Fara í efni

AÐILD AÐ ÞROTABÚI

Evrópusambandið er bandalag evrópsks einokunarauðvalds og auðhringa um hagsmuni sína. Þar ræður fjármagnið för, gjarnan í samfloti við iðjuhölda og stórfyrirtæki.

Ein stór blekking ESB-sinna er að sambandið ráði í raun litlu um innri málefni aðildarríkjanna. Önnur stór blekking ESB-sinna er að gera lítið úr lýðræðishalla Evrópusambandins. Það gefur tóninn í öllum meginmálum, nema kannski trúmálum ef einhver telur þau ennþá til meginmála. Þegar það stjórnar ekki með beinum tilskipunum stjórnar það með því að láta ríkin „sjálf" ákveða hlutina. Líkt og þegar ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms tók „sjálf" ákvarðanir um að fara eftir öllum „ráðleggingum" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Eða líkt og þegar skuldari ákveður „sjálfur" að fara eftir „ráðleggingum" handrukkarans sem „forðar honum" þannig frá verri hlutum.

Þriðja blekkingin er að setja samasemmerki milli Evrópusambandsins og Evrópu. Evrópa er landfræðilegt hugtak og ekkert getur breytt því að Ísland er Evrópuríki. Og Noregur líka, og Rússland og Hvítarússland og Albanía og Serbía og Sviss.

Áhyggjur af örlögum útgerðarinnar ef við gengjum í ESB eru gild ástæða til efasemda eða andstöðu. Þær eru samt ekki mín höfuðástæða. Sem pólitískt og efnahagslegt bandalag heimsvaldaauðvaldsins, er Evrópusambandið bakhjarl fyrir auðvald sérhvers aðildarríkis. Þar er auðvaldsskipulagið beinlínis bundið í stjórnarskrá. Það er ekki hægt að byggja upp félagslegt fjármálakerfi eða efnahagskerfi og ekki einu sinni félagslegt velferðarkerfi í landi sem er innan Evrópusambandsins. Auðvaldsskipulagið er reyndar líka bundið í stjórnarskrá Íslands - en henni getum við sjálf breytt, án þess að þurfa fyrst að breyta stjórnskipan heillar heimsálfu með einróma samþykki.

Fjórða blekkingin er að Evrópusambandið sé einhver málstaður vinstrimanna, eitthvert bákn félagslegs réttlætis og regluverks til að hafa hemil á auðvaldinu. Það spillir að vísu fyrir þjóðlegu borgarastéttinni, eins og íslenskum útgerðarmönnum, en styrkir þá alþjóðlegu því meir í sessi. Með tímanum rýrnar því og hverfur þjóðleg borgarastétt í aðildarlöndunum. Hagsmunir þeirra fyrirtækja sem eftir lifa samtvinnast aðildinni. Efnahagslífið grær fast. Þannig að eins og ljósmóðirin var vön að segja þegar konunum gekk illa að fæða, þá er auðveldara í að komast en úr að fara.

Mínir fyrrverandi félagar í VG kalla það alltaf svo að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins". Það er mjög varfærnislega orðað. Óeðlilega varfærnislega. Hagsmunum Íslands - alla vega alþýðu Íslands - er beinlínis ógnað af ESB-aðild. Ef við vildum koma hér á félagslega reknu fjármálakerfi eða öðrum sósíalískum ráðstöfunum, væri ESB-aðild ekki girðing heldur borgarmúr í veginum. EES-aðildin getur verið það líka, en það er þó auðveldara að losna úr henni ef því er að skipta.

Ég skil hins vegar vel að stjórnendur í ýmsum atvinnugreinum, eins og verslun, sumum iðnaði og fjármálabraski (ef brask telst atvinnugrein) sjái hagsmuni í aðild.

Núverandi krísa evrunnar, atvinnuleysið og skuldafjallgarðarnir breyta í sjálfu sér engu um ófýsileika inngöngu. Hún var ófýsileg og er ófýsileg. Bara ennþá meira núna en áður fyrr. Að minnsta kosti fyrir flestallt venjulegt fólk. Það er eitt skýrasta dæmið um tækifærismennsku og reiðarek margra evrópskra vinstriflokka, að átta sig ekki á þessu.

Til allrar hamingju fyrir Ísland, er hér til einn vinstrisinnaður stjórnmálaflokkur sem hefur einarða og samkvæma stefnu um afdráttarlausa og trúverðuga andstöðu gegn ESB. Það er Alþýðufylkingin.