Fara í efni

Þingflokkur VG á villigötum í vímuefnamálum

Heill og sæll félagi Ögmundur! Oftar en ekki er ég þér sammála í þjóðmálaumræðunni. En undantekningin sannar regluna og hvað þig varðar fann ég þá undanteknigu í þingmáli ykkar Þuríðar Backman um úrræði fyrir áfengis og vímuefnaneytendur. Reyndar er ég svo ósammála ykkur að ég ætla mér að fá að nýta dálkinn "frjálsir pennar" á heimasíðu þinni til að gagnrýna þetta þingmál ykkar.
Ástæðan er einfaldlega sú að tillaga þessi (og reyndar fleiri í sama dúr) gæti að mínu mati hrundið af stað ferli sem skaðað gæti þennan þátt heilbrigðiskerfisins og stuðlað að niðurskurði. Forðast verður að það mikla og fórnfúsa starf sem sjúklingasamtök á borð við SÁÁ hafa unnið undanfarna áratugi verði  fyrir barðinu á almennum niðurskurði sem hugsanlega átti að beina annað.

Þingsályktunartillagan

Þingsályktunartillaga ykkar er svohljóðandi: Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að láta fara fram könnun á forvarnar og meðferðarúrræðum fyrir áfengis og vímuefnaneytendur. Í  framhaldi af slíkri könnun verði settar fram tillögur um úrbætur með það fyrir augum að stuðla að heildstæðum lausnum að markvissri nýtingu fjárstuðnings frá hinu opinbera.
Fljótt á litið er ekki margt við þessa tillögu að athuga en þar er þó lagt inn á vafasama braut sem betur er útskýrður í greinargerðinni sem henni fylgir en með henni kveður við tón sem mér hugnast illa.

Greinargerðin

Í greinargerðinni er ýjað að því að hugsanlega sé rétt að skerða möguleika áfengis- og vímuefnasjúklinga til inniliggjandi afeitrunar og meðferðar og þar með ná fram sparnaði í þessum málaflokki. Einnig er lagt til að sett verði á fót ríkisapparat sem sjái um greiningu og tilvísanir fyrir alla sem leita úrræða og skerða þannig sjálfsákvörðunarrétt viðkomandi sjúklinga til að leita aðstoðar hjá þeim læknum og heilbrigðisstofnunum sem þeir treysta best.
Í greinargerðinni er vitnað í skýrslu Shaffers W. Hovards (Mat á áfengis og vímuefnameðferð) frá 1997. Að sinni vil ég láta umdeilda skýrslu Hovards – sem varla telst til helstu sérfræðinga á þessu sviði (amerískur sálfræðingur sem hefur sérhæft sig í spilafíkn) – liggja á milli hluta, en þó vil ég benda á að á þeim sjö árum sem liðin eru frá því hún var gerð hefur ýmislegt gerst í áfengis og vímuefnamálum í landinu og segja má að landslagið hafi gjörbreyst.
Má þar nefna að á tímabilinu 1997 til ársins 2000 geisaði vímuefnafaraldur á Íslandi. Á sama tíma minnkuðu fjárframlög ríkisins til SÁÁ sem sinnir langstærsta hópi áfengis og vímuefnaneytenda og eru ein stærstu sjúklingasamtök landsins með um 15000 félaga. Til að bregðast við breyttu ástandi hafa samtökin og fagmenn sjúkrastofnanna þeirra lagt í mikla endurskipulagningu og stöðuga endurskoðun á meðferðaraðferðum: sífellt stærri hluti kostnaðar er tekinn af sjálfsaflafé samtakanna (ríkið greiðir í dag um 64% af kostnaðinum), byggð hefur verið sérstök unglingadeild, aukið við göngudeildarþjónustu (á Akureyri og í Reykjavík), nauðsynlegt hefur verið að beita sumarlokunum á eftirmeðferðarstöðum og áfangaheimili á Akureyri var selt.
Læknar, hjúkrunarfólk og ráðgjafar samtakanna hafa unnið að stöðugri endurskoðun meðferðarinnar og endurmenntun í samvinnu við helstu sérfræðinga heimsins (og þar með orðið hluti þess hóps) í þessum málaflokki. Síðast en ekki síst hefur SÁÁ, eftir mikla vinnu, náð að gera þjónustusamning við Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið.

Þjónustusamningur SÁÁ og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins

Þjónustusamningurinn, sem er mjög nákvæmur, gerbreytti stöðu SÁÁ. Í stað þess að vera á nálum á hverju ári á meðan misvitrir alþingismenn unnu að fjárlagagerð, öðlaðist SÁÁ rekstrarlegt öryggi. Samningurinn svarar mörgu því sem þingsályktunartillaga VG fjallar um og þingmenn flokksins hafa greinilega áhyggur af.
Í samningnum er stuðst við markmið Alþingis um hámarksneyslu alkóhóls og að dregið verði úr áfengis- og vímuefnaneyslu fólks undi lögaldri. Í samningnum er ítarlega fjallað um hagkvæmni, árangursmælingar, greiningu, afeitrun, endurhæfingu, unglingadeild, göngudeildarþjónustu, skimun (alnæmi og lifrarbólga), fæði og klæði, fjámögnun, upplýsingagjöf  og gegnsæi og farið er fram á árskýrslu og skil á stjórnunarupplýsingum svo eitthvað sé nefnt. Sömu reglur hljóta að gilda um Landspítalann háskólasjúkrahús. Þrátt fyrir þessi ítarlegu ákvæði samningsins, leyfið þið ykkur að fullyrða að “eftirlit með þessum aðilum virðist bæði tilviljanakennt og skipulagslaust” og “flókinn rekstrargrundvöllur þessara aðila er ekki til þess fallinn að gera starfsemi þeirra gegnsæja.”

Á kannski að hengja bakara fyrir smið?

Það er ljóst að SÁÁ og Landspítalinn háskólasjúkrahús hafa borið hitann og þungann af áfengis og vímuefnameðferð álandinu undanfarna áratugi. Það er einnig ljóst að eftirlit með þessum tveimur aðilum er mjög gott og langt frá því að vera tilviljanakennt og skipulagslaust. Þegar talað er um slíkt dettur mér því helst í hug að verið sé að ræða um aðra aðila og ef svo er, væri þá ekki heiðarlegast að koma bara beint að efninu?
Krísuvíkursamtökin hafa að minnsta kosti í tvígang tekið alla þjóðina með sér í stórátak til að koma upp unglingameðferð í Krísuvík. Það hefur ekki tekist þrátt fyrir alla þá fjármuni sem almenningur, fyrirtæki og hið opinbera hefur sett til samtakanna og í dag er rekin þar fámenn meðferð sem aðallega er fyrir útlendinga á öllum aldri. Trúboðar hafa verið duglegir við að sinna þessum málum og gert margt gott en spyrja má að því hvort íslensk heilbrigðisyfirvöld eigi í svo ríku mæli að setja takmarkaða fjármuni í þá starfsemi. Það má þá líka spyrja að því hvort ekki eigi að afhenda trúboðum önnur heilbrigðisvandamál svo sem geðheilbrigðismál (alkóhólismi er skilgreindur með geðsjúkdómum). Við þetta má bæta að mörgum hugnast það illa að vímuefnasjúklingum sé boðið upp á ófullnægjandi aðstæður og má þar nefna að á Byrginu kemur einungis læknir einu sinni í viku.

Árangurstölur

Þingflokkurinn spyr: “Væri til bóta að gera kröfu um árangurstölur frá þeim aðilum sem sinna meðferð vímuefnaneytenda og þær þá teknar saman af hlutlausum aðilum.” Í þjónustusamningnum er að hluta til fjallað um þetta mál en þar segir: “2.1 allar heilbrigðisstofnanir þrói með sér árangursmælikvarða og meti starf sitt á þeim grunni” og  “Verksali mun á kynningarfundi, sbr. gr. 10.2 afhenda verkkaupa niðurstöður árangursrannsókna, þar sem megináherslan verður lögð á mat á þeim meðferðaaðferðum sem stofnunin beitir hina ýmsu hópa áfengis- og vímuefnasjúklinga. Samanburður skal gerður við aðrar sambærilegar stofnanir hérlendis og erlendis. Verksali mun vinna nánari útfærslu á aðferðafræði að höfðu samráði við verkkaupa.”
Að sjálfsögðu væri það til bóta að viðkomandi ráðuneyti gerði svipaðar kröfur til annara meðferðastofnana og að verkkaupi (ríkið) fjármagnaði (sennilega kostnaðarsamar) árangursmælingar sem framkvæmdar væru af hlutlausum aðilum. 

“Afeitrun án innlagnar”

Þingmennirnir mínir - því ekki skaltu gleyma því að við erum flokksfélagar og samherjar um flest - virðast hafa áhyggjur af því að ekki sé nægjanlega beitt “afeitrun án innlagnar.” Því er til að svara að Landspítalinn hefur um áratugaskeið boðið upp á þá meðferð og það sama má segja um fjölda heimilislækna og heilsugæslustöðva um allt land. Hins vegar er reyndin sú og reynsla flestra íslenskra vísindamanna á þessu sviði að innliggjandi afeitrun gagnast flestum sjúklingum best. Margir eldri félagar SÁÁ horfa með skelfingu til þess tíma fyrir aðeins 26 árum síðan, þegar alkóhólistar voru meðhöndlaðir sem úrhrök og fangelsin, sjúkrahúsin, göturnar og að lokum líkhúsin voru nánast þeirra eina athvarf. Afeitrun án innlagnar var þá helsti valkosturinn sem fyrir flesta þýddi eingöngu það að rölta upp á Landspítala og ná í lyfin sín á milli fyllerístúra.
Það hefur alltaf verið höfuðmarkmið SÁÁ að bjóða þeim sem það þurfa, inniliggjandi afeitrun. Einfaldlega vegna þess að læknar stofnunarinnar telja það  óumdeilanlegt að slík meðferð skili mestum árangri og flestum edrú. Inniliggjandi afeitrun skilar ekki aðeins betra og jafnvel lífsnauðsynlegu eftirliti með oft fárveiku fólki heldur er tíminn einnig notaður til markvissrar fræðslu og innrætingu sem gerir fólk mun hæfara til að lifa lífinu án vímugjafa að meðferð lokinni.
Vel má vera að það biðji einhverjir sjúklingar um innlögn án þess að þeir þurfi nauðsynlega á því að halda en eigum við ekki að láta þá njóta vafans? Ég treysti í það minnsta fagmönnum SÁÁ og LSH til að taka ákvörðun um slíkt. Staðreyndin er sú að á Íslandi er ein besta áfengis og vímuefnameðferð í heimi, kannanir hafa sýnt fram á að slík heilbrigðisþjónusta er þjóðhagslega hagkvæm vegna þess að fleiri eru þáttakendur í atvinnulífinu og færri á spítölum, fangelsum o.s.frv. Þessi meðferð byggir fyrst og fremst á inniliggjandi afeitrun og hún stendur til boða öllum sem á þurfa að halda. Meðferð án innlagnar skilar sjálfsagt alltaf einhverju en það má reikna með því að afturhvarf til afeitrunar án innlagna gildi aðeins fyrir þá efnaminni en hinir ríku láti leggja sig inn á rándýrar einkastöðvar.

Greiningarstöð ríkisins

Í greinargerð þingmáls ykkar Þuríðar er spurt: “Kemur til greina að setja á laggirnar greiningar og ráðgjafastöð/móttökustöð sem sinni móttöku og greiningu allra þeirra sem leituðu sér aðstoðar vegna vímuefnavanda á Íslandi.” Í fljótu bragði getur þetta virðst eðlileg spurning, en stöldrum aðeins við.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skilgreinir alkóhólismann sem sjúkdóm - það gera íslensk heilbrigðisyfirvöld líka. Íslendingar hafa þann rétt að leita sér lækninga hjá þeim sjúkrastofnunum og læknum sem þeir treysta best. Annaðhvort í gegnum heimilislækna eða með beinu sambandi. Af hverju ætti alkóhólismi að vera tekinn öðrum grundvallartökum en aðrir sjúkdómar? Örlar kannski á fordómum eða vilja menn vera sjálfum sér samkvæmir og leggja til að sett verði á fót háls, nef og eyrnagreiningarstöð, tannlæknagreiningarstöð ,geðgreiningarstöð o.s.frv. Ef ekki, væri þá ekki við hæfi að viðurkenna rétt alkóhólista til að fara á milli viðurkenndra lækna og heilbrigðisstofnana eins og aðrir sjúklingar? Það má líka velta því fyrir sér hvort fjármunir teknir til sérstakrar greiningarstöðvar yrðu ekki teknir frá meðferðastarfinu sjálfu.

Fagleg umæða

Ég fullyrði að í öllum grundvallatriðum eru úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur á Íslandi í góðum farvegi og í höndum færustu fagmanna. Vandamálin þar eins og svo víða í heilbrigðiskerfinu eru fyrst og fremst fjárhagsleg. Samvinna á milli heilbrigðisstofnanna er mikil og úrræðin fjölbreytt. Í greinargerð ykkar með þingmálinu leggið þið mikla áherslu á að það beri “brýna nauðsyn til að allir þeir aðilar sem fást við þennan vanda vinni sem markvissast að sameiginlegum markmiðum.”
Í þjónustusamningi SÁÁ og ráðuneytisins segir: “Verksali (SÁÁ) mun leita eftir samstarfi við LSH um að koma á sameiginlegu vinnuferli um greiningu sjúklinga og taka ákvörðun um innlagnaferli hvers sjúklings.” Þarna er í það minnsta orðin samvinna á milli LSH og SÁÁ undir stjórn ráðuneytisins. En það er greinilega nauðsyn á upplýsingum og umræðu. Við getum ekki leyft okkur sama ruddaskap og ríkisstjórnin þegar hún leggur til gríðarlegan, flatan niðurskurð í heilbrigðiskerfinu án þess að skilgreina hann á nokkurn sértækan hátt.
Umræðan verður að vera fagleg, og það verða fagmenn að koma að henni.
VG hefur ekki verið hrætt við almenna og lýðræðislega umræðu í flokknum, þvert á móti höfum við verið dugleg að fjalla um hin ýmsu mál á fundum okkar og ráðstefnum og reyndar stendur Reykjavíkurfélagið og Borgarmálaráð  VG fyrir slíkum umræðufundum í hverri einustu viku. Þetta þingmál er hins vegar ekki sprottið upp úr almennri umræðu.
Ágæti félagi Ögmundur! Þegar þú talaðir fyrir þessu máli á Alþingi hvattir þú til opinnar umræðu innan okkar hreyfingar og í þjóðfélaginu almennt. Ég tók þig á orðinu. Ég vona aðrir geri það einnig og ég hvet þig til að leggja þitt af mörkum til að stuðla að faglegri og vandaðri umræðu um þessi mál. Ég treysti því að svo verði enda í samræmi við þau vinnubrögð sem mér sýnist að yfirleitt tíðkist í þngflokki VG.
Ég veit að þingsályktunartillaga ykkar Þuríðar Backman er ekki illa meint og síst er það vilji ykkar að draga úr þjónustu við veikt fólk. Fljótt á litið getur meðferðageirinn verið ruglingslegur en þegar betur er að gáð er langstærstur hluti hans í góðum höndum.
Með þetta allt í huga hvet ég ykkur eindregið til að endurskoða  þessa þingsályktunartillögu um úrræði fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur.
Félagakveðjur,
Þorleifur Gunnlaugson
varaformaður VG í Reykjavík.