SAMHERJI VARLA SÉRTILFELLI
Ekki skal fella dóma fyrirfram í máli Samherja í Namibíu. En þáttur Kveiks og umfjöllun Stundarinnar um málið sýndist vel unnin, trúverðug og áhrifamikil. Málið er stórt hneyslismál í Namibíu ekki síður en hér og ráðherrar segja af sér svo það snýst áreiðanlega um raunverulega hluti. Hvað sem sannað verður um lögbrot og sekt í einstökum dæmum segir málið heilmikla sögu, m.a. um auð og arðrán, völd og valdaleysi.
Eftir því sem meira rúllast upp þetta mál mun íslenska eignastéttin kappkosta betur að stilla utanlandsrekstri Samherja upp sem algeru sértilfelli.
Ég er hvorki sérfóður um Namibíu né Samherja. En ég vil setja fram þá tilgátu að þær rekstraraðferðir Samherja í Namibíu sem kynntar voru séu e.t.v. ekki ýkja afbrigðilegar. Og að aðalatriði málsins sé ekki spilling. Fremur séu þessi Samherjarekstur í Afríku DÆMIGERÐUR. DÆMIGERÐUR kapítalismi. DÆMIGERÐ heimsvaldastefna. Og að hann endurspegli ríkjandi efnahagskerfi heimsins í dag (Íslands þar með).
Hið kapítalíska
DÆMIGERÐUR kapítalismi. Kapítalisminn byggir á gróðasókn – gróðasóknin er driffjöður kapítalismans. Án gróðasóknar – enginn kapítalismi. Gróðinn er jákvæður segja menn – en græðgin er vond. Slík afstaða verður tvískinnungur af því gróðasókn sem aðaldriffjöður efnahagslífs hlýtur að leiða af sér græðgi. Þegar talað er um „spilltan kapítalisma“ er látið í veðri vaka að „sannur“ kapítalismi sé siðavandur. Sem hann hefur aldrei verið. Það er eðli hlutfjár að leita að hámarksgróða. Fyrirtæki með 5% arðsemi 2,6-faldar heildarfjármagn sitt á 20 árum en fyrirtæki með 10% arðsemi 6,7-faldar það. Þess vegna leitar hlutaféð á markaðnum skiljanlega yfir í 10%-fyrirtækið en 5%-fyrirtækið dettur út. Í kauphöllinni er fyrst og síðast spurt um arðsemi, ekki aðferðir í rekstrinum eða samfélagslega nytsemd. Sá kapítalisti sem nær mestum arði út úr starfsmönnum sínum verður sigurvegari. Útkoman er m.a. eignasamþjöppun.
Aðferðir Samherja endurspegla ríkjandi frjálshyggjukapítalisma. Íslenskur sjávarútvegur var markaðsvæddur í upphafi nýfrjálshyggjubyltingar á Íslandi. Þegar aflaheimildir voru gerðar framseljanlegar og veðsetjanlegar 1990 fól það í sér einkavæðingu miðanna. Með því var útgerðin í reynd frátengd samfélaginu: líf og dauði sjávarbyggða réðist á hlutabréfamarkaðnum. Einkavæðing auðlinda árið 1990 var líka DÆMIGERÐ fyrir tíðaranda þess tíma. Margrétar Thatcher var enn við völd, framstormandi nýfrjálshyggja á Vesturlöndum og hrynjandi sósíalismi. Markaðsvæðing sjávarútvegs leiddi á skömmum tíma til gríðarlegrar eignasamþjöppunar.
Samþjöppun er eitt af lögmálum kapítalismans. Samþjöppunin í íslenskum sjávarútvegi var hröð, en hún var lögmálsbundin kapítalísk þróun. Hún var DÆMIGERÐ í okkar heimshluta – og íslenskir kapítalistar telja hana mjög árangursríka. DÆMIGERÐ já, en hafði séríslenskt form, kvótakerfið var það form, með framseljanlegum kvóta og söfnun aflaheimildanna í örfá stórfyrirtæki.
Úr þessari keppni kom Samherji stærstur. Þar stjórna harðdrægir fjáraflamenn. Þeir hafa náð meiri arði út úr starfsfólki sínu en aðrir og orðið eitt stærsta útgerðarfyrirtæki í Evrópu. Harðdrægir en ekkert sértilfelli, DÆMIGERÐIR sigurvegarar líklega frekar. Kunna „the name of the game“. Harðdrægnin hefur ekki verið lögð fyrirtækinu til lasts af eftirlitskerfinu. Matsfyrirtækið Creditinfo útnefndi Samherja í efsta sæti „framúrskarandi fyrirtækja“ á Íslandi bæði árið 2017 og 2018!
Í heimsvaldakefi
Snúum okkur þá að Namibíu. Hvernig kemur Samherji fram í Namibíu? Nei, það er ekki fyrsta spurning! Fyrsta spurning er: Hvern fjandann er íslensk útgerð gera þarna? Hvaða erindi á hún að stunda gróðadrifnar veiðar fyrir ströndum sunnanverðrar Afríku? Það hefur alltaf verið opinbert að þessar veiðar eru í hagnaðarskyni, engin þróunaraðstoð. Samherji var og er fremst íslenskra fyrirtækja sem taka þátt í úthafsveiðum og alþjóðlegri samkeppni um fjarlæg mið. Raunar eina íslenska fyrirtækið sem hefur haft getu til að hasla sér völl í alþjóðlegri keppni um þessa takmörkuðu auðlind. Þó Ísland sé smátt í samhenginu er íslenskur sjávarútvegur tiltölulega háþróaður. Samherji er orðinn fjölþjóðlegur auðhringur með starfsemi í mörgum löndum. Samkvæmt Stundinni var þriðjungur tekna Samherja árin 2007-2013 kominn frá Afríkuveiðunum einum. Slíkur rekstur telst algjörlega eðlilegur á máli markaðsfrjálslyndrar hnattvæðingarhyggju sem er ríkjandi hugmyndafræði okkar tíma.
„Í sjónum fyrir ströndum Vestur-Afríku eru einhver ríkustu fiskimið í heimi“ segir heimildarþáttur á BBC. En þau mið hafa ekki orðið viðkomandi strandþjóðum til hagsældar. Í Afríkuveiðum sínum hefur Samherji einkum keppt við flota frá Evrópuríkjum sem hafa áður ofveitt eigin mið. Veiðar þeirra í Afríku eru eingöngu í hagnaðarskyni (fiskveiðisamningar ESB við Vesturafríkuríki ýtti Samherja þaðan). Útkoman er ofveiði við Vestur-Afríku og hraðminnkandi veiðar og afli heimamanna. Þetta eru sumsé veiðar arðræningja sem skilja ekkert eftir nema hjá lítilli elítu heimamann eða útvöldum stjórnmálamönnum, ekki í uppbyggingu fyrir almenning. Það er arðránið sem er aðalatriðið í því samhengi en ekki mútur stjórnmálamannanna.
Namibíuveiðar Samherja eru DÆMIGERÐ heimsvaldastefna/imperíalismi. Imperíalisminn hefur alltaf falið í sér kapphlaup þróaðari iðnríkja um markaði og auðlindir vítt um veröld. Gamla nýlendukerfi 19. aldar í Asíu og Afríku var vissulega afnumið um miðbik 20. aldar gegnum mikla bylgju þjóðlegra byltinga og frelsisstríða en nýrri form heimsvaldastefnu leystu brátt hin eldri af hólmi, svokölluð ný-nýlendustefna. Auðhringarnir tóku við af gömlu nýlenduherrunum og framfylgdu arðráninu í krafti efnahagslegs valds. Fjármálaverkfæri vestrænnar heimsvaldastefnu – Alþjóðabankinn og AGS öðrum framar – ráku hagsmuni þeirra. Í tilraunum sínum til uppbyggingar eftir nýlenduokið urðu nýfrjáls ríki Afríku oftar en ekki fljótt mjög skuldug og veik fyrir þeim sem buðu lán og gýligafir, og slík pressa kom einmitt frá áðurnefndum fjármálastofnunum. Hluti af leiknum var að kaupa upp, beint og óbeint, valda hópa, múta og hagnýta veika innviði. Auðhringarnir líta gjarnan á slíkan kostnað sem óhjákvæmilegan ef viðskipti. Uppkaup valinna hópa er innbyggt í heimsvaldakerfið. Og útkoman er að auðlindum þessarar auðlindaauðugu álfu er áfram rænt af heimsvaldaríkjum og auðhringum þeirra.
Síðustu þrjá áratugi hafa fjölþjóðlegir auðhringar í miklu meiri mæli en áður orðið drottnandi í efnahagslífi heimsins (fall Austurblokkar um 1990 herti mjög á þeirri þróun). Fyrir þann tíma höfðu heimsvaldasinnar einkum herjað á þróunarlönd í sókn eftir auðlindum, námum og hrávörum. En í nýja kerfinu hafa stórfyrirtæki auðvaldsheimsins flutt framleiðsluna sjálfa í sívaxandi mæli inn í sömu lönd sem nú kallast oftar „lágkostnaðarlönd“ – til að minnka kostnað sinn og auka gróðann. Ekki til að byggja þessi svæði upp. Vörurnar sem við kaupum eru í vaxandi mæli framleiddar í „sweat shops“ í lágkostnaðarlöndum. Við þetta er arðránið enn aukið. Hinn sterki (fjölþjóðlegir auðhringar) hagnýtir sér hinn veika í gróðaskyni, hvort sem lög eru brotin til þess eða ekki. Þetta er kennt við „hnattvæðingu“ en er í reynd heimaldastefna í aðeins þróðara formi.
Auðhringavaldið og Afríka
Samherji er raunar bara einn hinna fjölþjóðlegu hringa frá Vesturlöndum sem sækir til þróunarlanda, og starfsemi hans í Afríku er hluti af því efnahagskerfi sem hér um ræðir. Kjarninn í Namibíu-Samherja umræðunni ætti að vera eðli kapítalískrar heimsvaldastefnu/hnattvæðingu frekar en spillingin sem slík. Spillingin er raunar fyrst og fremst verkfæri til að framfylgja þessari stefnu, valdatæki. Í Afríku er arðránið nokkrum stigum grófara, aðferðirnar ljótari og réttindi fólksins minni en norðar á hnettinum.
Ég hygg að hegðun Samherja í Namibíu sé frekar DÆMIGERÐ en afbrigðileg. Auður Afríku er ein helsta ástæðan fyrir fátækt Afríku. Afríka er miklu auðugri frá náttúrunnar hendi en t.d. Evrópa. En þeir sem auðgast á Afríku eru í fjarlægum löndum meðan heimamenn eru hlunnfarnir og til þess þarf ófínar aðferðir, líkt og hjá Samherja. Afríka býr yfir u.þ.b. þriðjungi steinda og dýrmætra jarðefna heimsins: þar er gull (Súdan Malí, Suður-Afríka), báxít og járn (Malí), kóbolt (Kongó), fosfat (Vestur-Sahara, Kongó), jarðgas (Alsír) o.s.frv. Í Kongó eru dýrmæt jarðefni grafin úr jörðu með barnaþrælkun og háð stríð um námurnar. Dýrmætasta efnið þar nú um stundir er kóbolt, nauðsynlegt í bæði smartsíma og rafbílabatterí og mikill meirihluti af finnanlegu kóbolti himsins er í Kongó. En þeir sem hagnast á þessu dýrmæta efni eru ekki almenningur í Kongó heldur auðhringar í Frakklandi, Kína og Bandaríkjunum.
Olíuhringar bítast um olíusvæði Afríku og geta í samvinnu við fjármálastofnanir með ýmsu móti þrýst á viðkomandi ríkisstjórnir.
Tvö af olíuauðugustu ríkjum Afríku eru Líbía og Súdan sem bæði hafa gengið gegnum eyðileggjandi borgarastríð þar sem heimsvaldasinnar og auðhringar þeirra eru djúpt innblandaðir. Efnahagslegir hagsmunir eru varðir með herstyrk. Bandaríkin hafa 20-faldað hernaðarviðveru sína í Afríku frá aldamótum og um þessar mundir er USA innblandað í hernaðaraðgerðir á 36 stöðum í álfunni. Frakkland og Þýskaland blanda sér líka hernaðarlega inn á mörgum stöðum. Opinber skýring er yfirleitt „barátta gegn hryðjuverkum“. Raunverulega eru þeir að verja heimsvaldahagsmuni, ekki síst fyrir framstormandi keppinaut, Kína.
Tengsl einnar gull- eða demantsnámu við peningaöflin í norðri eru ekki eins bein og á nýlendutímanum. Tengslin eru einmitt mikið á bakvið tjöldin. En þau eru jafn raunveruleg og kerfisbundin í nýja heimsvaldakerfinu þrátt fyrir það. Mútur, peningaþvottur og aflandsvæðing er bara einn hluti af því mikla misskiptingar- og arðránskerfi. Kerfinu sjálfu er viðhaldið með auð og valdi.
Hvað fór úrskeiðis?
Hvað fór úrskeiðis hjá Samherja? Það sem fór úrskeiðis var það að maður í toppembætti í Namibíurekstri Samherja gerðist uppljóstrari. Slíkir uppljóstrarar úr innsta búri auðhringa eru sjaldgæfir. Hafið þið lesið bókina Confessions of an Economic Hitman? Höfundurinn John Perkins var slíkur uppljóstrari. Hann var yfirhagfræðingur hjá bandarísku ráðgjafafyrirtæki (Chas. T.Main) sem heimsótti þróunarlönd í Afríku, S-Ameríku og Asíu, í samráði við Alþjóðabankann, AGS, bandarísku Þjóðaröryggisstofnunina og Utantíkisráðuneytið, og gaf ráð um aðferðir til að glíma við skuldir: að einkavæða innviði, taka við réttum lánum og skipta við bandarísk fyrirtæki. Á bak við sig hafði hann CIA sem myndi taka til sinna ráða gagnvart þrákálfum sem ekki hlýddu ráðgjöfinni. Eftir að hann gerðist uppljóstrari kallaði hann fyrrverandi starf sitt „economic hitman“ eða „efnahagslegur leigumorðingi“. John Perkins fékk úr hendi Yoko Ono í Reykjavík verðlaunin „Lennon Ono Grant for Peace 2012“. Perkins myndi ekki taka undir að aðferðir Samherja væru séríslenskar.