Sænsk dæmisaga frá Guantanamo
Nú eru Bandaríkjamenn búnir að láta lausan sænska fangann í Guantanamo-búðunum, Mehdi Ghezali. Umheiminum berst því enn ein frásögnin af pyntingum sem þar hafa farið fram. Mehdi Ghezali sem varð 25 ára nú fyrir nokkrum dögum, lýsir því hvernig hann var hlekkjaður og pyntaður tímum saman, allt að 14 klukkustundum í senn. Hann var, í tvö og hálft ár, í klefa sem var þrjú löng skref á lengd og tvö til þrjú skref á breidd. Allan þennan tíma var hann ávarpaður með númeri, „US9SWE000166", aldrei með nafni.
Í janúar 2002 var Ghezali troðið inn í flugvél: „Við sátum í einni kös, járnaðir á höndum og fótum við bekki, með dimm gleraugu svo við sáum ekkert - og með eyrnatappa svo við heyrðum næstum ekkert." Þannig misstu fangarnir allt tímaskyn. Það fyrsta sem „US9SWE000166" sá þegar úr vélinni var komið voru verðir, sem voru um allt. Hann hélt að hann væri í Bandaríkjunum, en nokkrir aðrir héldu sig vera í Kuwait eða Saudi-Arabíu vegna veðursins og pálmanna, en voru í reynd á Kúbu! Fangarnir fengu aldrei að vita hvað tímanum leið, hvaða dagur var eða ár. Þeir voru settir í búr sem gert var úr neti úr stálþráði.
Stífar yfirheyrslur
Yfirheyrslurnar yfir Mehdi Ghezali byrjuðu strax. Hvað eftir annað þurfti hann að segja ævisögu sína, sömu söguna aftur og aftur: „Þeir tóku allt upp á band. Einn þeirra kunni sænsku. Ég sagði allt sem ég vissi og svaraði öllum spurningum."
Samt héldu yfirheyrslur áfram dag eftir dag. Eftir hálft ár hætti Ghezali að svara: „Ég svaraði hvorki með já eða nei." Viðbrögðin urðu sterk. „Þeir urðu mjög reiðir. Þeir tóku fyrir öll bréf að heiman og ég var iðulega settur í einangrun." Í yfir tvö ár neitaði hann að svara. Þetta varð til þess að Bandaríkjamenn rökstuddu varðhald hans með því að segja að hann væri ekki samvinnuþýður!! Svíar voru beðnir um að reyna að fá fangann til að vera samvinnuþýðari, sem þeir og gerðu.
En Ghezali var staðfastur. Hann hafði jú sagt allt af létta daglega í hálft ár! Svona hélt þetta áfram, mánuð eftir mánuð, eins konar skotgrafarh
Brátt var fyrirkomulagi búðanna breytt og föngunum skipt niður í fjórar búðir. Í einni þeirra fengu þeir „samvinnuþýðu" að horfa á bíómyndir og spila fótbolta.
Ghezali var ekki einn af þeim heppnu. Það eina sem hann fékk að lesa var Kóraninn. Reyndar fékk hann að lesa sænska lestrarbók, skólabók, í nokkra daga áður en tekið var fyrir þann lúxus. Þá fékk hann tannbusta, reyndar úr gúmmi og með mjög stuttum hárum, en tannbursta samt. En hann fékk enga tannlæknishjálp. Fangaverðirnir buðust þó til að rífa úr honum skemmdu tennurnar!
Þrátt fyrir blátt bann tókst honum stundum að tala við samfanga og fá smá upplýsingar. Annars voru þeir algjörlega einangraðir frá umheiminum. Eins og allir vita þá er þessi meðferð brot á öllum alþjóðalögum um meðferð stríðsfanga. Ghezali fékk t.d. aldrei að heyra nokkar ákærur á hendur sér. Hann segist ekki hafa tekið þátt í nokkrum bardögum eða tilheyrt neins konar netverki hryðjuverkamanna eða liðssveitum talibana.
Hann hafði komið til Pakistans í ágúst 2002 og ekki haft neitt fyrir stafni. Þegar félagi hans ákvað að fara til Afganistan fór hann með honum, en varð eftir við landamærin er hópurinn sem hann var með hélt áfram til Kabúl. Þegar Bandaríkjamenn byrjuðu loftárásirnar á Afganistan varð hann hræddur en vegna þess að þær voru svo fjarri ákvað hann að vera kyrr.
En er hann frétti að íbúarnir seldu útlendinga til Bandaríkjamanna forðaði hann sér aftur yfir til Pakistan. En þar fór hann úr öskunni í eldinn. Pakistanarnir tóku hann fastan og seldu hann til lögreglunnar sem seldu hann áfram til Bandaríkjamanna í Afganistan sem ólöglegan stríðsmann. Meðferðin þar var mjög grimmileg, mikið um barsmíðar.
Síðastu dagarnir í fangelsinu í Guantanamo-búðunum var einnig mjög erfiðir, þ.e. þegar Bandaríkjamenn sáu fram á að þeir urðu að framselja hann vegna þrýstings frá sænsku ríkisstjórninni.
Pyntingum beitt
„Pyntingar", segir hann. „Ég var færður milli ólíkra klefa klukkutímum saman, undir stöðugum yfirheyrslum sem stóðu tímum saman. Þeir breyttu kælingunni. Það varð mjög kalt. Ég fékk að sitja hand- og fótjárnaður tímum saman í frosti." Öðru hverju komu yfirheyrslumennirinr inn: „Ætlar þú að játa. Hefurðu skipt um skoðun"? Ghezali segir einnig frá því hvernig ljósin voru látin blikka tímunum saman. Þá settu fangaverðirnir á tónlist með mjög háum styrk, eða eingöngu með langvarandi hávaða.
Blaðamaðurinn, sem tók viðtalið við Ghezali, greinir frá því hve mikið þetta hefur fengið á Ghezali, hve erfitt hann átti með að segja frá erfiðustu pyntingunum, hve niðurbrotinn hann væri á sál og líkama: „Þeir þvinga mig niður. Fæturnar eru hlekkjaðir við auga í gólfinu. Síðan leysa þeir handkeðjurnar, setja hendurnar undir fæturna og hlekkja allt saman svo ég get ekki hreyft mig. Eftir nokkra tíma byrja fæturnar að bólgna upp með sárum verkjum um allan líkamann, verst í bakinu og á fótunum. Keðjurnar skerast inn í fótleggina." Þessar pyntingar stóðu í um tvær vikur. Ummerkin eftir þetta eru þó að mestu horfin. Ghezali er tilfinningalaus að hluta í vinstra fæti, en á góða von um bata.
Þessi frásaga er ekki einstök. Rauði Krossinn hefur orðið vitni að svipuðu í nær öllum búðum Bandaríkjamanna víðsvegar um heiminn. Þá hafa aðrir stríðsfangar, sem látnir hafa verið lausir úr Guantanamo-búðunum, sagt sömu hluti.
Loksins er hann var látinn laus hættu yfirheyrslurnar, sem gátu staðið í 10 tíma, þar sem hann var hlekkjaður fastur á höndum og fótum. Á flugvellinum settu fangaverðirnir fram nýjar kröfur, hótuðu honum að hætta við að láta hann lausan ef hann skrifaði ekki undir skjal um að hann muni ekki hóta USA á nokkurn hátt eða ganga til liðs við Talibana eða al-Qaeda. En hann neitaði fyrst þar sem hann taldi sig þar með viðurkenna að hann hafi tilheyrt slíkum hópi. Eftir þrýsting frá fulltrúum sænskra yfirvalda gerði hann það, með því loforði að slíkt yrði ekki notað gegn honum seinna.
Að lokum tekur hann fram að hann sé á móti hryðjuverkum. Það stríði gegn trú hans og gegn Kóraninum. Nú er Ghezali í felum einhvers staðar í Svíþjóð, m.a. vegna hótana frá ný-nasistum um að myrða hann. Nýlega kom hann þó fram opinberlega og hélt blaðamannafund til að lýsa framferði Bandaríkjamanna gagnvart sér, en fjölmiðlar höfðu meiri áhuga á að spyrja hann um veruna í Afganistan og tengsl hans við Talibana-stjórnina. Yfirheyrslurnar héldu þannig áfram á fundinum!