SÝRLANDSSTRÍÐIÐ - INNRÁS SEM TAPAÐIST
Veður skipast ört í lofti yfir Sýrlandi. Það sem Donald Trump boðaði fyrir tveimur vikum virðist síðan hafa gerst: Hann dregur bandarískan her burt af flestum átakasvæðum Sýrlands. Eftir nokkurra daga reiptog í stjórnkerfinu kom Trump samt aftur fram og útskýrði að herinn ætlaði þó ekki að yfirgefa sýlensku olíusvæðin. Í því sambandi er hann ekki með neitt froðusnakk um „lýðræði og mannréttindi“ í anda Obama, heldur segir hann einfaldlega: „Við höfum tryggt olíuna, og þess vegna munum við halda eftir litlum fjölda bandarískra hermanna á því svæði þar sem þeir [Sýrlendingar] hafa olíuna.“ https://www.facebook.com/groups/45949826268/?ref=bookmarks Trump segist sem sagt hafa „tryggt olíuna“ svo hvorki ISIS né Sýrlandsstjórn komist í hana – og sendir þangað síðan aukinn liðstyrk. Það bendir til einhverrar framlengingar á þessu ránsstríði.
Brottkvaðning bandarísku hermannanna gerðist samhliða innrás Tyrkja („Friðarvorið“) á landræmu sunnan tyrknesku landamæranna 9. október, sem Erdogan kvaðst ætla að gera að „öryggissvæði“ gegn hersveitum Kúrda. En Trump segist líka hafa komið fram sem „sáttasemjari“, hann hafi samið við Erdogan um að ganga ekki „of hart fram“ gegn Kúrdum. Þá segir hann að útkoman sé sigur fyrir Bandaríkin.
Trump getur vissulega sagt að það samræmist stefnu hans um um „America first“ að draga sig úr „endalausum íhlutunum“ vítt um veröld, að það sé gott fyrir Bandaríkin að losna úr „endalausum stríðum“ sem hafi kostað ríkið 8 billjónir dollara. Hann hefur líka sagt nýlega að stríðin í Írak og Sýrlandi hafi verið „tilgangslaus“ og „byggð á lygum“. Brottkvaðningu úr Sýrlandi er hins vegar mætt með víðtækri gagnrýni úr bandaríska „djúpríkinu“, frá haukum beggja flokka. Þar er Trump fordæmdur fyrir að svíkja bandaríska hagsmuni, svíkja Kúrda og „endurlífga ISIS“. Það hefur blasað við lengi að Bandaríkin eru alvarlega klofin í afstöðunni til Sýrlandsstríðsins. Hernaðariðnaðar-batteríið (military-industrial complex) ræður ennþá „djúpríkinu“ og CIA er nátengd því.
Sochi-samningur og Kúrdaspurningar
Trump talar valdsmannslega en hann er í raun ekki í aðstöðu til að ákvarða neina friðarskilmála í landi sem hann sýnist vera að hröklast út úr. Ef brottkvaðningin er meira en sjónhverfingar. Hins vegar var gerður annar samningur 22. október sl., í Sochi í Rússland, milli Pútíns og Erdógans. Samningsviðræðurnar voru harðar en ákvæðin í þeim samningi eru alveg áþreifanleg: Samkvæmt þeim á Tyrkland að stöðva árás sína á Sýrland. Landræma við landamærin skal vera „öryggissvæði“ þar sem Sýrlandsher mun taka stjórn en Tyrkir og Rússar gæta þess að skilmálum sé fylgt. Varnarsveitir Kúrda (YPG, hluti af SDF-hernum) verða að hverfa frá landamærunum. Sýrlandsher skal taka stjórn í Norðaustur-Sýrlandi. Einingu og friðhelgi Sýrlands skal virða, öll sundurlimun úr sögunni. Í samningnum frá Sochi er ekki Bandaríkjunum ætlað neitt hlutverk. En reyndar var þar ekki heldur neitt minnst á olíusvæðin.
Forusta kúrdísku SDF og YPG þrýsti í lengstu lög á um áframhaldandi viðveru bandaríska heraflans í Norður-Sýrlandi, en þegar brottkvaðningin lá fyrir tilkynnti hún um samning sinn við stjórnvöld í Damaskus, samning um að Sýrlandsher og Sýrlandsstjórn tæki við stjórn á svæðunum sem SDF hefur haldið í krafti bandarískrar herverndar og að SDF gangi til liðs við Sýrlandssher. Herforingjar kúrdíska SDF hafa í framhaldinu þakkað Rússum fyrir samninginn við Tyrki og lofa samstarfi. https://www.reuters.com/article/us-syria-security-sdf-russia/russian-defense-minister-speaks-to-sdf-head-after-syria-deal-reports-idUSKBN1X22GS En samtímis er að sjá að menn frá YPG séu tilleiðanlegir til að hjálpa Bandaríkjunum við hernám mikilvægustu olíulindanna, austur af bænum Deir Ezzor, reyndar fjarri öllum kúrdískum svæðum. Þar er á ferðinni einfaldur landvinningahernaður og rán.
Sýrlandsstríðið, hnattrænt stríð
Lítum tilbaka. Stríðið gegn Sýrlandi er einn kafli í kaflaskiptu stríði, „Stríðinu langa“ í Austurlöndum nær um yfirráðin í Stór-Miðausturlöndum. Helstu vígvellir þess eru Írak, Afganistan, Líbía og Sýrland (og Íran er líka í húfi). Stærsti gerandi þessa langa stríðs er Bandaríkin sem töldu sig þurfa að brjóta niður, nokkur „mótþróaríki“ á svæðinu til að tryggja Bandaríkjunum og bandamönnum þeirra (Ísrael og Sádar mikilvægastir) yfirtökin á þessu mikilvæga svæði. Írak, Afganistan og Líbía voru þegar brotin niður og röðin komin að Sýrlandi
Stríðið gegn Sýrlandi hefur þá sérstöðu meðal áðurnefndra stríða að fleiri lönd hafa blandast inn í það með beinum hætti: fyrst þau sem kepptu að valdaskiptum í Damaskus (BNA, ESB, Tyrkland, Persafóaríkin og Ísrael þar fremst) en síðan einnig stuðningsríki Sýrlands: Rússland og Íran. Stríðið gegn Sýrlandi þróaðist smám saman yfir í „stríðið um Sýrland“ í hinu hnattræna valdatafli. Það má skoða það sem heimsstyrjöld í einu landi.
Að skipuleggja, kosta og heyja staðgengilsstríð
Sýrlandsstríðið var ekki borgarastríð heldur innrásarstríð. Innrásin var skipulögð frá Washington (CIA) og kostuð frá Persaflóa en gerð aðallega frá Tyrklandi.
Það lá fyrir frá byrjun að Bandaríkin myndu ekki gera gamaldags innrás í Sýrland. Íraksstríðið reyndist allt of dýrt og óvinsælt til þess. Sýrlandsstríðið var sett af stað beint í kjölfar Líbíustríðsins þar sem nýjar aðferðir höfðu verið prófaðar og þóttu takast vel. Að hluta til var Líbía „tekin innan frá“ með því að kynda undir trúar- og ættflokkadeilum, með því að vopna „uppreisnina“ og því var svo fylgt eftir með lofthernaði NATO.
Sýrlandsstríðið skyldi sem sagt verða ný gerð af innrás. Vissir hlutir eru þó klassískir: til að heyja stríð þarf að lágmarki vopn og fjármögnun, herstjórn og ekkis síst hermenn – og hermennirnir þurfa jafnvel málstað. Í meginatriðum var Sýrlandsstríðið framan af lagt upp sem trúarbragaðastríð. Þegar árið 2007 skrifaði pulitzerverðlauna-höfundurinn Seymour Hersh um „nýja stefnu“ Bandaríkjanna í Miðausturlöndum, „redirection“: að styðja súnní gegn sjía: „Bandaríkin taka þátt í leynilegum aðgerðum gegn Íran og bandamanni þeirra, Sýrlandi. Hliðarafurð þeirrar starfsemi er að styrkja hópa öfgasinnaðra súnnía sem hafa herskáa trúarafstöðu, eru fjandsamlegir Bandaríkjunum og hliðhollir Al-Kaída.“ https://www.newyorker.com/magazine/2007/03/05/the-redirection?currentPage=all
Greining Hersh frá 2007 hljómar nú eins og spádómur. Þessari „nýju stefnu“ var fylgt í Sýrlandi. Bandaraíkin veðjuðu sem sagt á „trúradeilutrompið“. Það er samkvæmt hinum gamla sið heimsvaldasinna að „deila og drottna“. Og sú aðferð að Bandaríkin skyldu styðja hópa „hliðholla Al-Kaída“ (útnefndur „höfuðóvinur“ BNA 2001) gat ekki þýtt annað LEYNISTRÍÐ af þeirra hálfu, með leyniþjónustu í aðalhlutverki.
Joe Biden varaforseti upplýsti í ræðu árið 2014 að súnnía-vinir Bandaríkjanna í Arabaheimi hefðu „hellt hundruðum milljóna dollara“ í „Al Nusra, Al Qaeda og öfgasinnaða jíhadista, komna frá fjarlægum löndum“ til að heyja stríð í Sýrlandi. Hann tilgreindi sérstaklega Sádi-Arabíu, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Tyrkland sem kostunaraðila stríðsins. Biden bætti við að hin „hófsama miðja“ í Sýrlandsstríðinu sem Bandaríkin og NATO-veldi hefðu sagst styðja hefði aldrei verið til. https://mideastshuffle.com/2014/10/04/biden-turks-saudis-uae-funded-and-armed-al-nusra-and-al-qaeda/
Árið 2014 skrifaði John Podesta yfirmanni sínum, Hillary Clinton, um „ríkisstjórnir Katar og Sádi-Arabíu sem veita ISIS og öðrum róttækum hópum súnnía á svæðinu leynilegan fjárhagslegan og hergagnalegan stuðning.“ https://wikileaks.org/podesta-emails/emailid/3774
Vinir Bandaríkjanna í Arabaheimi voru ekki aðeins tilbúnir að fjármagna hópa trúarvígamanna. John Kerry utanríkisráðherra sagði árið 2013 að þeir [bandamennirnir] væru tilbúnir að borga KOSTNAÐINN AF BANDARÍSKRI INNRÁS í Sýrland: „Reyndar hafa sumir þeirra sagt að ef Bandaríkin eru tilbúin að vinna verkið, eins og við höfum áður gert á öðrum stöðum, væru þeir tilbúnir að bera kostnaðinn.“ https://www.youtube.com/watch?v=extm3zrV0Ys
Robert Stephen Ford sendiherra Bandaríkjanna í Sýrlandi 2011-2014 ræddi eitt sinn um hinn „fordæmalausa“ vopnastraum, einkum til Sýrlands. Hann „greindi frá því við BIRN [Balkan Investigative Reporting Network] og OCCRP [Organized Crime and Corruption Reporting Project] að vopnaverslunin væri skipulögð af Leyniþjónustu Bandaríkjanna, CIA, Tyrklandi og Persaflóaríkjum gegnum miðstöðvar í Jórdaníu og Tyrklandi þó að í framkvæmd fari vopnasendingarnar oft framhjá því ferli.“ https://balkaninsight.com/2016/07/27/making-a-killing-the-1-2-billion-euros-arms-pipeline-to-middle-east-07-26-2016/
Hvaðan komu svo hermennirnir? Bandarísk leyniþjónusta mat það svo (árið 2015) að um 30.000 erlendir vígamenn frá yfir 100 löndum hefðu komið til Sýrlands til að berjast, og stærsti hópurinn gengið til liðs við ISIS. https://www.rt.com/news/316644-jihadists-flow-double-syria/ Mest magn vopna rann líka þangað, einkum gegnum Tyrkland. ISIS var MIKILVÆGASTI bandamaður BNA og Vestursins á fyrra helmingi stríðsins.
Aðferð heimsvaldasinna var sem sagt að breyta pólitískri ólgu í vopnaða „uppreisn“, kaffæra landið með leiguhermönnum og vopnum, byggja svo alþjóðlegan stuðning við „uppreisnina“ á grundvelli „mannúðar“, beita jafnframt hatrömmum efnahagslegum refsiaðgerðum til að brjóta samfélagið niður, koma upp hliðarríkisstjórn og leita eftir diplómatískri viðurkenningu á henni. Útkoman var hrundar borgir og hálf sýrlenska þjóðin á flótta, innan lands eða utan.
Innrásin í Sýrland var skipulögð frá Washington, kostuð frá Persaflóa en gerð aðallega frá Tyrklandi. Það þarf bara að vitna í bandaríska ráðherra og sendiherra til að fá það staðfest.
„Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“
Í júní árið 2014 réðist gríðarsterkur her ISIS frá Sýrlandi inn í Írak og hertók þar mikil svæði og hverja borgina af annarri - sem var skondin þróun í ljósi þess að ISIS varð til í Írak og kom þaðan til Sýrlands (hét þá „Al-Kaída í Írak“). Þá þótti tímabært fyrir Bandaríkin og bandamenn þeirra að hefja opinská afskipti af þessu stríði – sem nú kallaðist „stríð gegn ISIS!“ Í september sama ár var stofnað „Fjölþjóðaliðið gegn ISIS“ undir bandarískri forustu, herlið sem stjórnað er af herstjórn CENTCOM í Flórída. Með í þeirri „björgunarsveit gegn hryðjuverkum“ voru líka Tyrkir, Sádar, Katar og ýmsir helstu kostunaraðilar hryðjuverka!
Nú var hafinn nýr kafli. En ISIS var Bandaríkjunum og vinum þeirra jafn nytsamlegt og áður, nú sem hin formlega ÁTYLLA TIL ÍHLUTUNAR í Sýrlandi. Helsti gallinn við þá íhlutun var að hún var ekki í boði neins þar til bærs aðila og þess vegna í blóra við öll þjóðréttarlög.
Hernaður Fjölþjóðaliðsins var fyrst og fremst lofthernaður og þurfti að styðjast við „boots on the ground“. Formlega notaði Fjölþjóðaliðið valda „uppreisnarmenn“ og „hófsama íslamista“ sem sitt fótgöngulið en gallinn var sá að þeir hópar voru fyrst og fremst í stríði við Sýrlandsstjórn en ekki við ISIS, enda bar stríðið lítinn árangur og ISIS hélt áfram að eflast. Pentagon barðist nú sem sagt formelga við sömu öfl og CIA og bandamennirnir við Persaflóa studdu og vopnuðu bak við tjöldin, svo þetta var augljóslega erfið og flókin staða.
Stríðsgæfan snérist 2015
Næsti kafli stríðsins hófst þegar Sýrlandsstjórn bað Rússa um hernaðaraðstoð til að berjast líka við ISIS, haustið 2015. Með því að verða við þeirri bón höfðu Rússar sitt þjóðréttarlega á hreinu og þeir höfðu líka ríka ástæðu til afskipta, til að hjálpa aðþrengdum bandamanni í suðri (CIA hafði nýlega stjórnað valdaráni við stofuglugga Rússa, í Kiev). Áður höfðu Íran og líbanska Hizbolla sent liðsveiitir á vettvang. Innkoma Rússa í stríðið – og samtímis styrking Sýrlandshers – reyndist hverfipunktur stríðsins, gangur þess snérist, Sýrlandsher komst í sókn og tók að frelsa bæi og byggðir frá hryðjuverkamönnum án þess að Bandaríkin gætu mikið við því gert.
Næsta stefnubreyting í bandarísku herstjórninni var þegar hún kom á bandalagi við Varnarsveitir Kúrda, YPG, og flokkinn PYD, árið 2015. YPG hafði þá barist með árangri við ISIS á nokkrum svæðum. Í upplausn stríðsins frá 2011-14 hafði PYD tekið upp eins konar sjálfsstjórn í nokkrum norðausturhéruðum Sýrlands (henni lýst yfir 2016), héruðum sem kölluðu sig þá Rojava, en í PYD stóðu sterkt hugmyndir um aðskilnað frá Sýrlandi. Þess ber að geta að Kúrdar eru minnihluti í þessum héruðum sem heild. En fyrir árásaröfl sem stefndu að sundurlimun landsins gat slík aðskilnaðarstefna nýst vel. Til að ná markmiðum sínum reyndist PYD tilbúinn að gera bandalag við bandarísku herstjórnina í stríði sem formlega beindist bara gegn ISIS en fól í raun í sér landvinningastríð, hernám svæðanna austan Efrats, svæða sem þá höfðu um sinn undir ISIS. Þessi svæði eru ¼ partur Sýrlands og innihalda m.a. 70% af hveitirækt Sýrlands og nær alla olíuframleiðslu landsins.
Þegar heimsvaldasinnar fylgja reglunni um að deila og drottna er hætt við að þeir geti lent í mótsögnum. Bandalagið við Kúrda bakaði bandarísku herstjórninni vandræði þar sem nú voru tveir helstu bandamenn hennar á svæðinu, Tyrklandsstjórn og PYD, í stríði sín á milli. Þetta bandalag var augljóslega líka hættuspil fyrir PYD: Ef sundurlimun Sýrlands tækist ekki yrði erfiðara en ella að sækja aukin réttindi til handa kúrdíska minnihlutans innan sameinaðs Sýrlands. Og reynslan hefur sýnt Kúrdum að heimsvaldasinnar eru svikulastir vina. Draumurinn um Rojava hvíldi á bandarískri hervernd.
Andheimsvaldabaráttan raunasaga
Sýrlandsstríðið er staðgengilsstríð að forminu en að innihaldi er það innrásarstríð heimsvaldasinna gegn fátæku landi. En sagan um þetta stríð er saga af vestrænni fjölmiðlaeinokun og fréttastýringu sem slær öllum fyrri stríðum við, höfum við þó oft séð það svart. Hin stýrða útgáfa snýr öllum hlutum á hvolf: samkvæmt henni snýst stríðið um „uppreisn alþýðu“ gegn harðstjóra. Vestræn afskipti eru þar lítil og eingöngu í mannúðarskyni.
Öfugt við fyrri stríð heimsvaldasinna bregður nú svo við að margir vinstri flokkar og jafnvel friðarhreyfingar Vesturlanda hafa keypt hina stýrðu útgáfu og tekið þátt í að djöfulgera Sýrlandsstjórn og styðja hina svokölluðu „uppreisn“. Alltént hefur stuðningurinn við baráttu Sýrlands verið í lágmarki á þeim væng og ekkert meiri en hjá harðsvíruðum hægrimönnum. Og sömu aðilar taka nú margir hverjir undir með bandarískum demókrötum þeim sem fordæma brottkvaðningu bandarískra herja. Alþjóðleg barátta gegn heimsvaldaárásinni á Sýrland er sem sagt orðin raunasaga.
Mesti ósigur eftir Víetnam
"We want to keep the oil, and we'll work something out with the Kurds so that they have some money, have some cashflow“, sagði Trump eftir ríkisstjórnarfund í síðustu viku, og sendi aukaliðsafla til olíulindanna. https://edition-m.cnn.com/2019/10/21/politics/syria-cabinet-meeting-donald-trump/index.html
Kúrdaspursmálið er þó aðeins einn þáttur þessara stríðsátaka. Trump (og Erdógan líka) túlkar síðustu vendingar stríðsins sem sigur fyrir hann. Það breytir ekki því að Sýrlandsstríðið hefur þróast þannig að það verður mesti ósigur Bandaríkjanna eftir stríðið í Indókína. Niðurstaða þess er jafnframt fyrsti mikli ósigurinn í „Stríðinu langa“ í Austurlöndum nær sem Bandaríkin og NATO hófu árið 2001, og skapar forsendur fyrir því að sú mikla mannætukvörn verði stöðvuð. Skerið sem heimsveldið mikla steytti á var fyrst og fremst einarðleg barátta Sýrlendinga sjálfra fyrir lífi sínu og fullveldi í því mikla gjörningaveðri. Sigur Sýrlandshers er mesti sigur friðaraflanna á 21. öldinni þótt ekki fengi hann teljandi hjálp frá alþjóðlegri friðarhreyfingu líkt og t.d. Víetnam fékk á sínum tíma. Heimurinn skuldar Sýrlendingum þakkirnar fyrir baráttuna og færðar fórnir.
Greinin birtist einnig í Neistum