablik og fer út á svalir eða bara út í dyr eða glugga.

Útgöngubanninu fylgir ekki einungis innilokun íbúanna í sínum húsum heldur líka aflokun sveitarfélaga, þorpa, bæja og borga innbyrðis, þannig að lokað er fyrir möguleika fólks á að fara á milli staða, jafnvel þótt bráðliggi á, eins og hjá fárveiku fólki sem þarf að komast á sjúkrahús eða konu í barnsnauð. 

Ekkert er gert til að stöðva stríðsglæpi Ísraelshers 

Allt er þetta flestum kunnugt sem fylgst hafa með fréttum frá Palestínu að einhverju leyti, jafnvel svo að fólk er að verða hálf dofið fyrir þessum óhugnaði. Segja má að varla sé hægt annað, einsog þessar fréttir dundu yfir áður en skuggi olíustríðsins gegn Írak féll yfir. Fólk þolir kannski ekki nema ákveðið magn af slíku þegar svo ekkert er gert til að stöðva stríðsglæpina. Nóg er til af velmeinandi yfirlýsingum yfirgnæfandi meirihluta Sameinuðu þjóðanna, en alla tilburði til að binda enda á ofbeldið hafa Bandaríkin stöðvað með neitunarvaldi hjá Öryggisráðinu. 

Nýi “Berlínarmúrinn” 

Það sem færri vita er að mjög alvarleg þróun er að eiga sér stað á Vesturbakkanum þar sem landránið er að taka á sig nýja mynd og nýjar víddir með aðskilnaðar-múrnum, 350 km löngum og gríðarháum steinsteypuvegg sem auk rafmagnsgirðinga á að girða Palestínumenn af. Halda mætti að múrinn fylgdi bráðabirgða landamærunum, “grænu línunni” svokölluðu sem fram til 1967 skildi að  Ísrael og land Palestínumanna, en svo er ekki. Múrinn er lagður langt inni á landi Palestínumanna og er lagður þannig að stórar landtökubyggðir Ísraela á Vesturbakkanum eru innan hans og um leið fjölmörg byggðarlög Palestínumanna. Í öðrum tilvikum eru innan múrsins landnytjar og vatnsból palestínskra bænda, þótt hýbýli þeirra séu austan megin. Mikið land hefur verið gert upptækt til þessara framkvæmda “af öryggisástæðum” og alls er talið að ekki minna en 40% af Vesturbakkanum verði gert að ísraelsku landi til frambúðar ef þetta nær fram að ganga. 

Appartheid-múr Sharons bætist við 

Það sem gerir þessa framtíðarsýn sérdeilis ógnvekjandi er að til viðbótar múrnum sem snýr að Ísrael og var hugmynd Verkamannaflokksins hefur Sharon nú fullkomnað glæpinn með áætlun um að byggja einnig 300 km langan múr austan Vesturbakkans sem snýr að Jórdan og umlykja á herteknu palestínsku svæðin þannig með þessum appartheid-múr að þau verði eitt risastórt fangelsi. Kostnaðaráætlun fyrri hlutans er rúmur milljarður bandaríkjadala og síðari hlutinn mun kosta svipað eða alls á þriðja miljarð dala. Eftir er að sjá hvort Sharon takist að fá Bandaríkjastjórn til að greiða líka fyrir þennan hernað gegn Palestínumönnum. Það er ekki ólíklegt þar sem með þessum aðgerðum telur Sharon sig vera að koma til móts við yfirlýsingar Bush um um sjálfstætt ríki Palestínumanna sem er nokkuð sem Sharon hefur aldrei fallist á og enn síður samstarfsflokkar hans í núverandi ríkisstjórn hægri flokka og öfgafullra bókstafstrúarmanna. Þeir eru á því að Palestínumenn eigi engan rétt til Palestínu og stefna leynt og ljóst að þjóðernishreinsunum með því að flæma Palestínumenn burt í stórum stíl eða flytja þá nauðungarflutningum. 

Ómerkilegt áróðursbragð að blanda Palestínu í málið 

Yfirlýsingar Bush og rakkans í London um sjálfstætt ríki Palestínumanna sem settar voru fram rétt áður en árásarstríðið hófst með loftárásum á Írak, eru lítið annað en ómerkilegt áróðursbragð til sjálfsréttlætingar og minntu á tilraunir Saddams Hussein haustið 1990 til að blanda Palestínu í málið þegar Írak hafði ráðist inn í Kúveit. Þó verður að segja að það sé enn ósmekklegra og fáranlegra af Bush að ætla að slá sig til riddara fyrir frelsun Palestínu, þótt vart megi á milli sjá. Það er löngu ljóst að Bush Bandaríkjaforseti mun ekki knýja Ísraela til að fara að alþjóðalögum og samþykktum Sameinuðu þjóðanna. Þvert á móti er Bandaríkjastjórn og þing ákveðin í að styðja við bakið á útþenslustefnu herforingjanna sem stjórna Ísrael. Ráðandi öfl í Bandaríkjunum líta enn á Ísrael sem sinn útvörð í Austurlöndum nær, hernaðarlega og efnahagslega. Bush mun ekki gera neitt sem brýtur í bága við það sem Ísraelstjórn skilgreinir sem öryggishagsmuni sína. Þá breytir engu hvort allur heimurinn sjái og viti að öryggi verði ekki tryggt nema friður komist á, og að varanlegur friður komist ekki nema réttlát lausn sé fundin er byggi á alþjóðalögum, sjálfsákvörðunarrétti palestínsku þjóðarinnar jafnt og allra annarra, mannréttindum öllum til handa, að ógleymdum 3,5 milljónum palestínskra flóttamanna. 

Sveinn Rúnar Hauksson læknir,
formaður Félagsins Ísland-Palestína