Í HVERN HRINGIR ÖSSUR Á NÆSTKOMANDI SUNNUDAG?
Össur Skarphéðinsson skrifar dramatískan greinarstúf í Morgunblaðið á mánudag. Þessi fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hins svokallaða nútíma jafnaðarmannaflokks sem hefur því miður siglt jafnt og þétt upp að hlið Sjálfstæðisflokksins í öllum meginmálum, ákallar nú “sanna vinstrimenn” til fylgis við sinn miðjusækna markaðshyggjuflokk. Og vegna hvers; jú, að sögn vegna yfirvofandi svika Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs sem geri sér nú dælt við Sjálfstæðisflokkinn.
Svikamyllan og góðir vinstrimenn
Ekki vantar að Össur sviðsetur meinta svikamyllu VG með miklum tilþrifum og ekki bregst honum stílfimin fremur en fyrri daginn. Kemst hann svo listavel að orði í stúfnum sínum eins sjá má að neðan, og að því er virðist kinnroðalaust:
“Í gær sýndi Gallup-könnun fyrir RÚV að það er loks tekið að fjara undan Sjálfstæðisflokknum í Reykjavík. Við þessar aðstæður er það bylmingshögg í bringspalir sannra vinstrimanna að heyra það opinberlega frá forystumönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að þeir geti hugsað sér að mynda meirihluta með Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórn.”
Og síðar í greinarstúfnum eru “góðir vinstrimenn” áfram ákallaðir og varaðir við að veita VG brautargengi. Það er greinilega fullreynt með miðju- og hægrafylgið hjá Samfylkingunni og á endaspretti kosningabaráttunnar reynir formaðurinn fyrrverandi, með dramatík, spuna og klækjabrögðum, að krækja í hluta af vaxandi fylgi vinstri grænna. Í þeim tilgangi bætir hann örlítið við bylmingshöggið og segir orðrétt:
“Forystumenn VG hafa hvað eftir annað ítrekað að besta leiðin til að halda Sjálfstæðisflokknum frá áhrifum í borginni sé að kjósa VG. En samkvæmt þessu er ekki hægt að útiloka að góðir vinstrimenn, sem ætla að berjast gegn völdum Sjálfstæðisflokksins með því að kjósa VG, kunni að opna sjálfstæðismönnum leið bakdyramegin inn í Ráðhúsið.”
Já, mikil er dulúðin og meira að segja bakdyramegin. En hversu trúverðugur er vinstrimaðurinn góði, Össur Skarphéðinsson, einn af mínum uppáhalds stjórnmálamönnum, í þessum málflutningi sínum?
Til vinstri með Vilhjálmi?
Man Össur Skarphéðinsson virkilega ekki eftir því sjálfur í hvern hann hringdi daginn eftir síðustu alþingiskosningar eftir að hafa flaggað Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sem forsætisráðherraefni í marga mánuði þar á undan? Er ekki rétt að rifja þá hringingu upp? Jú, í örvæntingu sinni hringdi Össur í hið þjóðþekkta “félagshyggjutröll” og “vinstrisinna”, Halldór Ásgrímsson og bauð honum forsætisráðherrastól með stuðningi Samfylkingarinnar. Og svo mikill var gassagangurinn upp í valdastólana og svo allt um lykjandi var umhyggjan fyrir vinnstrisinnaðri félagshyggjustjórn að það hvarflaði ekki að honum eitt andartak að bjóða vinstri grænum með í draumastjórnina sína. Nei, hann vildi nefnilega mynda almennilega vinstri stjórn með Halldóri Ásgrímssyni, Valgerði Sverrisdóttur og félögum!
Er nema von að maður velti því fyrir sér í hvern Össur Skarphéðinsson muni hringja næstkomandi sunnudag í þeim tilgangi að greiða fyrir meirihlutamyndun í Reykjavík. Ef marka má skoðanakannanir verður Framsóknarflokkurinn varla fyrir miklu ónæði frá Össuri þetta sinnið. En getur ekki verið, miðað við fyrri símhringingar, að hann muni þá bara ræsa út liðið á höfuðbólinu, slá á þráðinn til Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar og slá þar með sjálfur það “bylmingshögg í bringspalir sannra vinstrimanna”, högg sem hann telur nú henta í bili að eigna öðrum - að ósekju.
Þetta á auðvitað allt eftir að koma í ljós en hitt geta vinstrimenn reitt sig á að eina tryggingin fyrir áframhaldandi félagshyggjustjórn í Reykjavík er öflug útkoma VG í kosningunum. Vinstrihreyfingin – grænt framboð er nefnilega eini flokkurinn sem er þess megnugur, og hefur til þess að auki allar forsendur og áhuga, að draga Samfylkinguna út úr miðjumoðinu og örlítið til vinstri. Vonandi verður það niðurstaðan.