FULLVELDIÐ Á VINSTRI VÆNGNUM
Umræðan um orkupakkann ólgar og sýður. Hugtakið FULLVELDI kemur þar í sífellu upp. Svo mjög að segja má að umræðan um orkupakkann birti um leið afstöðu viðkomandi til fullveldisins. Orkupakkinn er ágætis hnotskurn! Um afstöðu ólíkra hópa til fullveldisins má segja að „sínum augum lítur hver á silfrið“. Annars vegar eru þeir sem tala um „orkuna okkar“ og vilja verja „fullveldið í orkumálum“ og hins vegar þeir sem segja ýmist að orkan sé bara eðlileg vara eins og fiskur og ferðamenn eða þá að málið snúist „einkum um náttúruvernd og neytendavernd í orkumálum“. Við fullyrðingu þeirra fyrrnefndu um fullveldisframsal er algengasta svar hinna síðarnefndu: „Þetta hefur ekkert með fullveldi að gera!“
Pólarnir á vinstri vængnum
Þessi andstæðu meginviðhorf birtast skýrt og skarpt í pakka-umræðunni á vinstri væng. Ákafast við JÁ-PÓLINN er það sem kalla má „frjálslynda vinstrið“. Það er mjög svipað mengi og „evrópuvinstrið“. Ákefðin er skiljanleg í ljósi þess að í pakkamálinu er EES-samningurinn í nokkru uppnámi nema öll EFTA-löndin samþykki pakkann. Höfnun á honum er að því leyti höfnun á EES. En þetta fólk telur gjarnan „fullveldi“ vera úrelt hugtak sem aðallega sé áróðurshugtak þjóðernispopúlista (sem beita vissulega fullveldishugtakinu þegar þeir tala gegn hnattvæðingu m.m.). Íslenska frjálslynda vinstrið vill nú helst tengja allt fullveldistal í orkumálum við Miðflokkinn. Þetta er í samræmi við línuna frá Brussel sem felur í sér ákveðna umræðutækni og drottnunartækni. Hún er þessi: Stimplum alla andstöðu við fjórfrelsið og hinn skrifræðislega Evrópusamruna sem popúlisma og öfgahægrimennsku! „Sagðir þú fullveldi? Þjóðremba, popúlismi, nasismi, úlfur, úlfur!“ Sérfræðingur já-fólksins er prófessor Eiríkur Bergmann sem RÚV leitar ALLTAF til varðandi popúlisma og öll álitaefni varðandi „Evrópumál“.
Hinir róttækari í þessum hópi tala niðrandi um „fullveldi og önnur borgaraleg gildi“ sem bara gegni því meginhlutverki að gera gera auðstéttina og verkalýð að samherjum. Þeir hæða fólk óspart fyrir að vilja frekar láta innlent auðvald arðræna sig en erlent o.s.frv.
Við NEI-PÓLINN eru svo þeir vinstrimenn sem telja fullveldið mikils verðan hluta af lýðræðinu. Fullveldið markar jú línu kringum lögsögu þjóðríkisins. Það sem er innan línunnar er í lögsagnarumdæmi viðkomandi ríkisvalds, þjóðþings þess og þjóðkjörinna stofnana. Sem marxisti veit ég vel hvaða öfl ráða mestu í lögsagnarumdæmi íslenska þjóðríkisins. Það er íslenska auðvaldið, nánar tiltekið einokunarauðvaldið. Að því leyti má líta á lögsagnarumdæmi íslenska fullveldisins sem arðránslögsögu íslenskrar borgarastéttar (sú stétt er reyndar töluvert „komin í bland við“ tröll fjölþjóðlegra einokunarauðhringa, t.d. í bankakerfi, stóriðju og innflutningsverslun). Samt hefur íslenskur almenningur og almannasamtök formlega aðkomu að stofnunum almannavaldsins og alþýðan hefur alltaf möguleika á að byggja upp „mótaflið“ í samfélaginu á heimavelli og auka áhrif sín.
Á Alþingi Íslendinga sýnist það lið sem helst skilgreinir sig sem „vinstrimenn“ nú skipa sér í hnapp við já-pólinn. Afstaða Samfylkingarinnar í skyldum málum (aðildarumsókn, hrátt kjöt, orkupakkar) hefur alltaf legið fyrir. Á undanförum áratug hefur VG verið að renna sér úr síðarnefnda hópnum í þann fyrrnefnda. Þessi vinstrimennska hérlendis er t.d. einkennilega ólík pólitísku línunum í Noregi en þar hafa róttæku vinstriflokkarnir leitt baráttuna gegn pakkanum (auk verkalýðshreyfingarinnar) en Hægri flokkurinn og popúlistarnir í Fremskrittspartiet leiða stuðninginn við hann.
Mun stórnmálastéttin standa í lappirnar?
Verður lagður sæstrengur? Ég ætla ekkert að fullyrða um það hvort fyrirvarar Alþíngis haldi gagnvart Evrópudómstólnum. Þeir sýnast ekki vera „í anda“ samningsins og reglugerð 3. pakkans þar sem segir: „Aðildarríkin skulu vinna náið saman og fjarlægja hindranir í vegi viðskipta með raforku og jarðgas yfir landamæri í því skyni að ná fram markmiðum bandalagsins á sviði orku.“ Eru fyrirvararnir ekki einmitt slíkar „hindranir“? Hvað um það: Setjum svo að orkuskortur í Evrópu haldi áfram að aukast. Setjum svo að gull sé í boði, t.d. þrefalt verð miðað við það sem stóriðjan á Íslandi býður. Við vitum hvar valdið liggur á íslenskum fjármálamarkaði, og þyngstu hagsmunir í efnahagskerfinu sjá hér gríðarlega möguleika á hámörkun gróða síns. Mun þá Alþingi standa í lappirnar? Ég bara spyr.
Ef (þegar) sæstrengur verður lagður er „orkan okkar“, í fallvötnum og í jörðu, þar með orðin að vöru til að selja hæstbjóðanda. Það verður hrein markaðsvæðing og með henni verður EKKI LEYFILEGT að stjórna nýtingu orkunnar út frá samfélagslegum áherslum. Orkan verður þá í öllum aðalatriðum komin út úr lögsögu þjóðkjörna valdsins og lýðræðisins. Þess vegna er það mikið bull að orkupakkinn hafi ekkert með fullveldi að gera. Orkupakkinn sýnir einmitt í hnotskurn að fullveldismál eru fyrst og fremst lýðræðismál en hafa ekkert með þjóðrembu að gera, hvað þá nasisma.
Orkupakkinn er ágætis hnotskurn sagði ég. Er ekki orkan ein höfuðauðlind okkar? Ásamt fiski og ferðamönnum. Orkupakkinn sýnir líka í hnotskurn að íslenska stjórnmálastéttin (sem endurspeglar peningaöflin nokkuð vel) er orðin fráhverf þeirri „þjóðvarnarstefnu“ og fullveldishyggju sem hún fylgdi t.d. í landhelgismálinu upp úr 1970. Umskiptin eru dramatísk og munar þar mikið um afstöðu „frjálslynda vinstrisins“.