DANSKA VALDIÐ Í GÓÐU LAGI: BÓKIN HNIGNUN, HVAÐA HNIGNUN?
Síðastliðið haust sendi Axel Kristinsson frá sér bókina Hnignun, hvaða hnignun? Goðsögnin um niðurlægingartímabilið í sögu Íslands. Á bókarkápu stendur: „Um hríð hafa flestir Íslendingar trúað því að miðbikið í sögu þeirra á árnýöld sé tími hnignunar, eymdar og volæðis... Hér eru færð rök fyrir því að hugmyndin um hnignun og niðurlægingartímabil sé pólitísk goðsögn – mýta – sem var búin til í sjálfstæðisbaráttunni á 19. öld og þjónaði þörfum hennar með því að mála erlend yfirráð sem dekkstum litum.“
Í formála segir: „Þetta er deilurit fremur en eiginleg sagnfræðileg rannsókn og er ætlað að vekja umræðu og efasemdir, einkum meðal almennings.“ Axel er prýðsivel ritfær, stíll hans raunar alþýðlegur, hann þekkir fræðasviðið vel og skapar því breitt yfirlit. Sumum helstu niðurstöðum hans er ég þó alveg ósammála. Þessi ritdómur hér er innlegg í þessa „umræðu meðal almennings“, mætti kalla hann „deiluritdóm“ um „deilurit“.
Nokkrum kenningum um hnignun hafnað
Nokkrar kenningar eru til um orsakir hnignunar. Axel hafnar þeim öllum (misharkalega), einfaldlega af því hann telur enga hnignun hafa átt sér stað. Langmest púður fer í að hafna kenningunni um stöðnun og hnignun landsins á árnýöld (sérstaklega á 17. og 18. öld) vegna erlendra yfirráða, viðhorf sem verið hefur fastur hluti af sjálfsmynd Íslendinga í meira en öld (sjá síðar).
Reyndar byrjar Axel á að fjalla um nýlega og öfgakennda útgáfu hnignunarkenningar: Að Ísland hafi fyrir aldamótin 1900 verið eitt fátækasta eða jafnvel „fátækasta land í Evrópu“. Sú útgáfa hefur talsvert verið notuð af stjórnmálamönnum og bloggurum eftir 2000 og hvað mest var hún viðhöfð á útrásarárunum fyrir hrun. Axel rekur notkun þessarar klisju í stórum stíl til afbökunar fólks á orðum Guðmundar Jónssonar, sérfræðings í hagsögu, sem komst að eftirfarandi niðurstöðu árið 1999 í bókinni Hagvöxtur og iðnvæðing: „Þjóðhagsreikningar sýna ótvírætt að Ísland var eitt fátækasta land Vestur-Evrópu á seinni hluta 19. aldar...“ Hér miðar Guðmundur Jónsson við landsframleiðslu á mann. Axel andmælir ekkert þessari niðurstöðu Guðmundar en bendir réttilega á að í þessu efni sé reginmunur á „Vestur-Evrópu“ og „Evrópu“. Hins vegar slær svo Axel nokkrum sinnum fram í bókinni því gagnstæða við niðurstöðu Guðmundar og segir: „Við höfum áður séð (í 1. Kafla) að miðað við landsframleiðslu á mann var Ísland alls ekki fátækt land á síðari hluta 19. aldar...“ (bls. 108).
Ein orsakakenningin er sú sem skýrir stöðnun/hnignun með hömlum á verslunar- og atvinnufrelsi. Áður kenndu sagnfræðingar einkum danska valdinu um það, en á seinni árum hefur orðið algengt að kenna um íhaldssemi í bændasamfélaginu sem hamlaði gegn þróun útgerðar og borgaralegra atvinnuhátta. Axel kallar þessa kenningu „frjálshyggjukenninguna“ og hafnar henni að miklu leyti.
Önnur vinsæl kenning segir að þjóðin hafi ofnýtt og rányrkjað landið, að landið á sínu lága þróunarstigi atvinnuhátta hafi ekki borið meira en 50.000 manns, þá verið fullsetið, og hafi það valdið landeyðingu ef mannfjöldinn fór hærra. Þessar tvær orsakakenningar (atvinnuhömlur, rányrkja) eiga það sammerkt að telja að íhaldssamir búskapar- og samfélagshættir hafi leitt til hnignunar. Í samfloti við Árna Daníel Júlíusson hafnar Axel því alveg að landbúnaðurinn hafi ekki getað brauðfætt fleira fólk og færir fyrir því ýmis sterk rök. Hann álítur að búandlýðurinn hafi einfaldlega framleitt eins mikið og hann hafði þörf fyrir en ekki meira, þar til búskapur fyrir markað tók sig upp á 19. öld. Og Árni Daníel hefur vissulega náð að sá efa um goðsöguna af stöðnun landbúnaðarins.
Eyjaáhrifin
Í stað þessara kenninga setur Axel fram aðra. Um mannfjöldaþróun sem afgerandi og sjálfstæðan orsakaþátt. Stöðnunina í mannfjöldaþróun á Íslandi í margar aldir telur Axel að rekja megi til drepsótta og þess sem hann kallar „eyjaáhrifin“ í munstri og virkni smitsjúkdóma: að sóttir komi sjaldnar í eyjar en geysi því skæðar þegar þær koma. Þetta hafi valdið mannfæð á Íslandi og síðan telur hann mannfæðina vera helstu skýringuna á hægri efnahagsþróun. Þar við bættist sterk staða bænda sem unnu gegn því að of margir fengju að stofna heimili. Og samanlagt: „Margt af því sem telja má til sérkenna Íslands og hefur gjarnan verið bent á sem hnignun er í raun ekkert annað en afleiðing af mannfæð tímabilsins“ (133).
Axel gefur farsóttaþættinum gríðarmikið skýringargildi. Þátturinn er vísast þungvægur, en segja má að Axel skipti út nánast öllum skýringarþáttum fyrir þennan eina, og mér finnst það mjög langt seilst. Ef gera á þetta að miklu stærra og alvarlegra atriði hérlendis en annars staðar þyrfti að rökstyðja það með samanburði Íslands við meginlendið sem hér er ekki gert. Það er t.d. orðið algengt í alvaralegri sagnfæði að telja að helmingur Evrópubúa hafi farist í Svartadauða án þess að þar kæmu til eyjaáhrif.
„Módernisminn“ í túlkun sjálfstæðisbaráttunnar
Höfnun Axels á kenningunni um stöðnun og hnignun á Íslandi vegna yfirráða Dana er vissulega ekki ný bóla. Hún fellur ljóslega inn í sagnfræðilegan skóla sem símeira hefur farið fyrir frá því á tíunda áratugnum og ýmist er kenndur við módernisma í þjóðernishyggjurannsóknum eða „söguendurskoðun“. Þetta viðhorf dregur fram misræmi á milli annars vegar sjálfstæðiskrafna Íslendinga gagnvart Dönum og hins vegar afturhaldsafstöðu íslenskra framámanna í félagsmálum (sem sumir kalla „stórbændaíhald“) . Margir höfðu áður uppgötvað að íslenska landbúnaðarsamfélagð var stéttskipt en ýmsir fulltrúar hefðbundnu þjóðernisútgáfunnar skrifuðu samt eins og Íslendingar væru „allir á sama báti“.
Hina gagngeru endurskoðun gagnvart sjálfstæðisbaráttunni væri eðlilegt að kalla „andþjóðernislega“ söguskoðun svo mjög hefur hún breytt formerkjum í túlkun þessa hluta þjóðarsögunnar. Fremstur í þessum fræðaskóla hefur farið Guðmundur Hálfdanarson sem árið 1986 taldi eðlilegt að „spyrja hvort upphaf baráttunnar fyrir íslensku þjóðfrelsi megi ekki rekja til þeirrar viðleitni Íslendinga að verjast frjálslyndi Dana“. (Tímarit Máls og menningar 4 1986, 466). Það má svo hiklaust fullyrða að á 21. öld hafi – bæði meðal sagnfræðinga og í fjölmiðlaumræðu um Íslandssöguna – miklu meira borið á túlkunum í þá veru að bágindi íslensks almennings og þjóðar hafi stafað af valdníðslu íslenskrar yfirstéttar fremur en af kúgun Dana.
Axel gerir reyndar lítið úr kenningu margra „módernista“ um vistarbandið sem hið hroðalega kúgunartæki bænda á vinnuhjúum sínum, eiginlega þrælahald. Sambærileg lög hafi verið í gildi í flestum nágrannalöndum, segir hann. Þegar vistarbandið var svo afnumið um 1900 hafði útgerð þróast verulega og hagvöxtur líka svo að „ástæðulaust er að kenna því um meinta stöðnun íslensks samfélags.“ Og Axel gengur lengra: Að teknu tilliti til margfalt minni verðmætasköpunar „var vistarskyldan ekki svo frábrugðin launavinnu í nútímanum. Í henni fólst að fólk réði sig til vinnu eitt ár í senn og á meðan hafði bóndinn forræði og réði störfum þess... Ef líkja á þessu við þrælahald verðum við eiginlega að segja að öll launavinna feli í sér þrælahald.“ ( 184) Það eru góð og gild rök, finnst mér.
Kröftuglega tekið undir „módernisma“
Hins vegar er tekið undir með Guðmundi Hálfdanarsyni þegar Axel segir: „Raunar virðist sjálfstæðisbaráttan hafa í nokkrum mæli verið borin uppi af íhaldssemi ráðandi afla í íslenska bændasamfélaginu gagnvart nútímavæðingu ríkisvaldsins.“ (69). Almennt tekur Axel undir módernísku greininguna um mikla misskiptingu auðs í landinu og valdníðslu íslenskrar yfirstéttar framan af nýöld, en hann heldur fram að misskiptingin hafi minnkað mjög og landeigandi yfirstétt skroppið saman á 18. öld fyrir tilstilli hins vaxandi (danska) ríkisvalds sem studdi „nútímavæðingu“ (169-176).
Þá komum við að því sem kalla verður boðskaparkjarna þessarar bókar: sterk og eindregin andstaða við það sem Axel nefnir „þjóðernislega söguskoðun“, það sem áður gilti sem viðtekið viðhorf hér til lands um kúgun Dana á Íslendingum og hnignun af þeim sökum.
Axel skrifar: „Um aldamótin 1900 verða hugmyndir um að stefna beri að fullu sjálfstæði algerlega ríkjandi á Íslandi og á sama tíma virðist verða algerlega ríkjandi hin þjóðernislega söguskoðun um hnignun undir erlendum yfirráðum... Svo ríkjandi varð hún að það sjást eiginlega engar efasemdir fyrr en undir lok 20. aldar og þá aðeins í þröngum hópi sagnfræðinga.“ (65) Axel vísar til Guðmundar Hálfdanarsonar um það að sjálfstæðisbaráttan hafi ekki aðallega verið háð við Dani, segir síðan: „kannski er ástæða til að ætla hið gagnstæða, að danska ríkisvaldið og einveldið hafi ekki verið hluti af einhverri niðurlægingu eða hnignun heldur þvert á móti skapað grundvöllinn undir nútímavelferð landsmanna.“ Ennfremur skrifar Axel: „Þá má kannski segja að Íslendingar hafi verið fórnarlömb eigin ranghugmynda um hningnun sem hafi sannfært þá um að Ísland væri fátækt og vanburða land. Þessu þurftu þeir að trúa til að vilja berjast fyrir sjálfstjórn...“ (103).
Um þróun þjóðernisútgáfunnar síðustu hálfa öldina skrifar hann: „Ekki er svo að skilja að þjóðernisútgáfan sé horfin. Áherslan hefur hins vegar breyst úr andúð á Dönum vegna óstjórnar þeirra í að sjálfstæðið sjálft sé svo hagfellt... Í þessum búningi á hugmyndin sér enn traust bakland hjá hinum þjóðernissinnaðri landsmönnum sem grípa óspart til hennar ef þeir telja fullveldi landsins ógnað.“ (66) Í framhaldinu vitnar Axel í orðræðuna um aðild Íslands að Evrópusambandinu og skrifar svo: „Afar athyglisvert er að sjá hvernig brenglaðar hugmyndir um sögu þjóðarinnar eru enn notaðar til að rökstyðja afstöðu í pólitískum deilumálum samtímans.“ (67) Enn fremur: „Hún (hnignunamýtan) er enn notuð af sumum þjóðernissinnum til að rökstyðja andstöðu við það sem þeir sjá sem afsal fullveldis eins og þátttöku í alþjóðasamstarfi á borð við NATO, EES eða ESB“. (57)
Ég vil hér taka undir hugsanagang Axels þess efnis að hin hefðbundna (þjóðernislega) söguskoðun hafi verið og sé mótuð af viðhorfum fólks til álitamála sinnar samtíðar. Og nýir straumar í sögutúlkun á nýrri öld mótast af „afstöðu til þátttöku í alþjóðasamstarfi“. Líklega líka túlkun Axels sjálfs. Ég tel reyndar að söguskoðun verði óhjákvæmilega undir áhrifum hugmyndafræði og pólitískra viðhorfa. Túlkun sagnfræðings á Rússnesku byltingunni mun alltaf mótast af því hvort hann/hún hefur sósíalískar skoðanir eða ekki. Og túlkun á íslensku sjálfstæðisbaráttunni verður alltaf háð því hvort menn telja að „sjálfstæðið sjálft sé svo hagfellt“ eða ekki. Það er einmitt nærtækt að tengja hinn afar gagngera umsnúning í sögutúlkun á íslenskri sjálfstæðisbaráttu við EES-aðild okkar 1993 (framsal hluta fullveldisins) og mikla og vaxandi ESB-jákvæðni íslenskrar menntaelítu síðan. Hjá menntaelítunni sem mestu ræður í fjölmiðlaumræðunni og með uppgangi frjálshyggju og hnattvæðingarhyggju í efnahagslífinu snarminnkaði eftirspurnin eftir þjóðernislegri söguskoðun. Og það birtist líka í áðurnefndum „módernisma“. Mér finnst ólíklegt að þar komi bara til nýjar sögurannsóknir heldur einnig, og öllu fremur, ný hugmyndafræði, ný pólitík.
Átakalínurnar frá 16. öld og áfram
Þegar Axel Kristinsson hrekur þjóðernislega söguskoðun dvelur hann einkum á 17. og 18. öld. Það er sá tími sem Jón Aðils, fyrsti fulltrúi þeirrar söguskoðunar í fagstétt sagnfræðinga, skilgreindi sem „niðurlægingartímabilið“ (reyndar allt aftur til siðaskipta 1550). Um það skrifar Axel: „...rétt er að halda því til haga að hin erlenda valdstjórn hafði lengst af lítil áhrif á líf almennings í landinu og þegar þau áhrif fóru vaxandi á árnýöld voru þau fekar til að bæta hag hans eins og áður er komið fram. Ef íslenskur almúgi var kúgaður þá var það frekar hin innlenda yfirstétt sem stóð fyrir því en reyndar er ekkert sem bendir til að Íslendingar hafi almennt verið kúgaðri en annað fólk í Evrópu á sama tíma“ (99-100).
Axel stillir upp átakalínum 16. aldar sem átökum gamals höfðingjaræðis og umbótasinnaðs ríkisvalds: „...réttara að líta á Jón Arason sem síðasta fulltrúa gamla höfðingjaræðisins sem þorði að láta sverfa til stáls og stóð í vegi nútímalegs ríkisvalds, réttarríkis og nútímalegrar stjórnsýslu“ (94). Og konungsvaldið var að hans mati jákvætt afl sem breytti ófriðsömu Íslandi í friðsamt: „Hitt er einnig ljóst að innanlandsfriður á Íslandi hefur staðið í nokkurn veginn beinu sambandi við styrk konungsvaldsins." (99)
Eins og Axel lýsir átakalínunum var ríkisvaldið í raun afl til jöfnunar auðs og aðstöðu, afl sem átti í höggi við aristókratískt höfðingjaræði. „Frá því á 16. öld tók ríkisvald að eflast stórlega, hér sem annars staðar, en vald höfðingja og verndarkerfi þeirra rýrnuðu smám saman. Við það veiktist íslenska yfirstéttin verulega en það mun aftur hafa styrkt stöðu almennra bænda.“ (193)
Hér vil ég benda á aðra greiningu, mótkenningu. Það ferli sem hér um ræðir var einfaldlega sú strúktúrbreyting sem varð á hinu lénska þjóðskipulagi með tilkomu einveldisins í V-Evrópu á árnýöld – eins og hún birtist í Danaveldi. Konungsvaldið var þá eflt á kostnað hins lénska höfðingjaræðis. Því fylgdi tilkoma EMBÆTTISAÐALS við hlið hins áður sjálfráða landeignaaðals sem gjarnan hafði átt í innbyrðis erjum og vopnuðum illdeilum. Aðalsmenn urðu að taka upp nýjar áherslur: í stað þess að kreista stöðugt meiri arð út úr bóndanum (landseta sínum) gerðust þeir konunglegir embættismenn og náðu sínu gegnum skatta og opinber gjöld með hjálp skrifræðiskerfis og opinbers hers, en konungsvaldið/ríkið tók sér einokun á valdbeitingu.
Það er mjög hæpið að breyting þessi hafi „styrkt stöðu almennra bænda“. Með samþjöppun hins pólitíska valds þjónaði ríkisvaldið aristókratíinu sem heild miklu betur en meðan pólitíska valdið var dreifðara. Stéttareðli ríkisvaldsins var óbreytt en YFIRSTÉTTIN SJÁLF BREYTTIST. Um strúktúrbreytingar hins síðlénska skipulags skrifar Perry Anderson:
„Í þessu ferli var hin lénski aðall skyldaður til að leggja af gamlar hefðir og læra nýjar. Hann varð að losa sig við hernaðarvenjur einkavaldbeitingar, félagslegar lénsmannatryggðir, arfgengt efnahagslegt makræði, pólitískt sjálfstæði og menningarlegt ólæsi. Hann varð að tileinka sér dyggðir sem agaður liðsforingi, skrifandi embættismaður, fágaður hirðmaður og ráðdeildarsamur landeigandi.“ (Perry Anderson, 1974, Lineages of the Absolutist State, London, Verso, bls. 48)
Það sem Axel lýsir einfaldlega sem tilkomu „réttarríkis og nútímalegrar stjórnsýslu“ er að minni hyggju þessi strúktúrbreyting á lénsku skipulagi. Önnur hlið á breytingu hins léska kerfis yfir í einveldiskerfi var tilkoma kaupskaparkapítalismans (merkantílismans) í versluninni sem Axel fjallar nokkuð um. Þetta ferli má skoða sem vísi að kapítalisma eða sem umskiptaþjóðskipulag, og borgarstéttin (með nýrri menntastétt, hæfileikaveldi m.m.) var dregin inn í stjórnkerfi kóngs og aðals. Danska einokunin átti að „efla danska kaupmannastétt“. En í meginatriðum héldust samt hinir lénsku hættir. Oldenborgar-einveldið á 17. og 18. öld endurspeglaði almenna vesturevrópska þróun. Styrking ríkisvaldsins þýddi að það þjónaði betur en áður sinni stétt. Hið stéttarlega arðrán BREYTTI UM FORM og færðist meira í form opinberra skatta, tolla og afgjalda. Böndin sem bundu hina búandi framleiðendur við yfirstéttina urðu ÓBEINNI en áður, fyrir milligöngu ríkisvaldsins.
Minnkaði arðránið?
Arðránið hafði ekki minnkað. Í heild var um að ræða gríðarlega auknar álögur á þegnana sem runnu til hins stóreflda ríkisbákns (ekki síst til stríðsreksturs); frá dönskum þegnum, frá Noregi, frá Íslandi og öðrum hlutum konungdæmisins. Ég las hjá Kåre Lunden að skattatekjur dansk-norska ríkisins hafi aukist snögglega, TUTTUGU-FALDAST á tímabilinu 1620-1679 (Kåre Lunden, 1993, Nasjon eller union?, 39) Og sama þróun hélt áfram á 18. öld. En þrátt fyrir þessa miklu margföldun skattanna bendir Axel sjálfur á að tekjur konungs hafi samt verið enn meiri af verlsuninni en af sköttum, og að þetta hafi verið almennt einkenni á tímum merkantílismans í V-Evrópu. Gjöld á verslun voru, skrifar hann „valkostur við beina skattheimtu og gátu komið í staðinn fyrir hana. Ríkisvaldi var því í mun að vernda og efla verslun því hún var kýrin sem mjólkaði best.“ (158)
Hvert runnu þessar stórkostlega auknu álögur? Þær runnu út úr Íslandi, út úr Noregi og öðrum hjálendum Danmerkur. Til Kaupmannahafnar og birtust í örri efnahagsþróun þar. Þar varð uppbyggingin í ríkisstofnunum (embættisaðall), verslunarfélögum (merkantílískir kaupmenn), menntastofnunum, iðnaði, flota. Uppbygging varð í Danmörku, aftöppun á Íslandi eða Noregi. Danska ríkið var ekki mjög frábrugðið öðrum fjölþjóðlegum einveldisríkjum Evrópu á þessum tíma, Spáni, Frakklandi, Bretlandi, Austurríki – og staða Íslands þannig hliðstæð stöðu Katalóna, Bretóna, Íra eða Tékka – en einmitt þannig virkaði einveldið. Skoðum helstu þætti þessa arðráns, fyrir Ísland.
JARÐEIGNIR: Í fyrsta lagi jók ríkið eignir og tekjur sínar með stóauknum jarðeignum konungs eftir siðaskipti (klausturjarðir, sektarjarðir). Eignir kirkju og biskupsstóla gengu líka undir konungsvaldið þó það væru sjálfseignarstofnanir( og verulegar tekjur runnu til kóngs líka, sakeyrir, meginhluti biskupstíundar..). Þessar tekjur minnkuðu á 18. öld vegna harðinda, en þegar svo stólsjarðir voru seldar hirti konungsvaldið söluandvirðið.
SKATTAR: Axel skrifar: „Ljóst er að skattar voru almennt lágir á Íslandi... Það er því nokkuð ljóst að ef einhver erlend kúgun átti sér stað þá birtist hún að minnsta kosti ekki í skattpíningu“ (101-102). Skatturinn var flatur og meirihluti bænda var skattlaus vegna fátæktar. Það er vísast rétt hjá Axel að Íslendingum hafi tekist betur en t.d. bændum í Danmörku og Noregi að forðast hækkandi skattaálögur, ekki síst í harðindum 18. aldar.
VERSLUNIN: Verslunararðurinn rann allur til Danmerkur. Gísli Gunnarsson skrifar: „Enginn vafi leikur á því að frá árinu 1662 var leigugjald það sem kaupmenn greiddu konungi fyrir einkaleyfisrétt sinn í Íslandsversluninni mikilvægasta tekjulind konungs af landinu.“ Axel tekur undir það: „Tekjur ríkisvaldsins í Kaupmannahöfn af Íslandi munu að jafnaði hafa verið talsvert meiri af verslun en af sköttum og jarðarafgjöldum.“ Þá eru ótalin margfeldisáhrif Íslandsverslunar í Danmörku. Gísli Gunnarsson skrifar: „Jákvæð áhrif Íslandsverslunarinnar á atvinnulíf Kaupmannahafnar hafa vafalaust verið mikilvægari fyrir eflingu borgarinnar en hreinn arður af versluninni. Hún var meginstoðin í siglingum Kaupmannahafnarbúa til fjarlægari landa tímabilið 1602-1750 og veitti fjölda þeirra atvinnu.“ (Upp er boðið Ísaland, 268). Snemma á 18. öld sigldu 16-20 skip árlega til Íslands og voru „mjög dýrmæt fyrir skipaeigendurna, sjómenn bændur og iðnaðarmenn“ og 1761 veitti Íslandsverslunin 2000 manns vinnu í Danmörku.“ (Upp er boðið Ísaland, 222)
Verslunin varð sem sagt mikilvægasta form arðránsins á Íslendingum. Það var því rökrétt að Almenna bænaskráin 1795 var „fyrst og fremst ákæra á verslunarhætti“ (Lýður Björnsson, Saga Íslands 266). Og þegar Jón Sigurðsson reiknaði hvaða fjárhagaskröfur Íslendingar ættu á danska ríkissjóðinn voru langhæstu kröfurnar vegna arðsins af einokurarversluninni. Frá byrjun íslenskrar þjóðfrelsisbaráttu litu þjóðernissinnar á verslunarhættina sem arðrán og sem hemil á þróun landsins.
Eignafærsla og hnignun
Sá arður sem rann frá Íslendingum til konungsvaldsins var fyrst einkum í formi landeigna og landskulda en færðist síðan yfir í form einokunarverslunar sem meginform. Ég tel að líta megi á eignanám konungs á klaustureignum ásamt yfirstjórn kirkjumála og síðan eignaupptaka stólsjarða sem EIGNAFÆRSLU á löngum tíma frá Íslandi til Danmerkur – samhliða arðráni gegnum einokunarverslun. Það rímar líka við það að fjárhagskröfur Jóns Sigurðssonar snertu einkum tekjur konungsvaldsins af jarðeignum og af einokunarversluninni.
Þetta gerist samtímis strúktúrbreytingu á hinni gömlu yfirstétt lénskerfisins. Þannig gerðist það að gamla íslenska yfirstéttin hvarf að miklu leyti, öllu heldur: yfirstéttin færðist úr landinu. Fyrir tilstilli konungsvaldsins. Með þessu er ekki sagt að lágstéttir Íslands hefðu haft það mikið betra ef yfirstéttin hefði dafnað í landinu. Það verður alltaf samanburður við aðra réttindasnauða alþýðu og hvað Ísland varðar verður hann auk þess í tilgátuformi.
En sem heild dafnaði samfélagið ekki. Guðmundur J Guðmundsson skrifar í (annars ekki neikvæðum) ritdómi um Hnignun, hvaða hnignun?: „Hvað á að kalla það þegar íbúum lands fækkar um meira en helming í drepsótt og nær sér ekki almennilega á strik fyrr en 500 árum síðar, búfé fækkar stórlega og mörg býli fara í eyði til langframa? Mér dettur bara í hug orðið hnignun og þá skiptir engu þótt þeir sem eftir tórðu hafi haft það þokkalegt miðað við aðstæður.“ (Saga, 2019, 203)
Íslenskir þjóðfrelsissinnar „fórnarlömb eigin ranghugmynda“?
Axel skrifar að Íslendingar hafi „kannski“ verið „fórnarlömb eigin ranghugmynda“ um hnignun og fátækt en „þessu þurftu þeir að trúa til að vilja berjast fyrir sjálfstjórn“. Hugmyndir á bak við þjóðernislega baráttu Íslendinga á 19. öld, auk hugmynda um hignun, voru hugmyndir um þjóðríki (saman skuli falla mörk þjóðernis og ríkis), þjóðveldi (popular sovereignty), sjálfsákvörðunarrétt þjóða og lýðræði. Þessar hugmyndir þróðuðust í framhaldi af evrópskum byltingaröldum 1789, 1830 og 1848. Þær gripu fyrst Íslendinga í Kaupmannahöfn. Sömu hugmyndir gerjuðust í Danmörku á sama tíma – þjóðernisfrjálshyggjan reis þar til mikilla áhrifa og það virkaði líka sem hvati á Íslendingana.
Það blasir við að Íslendingar reyndust mjög móttækilegir fyrir pólitískri þjóðernishyggju og hún náði furðu fljótt líka til bænda og almennings. Á Þingvallafundi og Þjóðfundi 1851 voru settar fram kröfur sem fólu í sér fullvalda ríki í konungssambandi við Danmörku. Gunnar Karlsson skrifar: „Lítið er vitað um afstöðu almennings til hennar [þjóðernishyggjunnar] fyrr en um miðja öldina. En yfirgnæfandi fylgi þjóðkjörinna fulltrúa á Þjóðfundinum 1851 við róttæka sjálfstæðisstefnu Jóns Sigurðssonar virðist sýna að ekki síðar en þá hafi að minnsta kosti flestir bjargálna bændur verið komnir yfir á stefnu hans.“ (Saga Íslands IX, 310).
Næmi Íslendinga á 19. öld fyrir þjóðernishyggjunni á sér auðvitað fjölþættar orsaskir. Menningarleg einsleitni á Íslandi rímaði mjög vel við hugmyndir þjóðernissinna um þjóðríki. Sameiginleg menningarleg fortíð, tilvist sjálfstæðs samfélags („fríríkis“) í fortíðinni með sinn menningararf (og allar goðsagnir honum tengdar) styrkti sem kunnugt er sjálfskennd þjóðarinnar. Fjarlægð hins danska stjórnvalds frá íslenskum vettvangi samræmdist illa gróandi hugmyndum um lýðræði, vald þegnanna í eigin málum. Loks er það sú hugmynd/kenning baráttumanna fyrir sjálfsstjórn sem mest var notuð: að landið hefði verið vanrækt, arðrænt og dregist aftur úr (því hafi hnignað).
„Módernistar“ í túlkun sjálfstæðisbaráttunnar hafa undanfarið sagt að þessi síðasttöldu sjálfstæðisrök hafi byggt á misskilningi og í umræddri bók er því enn kröftuglega haldið fram. Ekki samt nógu kröftuglega til að sannfæra, en það hvetur aðra til að brýna sín rök.
Greinin birtist einnig í Neista.