Fara í efni

Þorleifur Óskarsson skifar: VOLVOINN, KJALLARAÍBÚÐIN, SKOPMYNDASAFNIÐ OG HÖRMUNGARNAR VIÐ INDLANDSHAF

Ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur eina ferðina enn sýnt og sannað að henni verður ekki fisjað saman þegar neyðin kallar. Á dögunum tilkynnti hún um hvorki meira né minna en 5 milljóna króna framlag til hjálparstarfs á hamfarasvæðunum við Indlandshaf þar sem nú er talið að um 100 þúsund manns hafi látið lífið, þar sem milljónir eru nú heimilislausar og þar sem mikilvægt er að brugðist verði skjótt við til að koma í veg fyrir smitsjúkdóma sem geta orðið tugþúsundum manna að fjörtjóni.  

Til frekari glöggvunar á “rausnarlegu” framlagi ríkisstjórnar Íslands er ekki úr vegi að setja það í eitthvað áþreifanlegt samhengi svo maður geti gert sér fyllilega grein fyrir því hvað um er að tefla. Ætla ég ekki að beita höfðatölureglunni að þessu sinni þótt vissulega geti hún nú sem endranær gefið sannverðuga mynd af okkar “stóra” framlagi. Nei, ég ætla þess í stað að benda til að mynda á hvað þokkalegur bíll kostar nú til dags, bíll sem rétt dugar til að koma sómakærum heiðursmönnum skammlaust til og frá vinnu? Samkvæmt verðlista bílaumboðsins Brimborgar kostar t.d. Volvo S80 T6 Geartronic með 4 dyrum, framdrifi og 272 hestafla vél um 5,4 milljónir! Þá nemur framlag ríkisstjórnarinnar um þriðjungi af verði þokkalegrar kjallaraíbúðar á höfuðborgarsvæðinu og má af því einnig sjá að ekkert hefur verið til sparað. Eða hvað?

Rétt er og að minnast þess að lokum  – og í því skyni að undirstrika enn frekar rausnarskap íslenskra stjórnvalda til aðstoðar fórnarlömbum náttúruhamfaranna í Asíu – að fyrir skömmu keypti ríkisstjórn Halldórs Ásgrímssonar og félaga gríðarmikið skopmyndasafn í tilefni af 100 ára afmæli heimastjórnar, að sögn til að varðveita “stórmerkar” heimildir um stjórnmálasögu landsins. Skopmyndateiknarinn fékk aðeins 18 milljónir króna í rassvasann fyrir þennan “óborganlega” menningararf, sem landsmenn hafa reyndar fengið að njóta bæði í blaða- og bókaformi um áratugaskeið og geta gengið að hvenær sem þeir vilja. En þetta eru merkilegar myndir að mati valdhafanna, þetta er að þeirra dómi ómetanlegur menningararfur sem geymir andlit og skrokka landsins bestu sona og dætra, að langstærstum hluta óendanlegar myndasyrpur af ráðherrunum sjálfum og pólitískum og efnahagslegum vinum og félögum þeirra til margra ára og áratuga. Þennan arf verður sannarlega að geyma vandlega á Handritastofnun eða öðru góðu safni þar sem finna má rétt raka- og hitastig svo komandi kynslóðir megi njóta hans í botn með dyggri hjálp sagn- og fornfræðinga sem eru boðlegir ríkjandi valdhöfum.

Kannski getur hinn nýskipaði skopmyndateiknari ríkisins með list sinni lyft geði landsmanna örlítið á komandi vikum svo þeir gleymi sem allra fyrst hörmungunum við Indlandshaf. En eftir situr í hugum allra landsmanna hinn ógleymanlegi “rausnarskapur” ríkisstjórnar Íslands til uppbyggingar- og hjálparstarfsins á hamfarasvæðunum. Er vægast sagt vonandi að “gjafmildin” hafi verið á misskilningi byggð - að stjórnvöld hafi einfaldlega ekki verið búin að fá glögga mynd af þeim ógurlegu hörmungum sem dundu yfir Suðaustur-Asíu á annan dag jóla og afleiðingum þeirra. Verður öðru ekki trúað fyrr en á verður tekið. Ráðamenn geta því með góðri samvisku endurskoðað hug sinn og yrðu sannarlega menn að meiri. Ekki þurfa þeir heldur að velkjast í vafa um að allur þorri þjóðarinnar, og þar með taldir kjósendur ríkisstjórnarflokkanna, vill að stjórnvöld láti margfalt meira af hendi rakna. En ef ríkisstjórnin situr föst við sinn keip og sér ekki sóma sinn í því að viðurkenna mistök sín hlýtur það að koma sterklega til álita að vekja rækilega athygli heimsbyggðarinnar á hinu vesæla 5 milljóna króna framlagi íslenskra stjórnvalda. Og að þeirri dapurlegu kynningu mætti til að mynda standa með heilsíðuauglýsingu í bandaríska stórblaðinu New York Times.

Þorleifur Óskarsson