Þórarinn Hjartarson: STRÍÐSÖFLUNUM MIÐAR BETUR Í NORÐRI EN SUÐRI
Átökin um hnattræn yfirráð nú um stundir einkennast annars vegar af mikilli alhliða drottnunarstöðu Bandaríkjanna og NATO-blokkarinnar – sem í krafti stöðu sinnar kalla sig „alþjóðasamfélagið“ – og hins vegar af hnignandi stöðu sömu blokkar. Efnahagsleg hnignun hennar (undanhald í keppninni um heimsmarkaðinn) samfara miklum hernaðaryfirburðum leiðir af sér þá miklu árásahneigð sem hún sýnir (sérstaklega Bandaríkin). Helstu stríð og stríðsógnir nútímans eru frá þessari blokk komnar, undir bandarískri forustu.
Á 21. öldinni hafa vestrænir heimsvaldasinnar þróað hugmyndafræði íhlutana sem þeir nefna „verndarskyldu“ (responisbility to protect). Nefnilega að ástandið í tilgreindum ríkjum sé þannig að það kalli á íhlutun „alþjóðasamfélagsins“, yfirleitt í nafni „mannúðar“.
Sú „vernd“ og „mannúð“ sem um ræðir felst í efnahagslegum refsiaðgerðum, valdaránum og valdaskiptaaðgerðum, innrásum eða staðgegnilsstríðum gegn löndum sem vestrænir auðhringar vilja ráða yfir en hafa ekki nægjanleg tök á (mótþróalönd).
Suðrið
Kringum 2001 hófu Bandaríkin og NATO „stríð gegn hryðjuverkum“ og settu fram lista yfir „öxulveldi hins illa“ og stefndu herjum sínum einkum á hin olíuauðugu Austurlönd nær til að tryggja yfirráðin eftir fall Sovétríkjanna. Þegar fyrir aldamót hafði Pentagon skilgreint Íran og Írak sem „þorpararíki“ og kallaði eftir einangrun þeirra og „valdaskiptum“. Fljótt eftir 11. september var ráðist inn í Afganistan og nýjum ríkjum var bætt á listann „öxulveldi hins illa“: Líbíu og Sýrlandi. https://neistar.is/greinar/iran-heimsvaldastefnan-og-midsvaedid/
Síðan hefur stríðið á þessu svæði staðið óslitið – gegnum beinar innrásir Bandaríkjanna og „alþjóðasamfélagsins“ eða staðgengilsstríð og málaliðahernað studdan af Vestrinu og Ísrael ásamt bandamönnum í arabalöndum. Megintaktíkin hefur verið að nota trúrdeilur til að brjóta mótþróalöndin niður innan frá.
Hin volduga bandaríska hugveita Brookings Institution gaf árið 2009 út skýrsluna „Hvaða leið til Persíu?“ https://landdestroyer.blogspot.com/2012/10/brookings-institutions-which-path-to.html Þar kom fram að til að sigrast á Íran væri nauðsynlegt að gera fyrst skaðlausan helsta bandamann Írans, Sýrland. Sú aðgerð hófst 2011.
En það er skemmst frá því að segja að þessar styrjaldir Vestursins í Austurlöndum nær hafa gengið mjög illa. Stríð NATO í Afganistan hefur staðið í 18 ár og „sigur“ er síst í augsýn. Afganir eru stolt þjóð og mjög ákveðnir í að ráða sér sjálfir. Íraksstríðið var tíu ára hroðaleg og blóðug katastrófa (að viðbættu borgarastríðinu við ISIS frá 2014) og eru innrásaröflin þó litlu bættari á eftir. Líbíustríð NATO-ríkja þótti takast best en eftir stendur niðurrifið land. Sýrlandsstríðið leit vel út um tíma fyrir Vestrið og bandamenn þess en frá 2015 snérist stríðsgæfan Sýrlandi í vil (með hernaðaraðstoð frá Rússlandi) og landið er unnið tilbaka úr kjafti vargsins í bitum og áföngum. https://southfront.org/map-comparison-military-situation-in-syria-in-june-2015-and-september-2019/ Og Íran hefur ekki látið ógnanir, innikróun og viðskiptastríð beygja sig til undirgefni og svarar nú stríðshótunum BNA og bandamanna þeirra fullum hálsi.
Djöfulskapurinn hefur nefnilega ekki skilað tilætluðum árangri heldur hefur andspyrnan styrkt sig. Ríki og þjóðir sem hafa mátt þola þessa ásókn heimsvaldasinna verja sjálfsákvörðunarrétt sinn og snúa bökum saman. Til varð andspyrnuöxull („axis of resistance“) í Miðausturlöndum og hann hefur eflst við hverja raun. Kjarni hans er Íran, Sýrland og Hizbollahreyfingin í Líbanon. Upp á síðkastið hefur Írak æ meir tekið sér stöðu með andspyrnuöxlinum og eins er um Hútahreyfinguna í Jemen sem á í höggi við nokkra sömu meginóvini (Sáda, Bandaríkin, Breta...) og lætur ekki sinn hlut.
En norðrið?
Svona er staðan í Suðrinu. En í Norðrinu er allt annars konar þróun í gangi. Á Íslandi er „herinn“ á leiðinni til baka, í Keflavík er að taka á sig mynd varanleg herstöð með sívaxandi herbúnaði og hreyfanlegum herafla frá Bandaríkjunum og NATO (og herstöðvar nútildags hafa einmitt „hreyfanlegan herafla“). Á alþingi Íslendinga er engin andstaða sem hægt er að nefna því nafni gegn þessari þróun.
Noregur
Ísland er þó ekkert sértilfelli. Noregur hefur nú látið af 70 ára gamalli herstöðvastefnu sinni, stefnu frá tilurð NATO 1949, um að leyfa aldrei erlenda herstöð í Noregi á friðartímum. Undanfarin fáein misseri hafa verið settar upp tvær bandarískar herstöðvar í Noregi, í Værnes í Þrændalögum og Setermoen í Tromsfylki og er þar gert ráð fyrir 700 hermönnum fyrst um sinn. https://www.klassekampen.no/article/20171007/ARTICLE/171009964 Miklar bandarískar vopnabirgðir eru í risastórum geymslusölum gröfnum inn í nokkur fjöll í Þrændalögum. Þær eiga að duga 16 þúsund hermönnum til eins mánaðar stríðs. https://www.tu.no/artikler/norske-fjellhaller-er-stappfulle-av-amerikansk-militaerutstyr/277224 Uppbygging radarkerfa í Noregi fer fram undir bandarískri stjórn, og verður áfram undir bandarískri stjórn. Noregur hefur kúvent landvaranarstefnu sinni og aðlagað hana hnattrænni stríðsstefnu NATO: setur eigin landvarnir undir bandaríska forsjá og tekur jafnframt fullan þátt í stríðum NATO í fjarlægum heimshlutum, var m.a. í miklu hlutverki í lofthernaðinum gegn Líbíu. Noregur var aðalgestgjafi Trident Juncture í fyrra, mestu NATO-æfingar frá 2002 (50 þúsund hermenn, 8 þúsund stríðsökutæki og skriðdrekar, 70 herskip og 130 flugvélar) sem æfði óopinbert stríð við Rússa https://neistar.is/greinar/nato-i-vigahug-trident-juncture-a-islandi-og-noregi/ .
Svíþjóð og Finnland
„Hlutlausu löndin“ Svíþjóð og Finnland hafa nú gerst mjög virkir þátttakendur í NATO. Bæði gerðust „samstarfsaðilar“ að NATO (s.k. „partnership for peace“) árið 1994. Bæði hófu þátttöku í stríðinu í Afganistan árið 2002. Bæði sendu flugvélar og mannskap í stríðið gegn Líbíu 2011. Bæði löndin gerðu „gestgjafasamning“ við Bandaríkin árið 2014 sem þýðir að Bandaríkin og NATO geta – að boði gestgjafanna – bæði æft og háð stríð frá sínum löndum við þriðja land. Og þá heimild hefur NATO nýtt sér með miklum heræfingum í báðum löndunum, gegn Rússum. Svíþjóð og Finnland eru ekki lengur hlutlaus lönd heldur í reyndinni orðin NATO-meðlimir og æfa NATO-stríð. Sjá hér: https://spartakus.no/2019/09/17/sverige-ruster-for-krig/ og hér: https://radikalportal.no/2018/10/15/nato-opprustinga-av-norden-oker-faren-for-krig/
Danmörk og Grænland
Það er í ljósi þessa undirlægjuháttar Norðurlanda sem skoða verður nýjan áhuga Donalds Trump á að kaupa Grænland. Danski forsætisráðherrann kallaði reyndar hugmyndina „absúrd“, og gott var það. Við það varð Trump hins vegar móðgaður og ítrekaði að hugmyndin væri alvarlega meint. Og í ljósi þess hvað Norðurlönd hafa lagt sig gjörsamlega flöt undir Bandaríkin í varnarmálum (og refsiaðgerðum gegn Rússum m.m.) og í ljósi nýlegrar skyndisóknar Bandaríkjanna sem „heimskautaþjóð“ er trúlegt að „tilboð“ Trumps verði ekki það síðasta sem við heyrum um áhuga BNA á Grænlandi.
Glæpur Pútíns
Þessi þróun á Norðurlöndum er auðvitað bara hluti af allsherjarsókn NATO til austurs og vígvæðingunni gegn Rússlandi, með skotpallavíglínu og vaxandi heræfingum vestan vesturlandamæra Rússlands. Og óvíða er andrússneski NATO-áróðurinn meira eintóna en á Norðurlöndum, áróður sem er þó runnin upp í Bandaríkjunum. Stöðugt er haldið á loft þeirri mynd að Rússland sé hin mikla ógn sem þurfi að refsa, einangra og vígbúast gegn. Það er þó ljóst öllum þeim sem vilja sjá að öll þessi vígvæðing er drifin áfram af Bandaríkjunum og Vestrinu. Rússland ógnar ekki á neinn hátt stórveldum NATO (síst af öllu Bandaríkjunum) heldur er það öfugt. Raunverulegur glæpur Pútíns er að snúa frá þjónkun fyrirrennarans Jeltsíns við Vesturlönd og taka að verja af kappi hið smækkaða áhrifasvæði Rússlands gagnvart ásókn USA/NATO-velda – og að mynda blokk með Kína gegn þeirri blokk sem öllu hefur ráðið og kallar sig „alþjóðasamfélagið“.