NORÐURLÖND SAMEINUÐ UNDIR BANDARÍSKUM HERNAÐARYFIRRÁÐUM
Leiðtogafundur NATO í Madríd skilaði einkum þrennu. a) Fundurinn lýsti yfir: “Aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins stafar bein ógn af Rússlandi.” b) Fundurinn samþykkti næstu útvíkkun NATO, sem sé samþykkti hann aðildarumsóknir Finnlands og Svíþjóðar að bandalaginu. c) Í fyrsta sinn tilgreindi NATO í pólitískum viðmiðunarreglum sínum Kína sem andstæðing, segjandi að metnaður og framsókn Kína “ögrar hagsmunum okkar, öryggi og gildum.” Í fyrsta sinn ennfremur sátu þjóðaleiðtogar fjögurra nánustu bandalagsríkja Bandaríkjanna í Asíu, Japans, Suður-Kóreu, Ástralíu og Nýja Sjálands, leiðtogafundinn.
Útvíkkun NATO eykur ekki öryggið
Fyrsta atriðið: Rússar bein ógn við aðildarríki NATO? Já, sennilega er það alveg rétt. Rússar eiga næg kjarnorkuvopn til að útrýma mannkyninu. Rússar eru illskeyttir, þeir hafa nú hafið löglaust árásarstríð gegn öðru landi. Þeir sýnast til alls vísir.
Rússar voru þó ekki þekktir fyrir slíkt fyrirfram (a.m.k. ekki síðustu áratugi) og spyrja má: Af hverju eru þeir orðnir slík «ógn»? Af hverju sýna Rússar meiri árásarhegðun nú en áður? Kannski hafa þeir breyst. Eða hefur umhverfi þeirra líka breyst.
Já, umhverfið hefur líka breyst. Hefðbundinn höfuðandstæðingur Rússa, Bandaríkin, hafa eftir fall Sovétríkjanna ráðið því sem þeir vildu á alþjóðavettvangi og telja sig enn gera það, og trúa á vopnin sín. Þeir tóku þarna um 1990 upp afar herskáa stefnu með tíðum hernaðaríhlutunum, ýmist valdaskiptaaðgerðum eða beinum innrásum, «stríði gegn hryðjuverkum» og viðskiptaþvingunum (refsiaðgerðum) með meiru gegn öllum sem ekki hlýddu þeim efnahagslega og pólitískt og fækkuðu ekki herstöðvum sínum vítt um heim vegna falls Sovéts heldur fjölguðu þeim (svo Jimmy Carter kallar BNA «herskáustu þjóð mannkynssögunnar»). Tilgangur þessarar sóknar var að tryggja «einpóla heim», hnattrænt valdakerfi með miðju í Washington, og að hindra uppkomu mögulegra keppinauta. Lykilhlekkur í þessu ferli var útvíkkanir og útþensla NATO í austur, NATO sem m.a. Rússar af einhverjum ástæðum líta á sem yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Innganga Finnlands og Svíþjóðar í bandalagið er aðeins nýjasti áfangi útþenslunnar.
Þá vaknar spurningin: Minnkar hættan sem af Rússum stafar við nýjar útvíkkanir NATO? Minnkar það ógnina og spennuna ef þetta eina hernaðarbandalag heims fær að þenja sig takmarkalaust út? Úkraínu var lofað NATO-aðild 2008 en það hefur ekki fært Úkraínu öryggi. Þvert á móti.
Útvíkkanir NATO hafa jafnan þá yfirskrift að allsherjaröryggi aukist í réttu hlutfalli við stækkun NATO. Ekki síst öryggið gagnvart Rússum, þeir verði hættuminni. Stenst það? NATO hefur stækkað í gusum síðan 1998. Rússar hafa orðið óhressari með hverri útvíkkun og talað um ógn og ögrun við sig. Áður en fyrstu gusu, Póllandi, Tékkum og Ungverjum, var hleypt inn í NATO 1998 sagði George Kennan helsti höfundur bandarískrar utanríkisstefnu á fyrri hluta Kalda stríðsins að útvíkkun NATO væri «hörmuleg mistök» og efni í nýtt kalt stríð því Rússar myndu «smám saman bregðst við fjandsamlega». Þegar sjö ný Austur-Evrópuríki bættust við 2004 lýsti Pútín sjálfur því yfir við mörg tækifæri að Rússar litu á þetta sem «alvarlega ögrun».
Fyrir leiðtogafund NATO í Búkarest 2008 blikkuðu flest viðvörunarljós. Þá var til umræðu NATO-aðild fyrir Úkraínu. Bandaríski sendiherrann skrifaði utanríkisráðherranum sínum: "Ukrainian entry into NATO is the brightest of all red lines for the Russian elite (not just Putin)" og hann sagðist bara ekki finna þann Rússa sem ekki liti á það sem ógn. En George W Bush trommaði í gegn þá yfirlýsingu Búkarest-fundarins að Ukraína og Georgía «muni verða NATO-meðlimir».
Þegar Rússar settu BNA og NATO úrslitakosti í árslok 2021 og ársbyrjun 2022 þá nefndu þeir fyrst og fremst útþenslu NATO sem ástæðu og þeir heimtuðu «tryggingar» gegn frekari stækkun bandalagsins. Höfnun á því myndi fá alvarlegar afleiðingar.
Þessir úrslitakostir Rússa voru merki um breytt styrkleikahlutföll í heiminum. Öfugt við stöðuna kringum aldamót treysti Rússland sér nú til að láta hart mæta hörðu og verja hagsmuni sína sem svæðisbundið heimsveldi. Rússland taldi sig ekki upp á Vestrið komið, hvorki pólitískt né efnahagslega. Að því leyti «hafa Rússar breyst».
Bæði Blinken og Stoltenberg lýstu strax yfir að engar «tryggingar» gegn stækkun NATO væru til umræðu. Og Rússar gerðu þá innrás.
Það er a.m.k. ljóst að hin ákafa útþenslustefna NATO jók ekki öryggi Úkraínu. Hún leiddi til sívaxandi spennu og loks til þessa stríðs. Útþensla NATO réttlætir ekki innrás Rússa í Úkraínu, sem þverbrýtur þjóðréttarreglur. En það blasir við sjáandi mönnum að hún (útþenslan) var tilefni innrásarinnar. Ekki er hægt að segja að útkoman sé farsæl. Ekki fyrir Úkraínu. Ekkir fyrir Austur-Evrópu. Né fyrir heimsfriðinn
NATO-aðild Finnlands og Svíþjóðar samþykkt
Svar NATO við innrás Rússa er í raun bara eitt, beint framhald, meiri útþensla og meiri vígvæðing. Meginsvarið hefur verið að hella vopnum skefjalaust inn í Úkraínu og «berjast til síðasta Úkraínumanns». Og nú bætist við: Jafnframt því að samþykkja sjöföldun á viðbragðsherstyrk NATO í Austur-Evrópu (úr 40 þúsund manns í 300 þúsund) samþykkti leiðtogafundurinn í Madríd inngöngu Finnlands og Svíþjóðar í NATO 29. júní. Norðurlönd í heild verða þar með komin formlega á yfirráðasvæði Bandaríkjanna. Ekkert hlutlaust svæði þar lengur eða kjarnorkuvonalaust svæði á milli andstæðinganna. Allir skulu vera með í vígvæðingunni nýju, engin undanbrögð. Landamæri NATO að Rússlandi lengjast við þetta um helming. «Pútín bað um minna NATO – nú fær hann meira NATO» segir Jens Stoltenberg og nýr saman lófum sínum kampakátur.
Ekki var inntökuferlið samt áreynslulaust. Erdógan Tyrklandsforseti setti umsóknarríkjunum kosti sem þau urðu að beygja sig undir. Þau þurftu að «kaupa sig inn». Gjaldið var hagsmunir Kúrda, en einkum Svíþjóð hafði fjárfest í pólitískum stuðningi við málstað þeirra. Til að komast inn í NATO þurfa Svíar og Finnar að framselja kúrdíska blaðamenn til Tyrklands þar sem fjölmiðlafrelsi er ekkert og tjáning gegn stjórnvöldum er stimpluð sem hryðjuverk.
Sænska þingið hafði ennfremur lagt bann við sænskri vopnasölu til Tyrklands vegna mannréttindabrotanna þar en Erdógan setti einnig það skilyrði að slíkt bann yrði afnumið. Vera kann að þessi atriði eigi eftir að valda einhverjum vandræðum á sænska þinginu.
Reyndar er rangt að segja að Svíþjóð og Finnland hafi verið «hlutlaus» í varnarmálum til þessa dags. Bæði ríkin tóku þátt í hernaði NATO í Afghanistan og Svíar sendu flugvélar til sprengiárása í hernaði NATO gegn Líbíu árið 2011. Bæði ríkin hafa veitt NATO land og aðstöðu til heræfinga sem beindust bæði leynt og ljóst gegn Rússlandi. Ekki skal þó draga dul á þá staðreynd að formleg innganga í NATO er stórt skref fyrir bandalagið, fyrir Norðurlönd og sjömílnaskref fyrir löndin tvö.
Ísland styður, VG styður
Katrín Jakobsdóttir fagnar innkomu Svíþjóðar og Finnlands af því þá verði «sterkari norræn vídd innan bandalagsins». Við komuna til Madríd var hún spurð út í «talsverða útvíkkun á starfsemi NATO», einkum í A-Evrópu, og hvort Ísland stæði með þessu?
„Já, í raun og veru niðurstaðan, eða stefnan sem er tekin er að efla verulega viðbúnað og varnir í austurhluta Evrópu og það er í raun og veru bara út frá því áhættumati sem liggur til grundvallar. Á sama tíma er verið að ræða efldan viðbúnað í öllu bandalaginu.» (Kvöldfréttir RÚV 28. júní)
Daginn sem Finnland og Svíþjóð voru samþykkt inn í NATO spurði Björn Malmquist forsætisráðherra sérstaklega um afstöðu til þess. Hún sagði það ljóst “að íslensk stjórnvöld hafa stutt Svíðþjóð og Finnland skilyrðislaust í þeim ákvörðunum sem þau hafa tekið með lýðræðislegum hætti þannig að að sjálfsögðu fögnum við þessu» (Hádegisfréttir RÚV 29. júní)
Sænskur fréttamaður spurði Katrínu nánar út í hvaða þýðingu það hefði að fá Svía og Finna inn í bandalagið. Katrín sagði að með því bættust sterk lýðræðisríki, með sterka innviði, hún sagði að með þessu yrði til sterkari norræn vídd innan sambandsins, þar færu saman ríki með sameiginlega sýn og áherslu á lýðræði.» (Morgunfréttir RÚV 29. júní)
Það gat skeð! Þarna gengur greiningin út á það að með innkomu Svíþjóðar og Finnlands megi breyta NATO í friðsamlegt og «lýðræðissinnað» varnarbandalag, þar með gengur Katrín fumlaust fram á NATO-völlinn! En þetta mun bara ekki gerast. Uppákoman í kringum skilyrði Tyrklandsforseta var ákveðin sýnikennsla sem sannar lítinn áhrifamátt þessara ríkja í bandalaginu. Þau urðu að kyngja nokkrum úlföldum og prinsippmálum sem rákust á þungvægari hagsmuni bandalagsins.
Hins vegar er það líklega áróðurslegur styrkur fyrir NATO að hafa marga yfirlýsta friðarsinna eins og Katrínu Jakobsdóttur til að flagga með á sínum fundum. Rétt eins og það er bandalaginu styrkur að hafa fyrrverandi sósíaldemókrata við stýrið. Sósíaldemókrata sem fékk starfið eftir að hafa «sannað sig» með duglegum sprengjuhernaði í Líbíustríðinu. Innganga Finna og Svía er ekki sigur lýðræðisafla. Öllu heldur er hún einn mesti sigur hernaðarsinna um alllangt skeið.
Asíu-væðing NATO – og stórstyrjöld færist nær
Eins og áður kom fram skilgreindi NATO nú í fyrsta sinn Kína sem andstæðing. Og þjóðarleiðtogar fjögurra mikilvægra Asíuríkja sátu Madrídarfundinn – líka í fyrsta sinn. Ritið Global Times, rit um alþjóðamál sem er nátengt kínverskum stjórnvöldum, fjallaði þegar fyrir fundinn um þá stefnumörkun sem í þessu felst:
“Útþensla NATO í norður eykur á klofning Evrópu og hótar að gera álfuna að púðurtunnu á ný, en kínverskir athugendur sáu sterka bandarísk-stýrða viðleitni í átt að Asíu-væðingu og hnattvæðingu NATO, sem mögulega ögrar stöðu SÞ, nokkuð sem gæti haft afgerandi áhrif á alþjóðlegt öryggi.»
Í lok Madrídfundar kom Jens Stoltenberg með eftirfarandi öfugmæli: “Þær ákvarðanir sem við höfum tekið í Madríd munu tryggja að bandalag okkar haldi áfram að varðveita frið, hindra átök og vernda þjóðir okkar og gildi.»
Í heild er ekki mikið ljós fyrir heimsfriðinn að sjá í niðurstöðum Madrídarfundarins. Hann sýnist hafa dregið heiminn einu skrefi nær stórstyrjöldinni sem er fá skref framundan.
Greinin birtist einnig á vefritinu Neistum: neistar.is