Fara í efni

HÆGRI-POPÚLISMINN - HELSTA ÓGN VIÐ LÝÐRÆÐIÐ?

RÚV, popúlisminn og hnattvæðingin; Hvaðan kemur hægri-pópulisminn, hvert er samband hans við hnattvæðinguna og ríkjandi stjórnmálastefnur á vesturlöndum, hvað vantar í greiningu/umfjöllun fjölmiðla og meginstraums-stjórnmálaflokka á honum?
Ef hlustað er á RÚV fæst sú mynd að mesta vandamál í stjórnmálum Vesturlanda og jafnvel heimsins alls sé hægripopúlismi/ þjóðernispopúlismi.

Sem er ekki rétt, en stafar af því að RÚV er málgagn markaðsfrjálslyndrar, hnattvæddrar, kapítalískrar heimsvaldastefnu (vestrænnar).

Sem stafar aftur af því að markaðsfrjálslynd hnattvæðingarhyggja er RÍKJANDI HUGMYNDAFRÆÐI á heimsvísu nú um stundir.

„Ríkjandi hugmyndir á hverjum tíma hafa alltaf verið hugmyndir ríkjandi stéttar" segir í Kommúnistaávarpinu. Nú á dögum eru það hugmyndir auðstéttarinnar - nánar tiltekið hugmyndir EINOKUNARAUÐVALDSINS, sem verið hefur ríkjandi hluti stéttarinnar undanfarna öld, sem ráða. Og RÚV er málpípa ríkjandi hugmynda.

Þessar hugmyndir eru ríkjandi einfaldlega af því hnattvædd heimsvaldastefna undir merkjum markaðsfrjálshyggju er RÍKJANDI EFNAHAGSKERFI okkar daga - núverandi form heimsvaldastefnunnar og þróunarstig kapítalismans.

Það er þetta ríkjandi efnahagskerfi sem nú tröllríður mannkyninu og jörðinni. Það er MEGINVANDAMÁL OKKAR DAGA.

RÚV er kannski vorkunn af því ALLIR stjórmálaflokkar á Alþingi aðhyllast og styðja þetta efnahagskerfi og þessa hugmyndafræði. Engin raunveruleg stjórnarandstaða.

RÚV telur sig tilheyra „det gode selskap". Þar á hægripopúlisminn/þjóðernispopúlisminn hins vegar ekki sæti. Af hverju ekki?

Af því hann rekur raunverulega stjórnarandstöðu, fer út fyrir meginstrauminn. Hann hafnar vissum þáttum í hinni ríkjandi hugmyndafræði: fyrst og fremst hnattvæðingarhyggjunni og að nokkru leyti markaðsfrjálshyggjunni. Hann gerir út á afleiðingar hnattvæðingarinnar - og hann gerir út á „flóttamannavandann". Og hann þykist eiga góð svör og lausnir á þessum sviðum.

Sem hann á ekki.

Hægripopúlisminn/þjóðernispopúlisminn sækir margar hugmyndir sínar og lausnir til rasisma, þjóðrembu og fasisma - í mismiklum mæli. Sem er alveg nógu slæmt. Reynsla 20. aldar færir okkur órækar sannanir um það. Það er þó ekki það sama og að segja að umræddur popúlismi sé helsta ógn lýðræðisins nú um stundir. Því það er hann ekki.


Hnattvæddur kapítalismi

Helsti og mesti óvinur raunverulegs lýðræðis nú er áðurnefndur MARKAÐSFRJÁLSLYNDUR, HNATTVÆDDUR, HEIMSVALDASINNAÐUR KAPÍTALISMI. Nokkur einkenni hans eru eftirfarandi:

  • Gríðarleg einokun í efnahagslífinu: Hnattrænir auðhringar ráða ríkjum og ráða þróun efnahagslífsins. Þeir verða stöðugt færri og voldugri og eru samtengdir gegnum fáeinar bankasamsteypur. Þeir eiga áróðursmaskínurnar.
  • Að heimurinn verði eitt opið fjárfestingasvæði: Markmið hnattrænna auðhringa er að heimurinn verði eitt opið fjárfestingasvæði með frjálst flæði fjármagns og vinnuafls milli landa og heimshorna. Verkfæri hnattvæðingar eru m.a. yfirþjóðleg svæðisbundin ríkjabandalög eins og ESB/ EES (eftir Maastricht-samkomul 1992), NAFTA, ASEAN, stofnanir eins og WTO, AGS, OECD og samningar eins og TISA og TTIP sem öll hafa það meginhlutverk að tryggja frjálst flæði fjármagns og takmarka sem mest möguleika þjóðríkja og þjóðþinga til að stjórna eigin efnahagsmálum. Markaðsfrjálshyggjan fordæmir allt sem „truflar flæðið".
  • Útvistun iðnaðarframleiðslunnar: Auðhringarnir flytja hana til lágkostnaðarlanda í suðri og austri (séð frá Vesturlöndum). Tilgangurinn er að auka arðránið, með ofurarðráni á réttindasnauðu vinnuafli þróunarríkja. Á Vesturlöndum og í gömlu iðnríkjunum veldur útvistunin annars vegar atvinnuleysi er störfin flytjast burt, og hins vegar miklum þrýstingi á kaupgjald og réttindi launafólks.
  • Átök heimsvelda og auðvaldsblokka um heimsmarkaðinn: Bandaríkin (í bandalagi við ESB og Japan) hafa haft drottnandi stöðu en eru nú efnahagslega víkjandi á meðan einkum Kína (í bandalagi við Rússland og BRICS-ríki) er rísandi. Bandaríkin lýsa þá yfir viðskiptastríði og Kína svarar.
  • Hnattræn vígvæðing: Til að hnattvæðingin virki, til að tryggja að lönd séu auðhringum og fjármálavaldi opin og „frjáls" og séu ekki í „vitlausu liði" þurfa heimsvaldasinnar að beita valdi. Síðan „múrinn" féll hefur NATO undir forustu Bandaríkjanna verið í hernaðarútrás. Sú útrás birtist m.a. í samhangandi „stríði gegn hryðjuverkum", „mannúðarinnrásum" og staðgengilsstríðum (með hryðjuverkahópa sem meginverkfæri heimsvaldasinna) í Stór-Miðausturlöndum, a.m.k. frá 2001, í hrikalegri vígvæðingu gegn Rússlandi og umkringingu nýja áskorandans, Kína.
  • Umhverfisvá: Kapítalisminn er drifinn áfram af gróðasókn, upphleðslu auðmagnsins. Þensla eða kreppa. Þenslukrafan þýðir rányrkja. Í viðbót þýðir hnattvæddur kapítalismi endalausa flutninga milli heimshorna sem margfaldar hnattræna sóun og mengun.

Smáviðbót um Ísland; Ísland er kyrfilega aðlagað hnattvæddu markaðs- og fjármálakerfi. Sem Evrópuríki hefur landið þó ákveðna sérstöðu þar sem það er ekki fullgilt ESB-ríki. Ekki stendur Ísland samt utan ESB. Sem EES-ríki heyrir það undir „fjórfrelsi" ESB með nokkrum undantekningum (svo sem fjárfestingum í sjávarútvegi) og tekur við meirihluta af reglugerðum og tilskipunum ESB. Vegna sjávarútvegsstefnu ESB hefur íslensk auðstétt verið klofnari og tregari til fullrar aðildar en systur hennar í nálægum löndum. Af þeim sökum má segja að íslenskt auðvald, ekki síst útgerðarauðvald og tengdir hópar, hafi ofurlítinn fyrirvara á hnattvæðingarhyggju sinni.


Hnattvæðingin og stjórnmálaumræðan

Afstaðan til hnattvæðingarinnar hefur sívaxandi áhrif á stjórnmálin á Vesturlöndum, enda eru afleiðingar hennar fyrir almenning auðvitað miklar og margvíslegar. En áhrif hennar á stjórnmálin mótast líka af áherslum meginstraumsfjölmiðla - sem eru málpípur hnattvæðingarafla eins og áður kom fram. Ekki síður er áhugavert að skoða hvað EKKI ER TIL UMRÆÐU eins og hitt sem er það. Áherslurnar gilda um vestræna meginstraumsfjölmiðla almennt - og þar með um RÚV.

Nefnum nokkra þætti: Umsvif auðhringa og fjármálarisa eru EKKI í fókus í fjölmiðlaumræðunni en miklu frekar HREYFINGAR VINNUAFLSINS. Beint og óbeint stríðsbrölt vestrænna heimsvaldasinna er EKKI í fókus fjölmiðlanna en hins vegar AFLEIÐING þess, FLÓTTAMANNAVANDINN. Í stað þess að beina kastljósinu á arðrán hnattvæddrar heimsvaldastefnu og yfirgang hennar gagnvart alþýðu heimsins og þjóðum sem vilja ráða sér sjálfar beina hinir hnattvæðingarsinnuðu fjölmiðlar kastljósinu á átökin milli „FJÖLMENNINGAR" og „ÞJÓÐERNISHYGGJU/RASISMA".

Í Evrópu hefur ein afleiðing hnattvæðingarinnar orðið stöðugt meira áberandi en það er sú tilfinning meðal Evrópuþjóða að hafa TAPAÐ SJÁLFSÁKVÖRÐUNARRÉTTI SÍNUM OG ÞJÓÐLEGU FULLVELDI til skrifstofuveldis, fjármálavalds og ESB-elítu. Lýðræðisleg ákvarðanataka er tekin frá öllu nálægu þjóðkjörnu valdi og flutt í fjarlægt skrifræði. Þessari sjálfsákvörðun vill fólk ná tilbaka.

Málpípur ríkjandi hnattvæðingarþróunar eru í grófum dráttum tvær helstar: a) MARKAÐSFRJÁLSLYNDIR HÆGRI MENN, og hins vegar b) Það sem kalla má meginstraumsvinstrið eða FRJÁLSLYNDA VINSTRIÐ. Athafnafrelsi og flæði fjármagansins, heima fyrir og á heimsvísu, hefur löngum verið hægri mönnum hjartans mál, um það þarf ekki að fjölyrða. En sósíalistar allra landa voru hér áður líklegastir til að berjast gegn heimsvaldastefnu og berjast fyrir þjóðlegri sjálfsákvörðun. En í seinni tíð eru þeir líklegri til að styðja „mannúðarinnrásir" NATO-ríkja á Balkanskaga og í Stór-Miðausturlöndum. Jafnframt heyr frjálslynda vinstrið - eins og frjálslynda hægrið - baráttu fyrir „frjálsu flæði", „lágmörkun landamæra", „evrópuhugsun", „fjölmenningu". Kappsmál þess nú er að gera baráttuna á milli „opnunar og lokunar", á milli „fjölmenningar" og „þjóðernishyggju/rasisma" að brennidepli stjórnmála. Þetta frjálslynda, hnattvæðingarsinnaða vinstur telur gjarnan þjóðríkið vera óhæft sem stjórnunareiningu (þeir áköfustu telja „þjóð" tímaskekkju).


Popúlistarnir fram á sviðið

Í þessu umhverfi hafa popúlistaflokkarnir, og þá einkum til hægri, marsérað fram á sviðið: franski Front National (sbr. mynd m. grein), UKIP í Bretlandi, Alternativ für Deutschland, Svíðþjóðardemókratar, Dansk folkeparti (Pia Kjærsgaard), Frelsisflokkurinn í Hollandi... Þau baráttumál þeirra sem RÚV og meginstraumsmiðlar tala um tengjast stefnunni í málefnum flóttamanna og almennt stefnunni í innflytjendamálum - og þeir eru óspart stimplaðir „rasistar" (og jafnvel „fasistar").

Taka verður fram að stimplanir um „rasisma" eru oft ekki gripnar úr lausu lofti. Flokkar hægripopúlista/ þjóðernispopúlista í Evrópu hafa margir óspart höfðað til úlendingaandúðar, og kynt undir henni, til að vinna sér fylgi. Og eins og áður er nefnt eiga margir flokkanna rætur í eldri fasískum flokkum og hreyfingum - í mjög mismiklum mæli þó. Ýmsir flokkar sem reka þrönga inflytjendastefnu og gera út á múslimaandúð tengjast lítt fasismafortíð en eiga frekar að flokkast sem KRISTILEGT ÍHALD. Sem slíka má nefna má Fidesz í Ungverjalandi eða Frelsisflokkinn í Hollandi - andstaða þeirra við innflytjendur beinist einkum gegn innflutningi múslima. Það liggur í einkunninni „hægripopúlisti" að höfðað er til hefðbundinna og íhaldssamra hugmynda í samfélaginu. En rétt er að gá að því að rasisti er dálítið annað en fasisti. Og íslamófóbía er annað en rasismi. Það er hins vegar áhrifaríkara að veifa stimlinum „rasisti/fasisti" en „kristilegt íhald". Það gera hvað helst þeir sem styðja samrunaþróun í Evrópu, „frjálsa flæðið" og hnattvæðingu auðhringanna. Sú umræðutækni er pólitískt drottnunartæki.

Popúlistarnir umræddu halda mjög á loft þjóðlegum sjálfsákvörrðunarrétti - gegn hnattvæðingarþróun, m.a. gegn valdi ESB-elítunnar. Fyrir Brexit-atkvæðagreiðsluna 2016 höfðu bresku baráttuamtökin „Vote leave" sem aðalkjörorð „Vote leave - take back control" og flokkurinn UKIP bar fram kjörorðið „I want my country back". Popúlistarnir hafna því afsali lýðræðis og fullveldis sem ESB stendur fyrir, þetta „andlýðræðislega skrímsli" eins og Marine Le Pen kallar það réttilega. Krafa hægripopúlista í innfytjendeamálum er gjarnan orðuð þannig að innflytjendastefnan eigi að vera ákvörðuð í þjóðríkinu sjálfu, en ekki af ESB-skrifræðinu. Þannig orðuð er sú krafa eðlileg og lýðræðisleg.

Og þrátt fyrir rasískar og fasískar rætur sumra flokkanna er hægripopúlisminn að hluta til raunverulegur POPÚLISMI og heldur einkum fram málum sem skírskota til ALMENNINGS - vill að ALMENNINGUR taki hinar pólitísku ákvarðanir, ekki elítan. Gegnumgangandi einkenni á ólíkum tegundum popúlisma nú um stundir, líka til hægri, er að vera and-elítískur. Sem er mjög ólíkt fasisma 4. áratugarins. Fasískar og hálffasískar einræðisstjórnir Evrópu þess tíma voru einmitt elítískar, höfðu sterka tengingu við aðalinn. Og auðvald Ítalíu ákvað að veðja á Mussolini í kreppunni upp úr 1920. Í kreppunni eftir 1930 vann svo Nasistaflokkur Hitlers þýskt stórauðvald yfir á sitt band, og fékk því að stjórna. 

Hægripopúlistar dagins í dag höfða mjög til verkalýðs. Styðja velferðarkerfið. Taka upp þau mál sem mest brenna á verkalýð og alþýðu - og þar er óánægja og reiði út í hnattvæðingarþróunina kannski allra efst á blaði. Staðreyndin er að í Evrópu tekur hægripopúlisminn í einu landi af öðru til sín það verkalýðsfylgi sem hefðbundnir vinstri flokkar tóku áður. Sagt er að þegar undan er skilin innfytjendastefnan hafi kosningamál Marine Le Pen, svo sem efnahags- og félagsmálin, verið furðu lík stefnu róttæka vinstrisinnans Mélenchons. Bæði lögðu mikla áherslu á að endurvinna fullveldið, yfirgefa evruna, styrkja velferðarkerfið, yfirgefa NATO. Le Pen höfðaði til verkamanna og bænda sem búa við óöryggi og versnandi kjör á tíma hnattvæðingar. Ekki síst til atvinnulausra. Iðnaðarhéruðin í Norður-Frakklandi hafa til þessa verið vígi kommúnista og sósíalista. En í kosningunum 2017 var Front National sigurvegari þar í nær öllum kjördæmum og varð stærsti verkalýðsflokkur Frakklands (fékk í fyrri umferð 21% en t.d. Sósíalistaflokkurinn gamli voldugi aðeins 6%).

Í Brexit lágu línurnar líkt þessu. Verkalýður stórra og smárra bæja Englands hafði fengið meira en nóg af markaðsfrelsi Evrópumarkaðarins og Blairisma. Einmitt á hefðbundnum Labour-svæðum streymdi fólk á kjörstaði og kaus útgöngu.

Í Svíðjóð hafa Svíðþjóðardemókratar farið að veifa gömlu óskmynd sósíaldemókrata um velferðarríkið: „folkhemmet". Málið er að sósíaldemókratar hafa hætt að sinna verkalýðsstéttinni, hallað sér að markaðsfrjáshyggju, stunda mest siðferðispredikanir, messa um hatur, rasisma og sjálfsmyndarstjórnmál. Vandamál tengd innflytjendum og flóttamönnum hafa á hinn bóginn verið tabúumræða hjá vinstriflokkunum, og á því græða Svíþjóðardemókratar mjög. Eftir að Svíþjóð gekk í ESB 1994/95 hefur þar orðið gríðarmikil einkavæðing og markaðsvæðing jafnframt því að ójöfnuður hefur vaxið hratt. Með Sósíaldemókrata lengst af við völd. Í kosningunum nú í haust fengu sósíaldemókratar minnsta fylgi frá upphafi sínu, 28%. Ennþá stærsti flokkur Svíþjóðar, en við inngönguna í ESB 1994 var fylgi hans 45%. Reiði verkalýðsins birtist einkum í vexti Svíþjóðardemókrata. Og mikill var skrekkurinn í RÚV í aðdraganda þessara kosninga.


Hægripopúlistar í stjórn - og Trump

Hitt er svo annað mál hvernig hægripopúlískir flokkar gera sig við stjórnvölinn. Munu þeir ganga gegn hagsmunum stórauðvaldsins? Nei, mjög ólíklega. Þeir eru jú allir stuðningsmenn auðvaldsskipulagsins og trúa á hinn heilaga eignarétt. Munu þeir snúa við hnattvæðingarþróuninni? Varla. Það þarf meira en talandann til að koma á breytingum sem ganga gegn hagsmunum þeirra sem raunverulega hafa valdið. Þótt hægripopúlistar hafi víða mikinn stuðning meðal verkalýðs þýðir það ekki að þeir hafi á bak við sig stéttvísa verkalýðshreyfingu sem geti breytt farvegi og streymi fjármagnsins.

Fyrirbærið Donald Trump sýnir þetta. Málflutningur hans í kosningunum 2016 var hægripopúlískur og fór víða gegn hagsmunum bandaríska djúpríkisvaldsins, þar sem hnattvæðingarelítan ræður. Hann hamaðist gegn hnattvæðingunni og hernaðarævintýrum BNA. Ekki af því hann væri minni fulltrúi fjármálamiðstöðva Wall Street eða minni heimsvaldasinni en Hillary heldur af því hann taldi nýjar áherslur vænlegri fyrir þau öfl. Og nóg er af rasisma í kringum Trump. En þegar hann kom í Hvíta húsið þurfti hann að gleypa marga úfalda og taka nokkrar 180 gráðu beyjur. Hann ætlaði að snúa frá hnattvæðingu og „Make America Great Again". Þegar til kom varð hann að velja sér ekta hnattvæðingar-fjármálaráðherra frá Goldman Sachs. Hann ætlaði að koma á slökun við Rússa og draga sig út úr Sýrlandsstríði, en var brátt kominn í enn opnara stríð gegn Sýrlandi en Obama var, og gegn Rússum. Það bjargaði honum samt ekki frá því að verða fórnarlamb djúpríkisvaldsins sem þarf á Rússagrýlu halda til að styrkja vígvæðinguna. Hnattvæðingarelítan, Wall street og djúpríkisvaldið aka sitt járnbrautarspor óháð því hver situr í stjórnklefanum.

Að þessu sögðu skal taka fram að fyrirbærið Trump er dæmi út af fyrir sig og hæpið að leggja sömu mælistikur á það og t.d. evrópskan popúlisma. Trump gerir miskunnarlaust út á bandaríska „sérstöðuhyggju" (exceptionalism) sem er einn grunnþáttur bandarískrar heimsvaldastefnu. Og vegna valdahlutfalla í heimsvaldakerfinu er bandarísk „þjóðhollusta" (patríotismi) í eðli sínu annað en ungversk eða íslensk þjóðhollusta. Ekki meira um Trump.


Kreppumerki í efnahags- og valdakerfinu

Vöxtur hægripopoúlismans er AFLEIÐING og ekki ORSÖK þróunarinnar í hnattrænu efnahags- og valdakerfi. Vöxtur hans er merki um: a) Kreppu í hinu markaðsfrjálslynda hnattvædda auðvaldskerfi sem komið er í æ auðsærri mótsögn við allar samfélagslegar og mannlegar þarfir, leiðandi af sér versnandi kjör, upplausn, ólgu og reiði. b) Að meginstraumsvinstrið hefur yfirgefið verkalýðinn og skrifað skilyrðislaust upp á hið ríkjandi efnahagskerfi, eftirlátandi popúlistum og vinstri smáflokkum raunverulega stjórnarandstöðu. c) Merki um vaxandi sundrungu innan vestræns einokunarauðvalds, ekki síst í hinu hnignandi og rotnandi risaveldi vestan hafs.

Birtist einnig hér: https://neistar.is/greinar/haegripopulisminn-helsta-ogn-vid-lydraedid/