Vopnahjálpin rennur til Her-iðnaðarsamsteypu US
Stjórnarráðið tilkynnti 25. mars að Ísland myndi leggja fram 300 milljónir króna til kaupa á vopnum fyrir stórskotalið Úkraínu og á búnaði fyrir konur í hernum. Og Tékkland „hefur tekið að sér að útvega skotfærin.“ Þetta er nýtt skref í stuðningi Íslands við Úkraínustríðið. Ekki kemur fram hjá Stjórnarráðinu hvaðan vopnin eru keypt. Það hlýtur samt að skipta máli, og því skal um það rætt.
Jens Stoltenberg framkvæmdastjóri NATO flaug til Washington í janúarlok sl. og hélt þar ræðu um mikilvægi hernaðaraðstoðar Vestursins við Úkraínu. Hann talaði við heimamenn um hverjir högnuðust á aðstoðinni:
„Mestu af þessu fé er raunar varið í Bandaríkjunum. Við kaupum bandarísk vopn til að styðja Úkraínu… Svo að NATO er góður díll fyrir Bandaríkin… Það sem þið framleiðið styrkir öryggi okkar. Það sem bandamenn [NATO-ríki] kaupa styrkir bandarískt atvinnulíf.“
Langstærstur hluti vopnasendinganna vestanfrá til Úkraínu er framleiddur í Bandaríkjunum, eins og Stoltenberg gefur í skyn. Vopnaframleiðsla og hernaðariðnaður hafa lengi verið fyrirferðarmikil þar í landi.
Eisenhower um Military-industrial complex
Dwight Eisenhower valdi í kveðjuræðu sinni sem forseti árið 1961 að vara sérstaklega við því hve mikið vald hefði safnast í það sem hann nefndi „Her-iðnaðarsamsteypan“ (Military-industrial complex). Honum fannst sem forseti að hann hefði ekki vald yfir þeim samfélagsgeira.
„Í stjórnarráðum (nefndum) okkar verðum við að vera á verði gagnvart því að her-iðnaðarsamsteypan fái óréttmæt áhrif, hvort sem hún sækist eftir því eða ekki. Möguleikinn á hrapallegum vexti valds á óæskilegum stöðum er fyrir hendi og verður áfram. Við megum aldrei láta þunga slíkrar blöndu ógna frelsi okkar eða lýðræðislegu ferli. Við megum ekki taka neitt sem gefið. Bara árvökul og upplýst þjóð getur þvingað fram rétta tengingu þessa risavaxna hernaðar- og iðnaðarbatterís við friðsamlegar aðferðir og markmið svo að öryggi og frelsi blómstri saman.“
Kennan um efnahagslegu þörfina fyrir stríð
Áhrifamesti hugmyndafræðingur um utanríkismál í Bandaríkjum eftirstríðsáranna var George F. Kennan, alveg sérstaklega í forsetatíð Harry Trumans. Hann var arkítekt svokallaðarar „innilokunarstefnu“ (containment) gagnvart Sovétríkjunum, en það var einmitt sú harða stefna sem Trumanstjórnin fylgdi.
Eftir að Kennan yfirgaf Utanríkisráðuneytið (1950) varð hann „realisti“ í afstöðu til alþjóðamála og stundum gagnrýninn á bandaríska utanríkisstefnu. Eftir lok Kalda stríðsins leist honum bölvanlega á útþenslu NATO til austurs. Í viðtali í New York Times skömmu eftir fyrstu NATO-útþensluna eftir Kalda stríðið, 1997, sagði Kennan m.a: „Ég held að þetta sé upphaf að nýju köldu stríði… Það var engin ástæða fyrir þessu. Enginn ógnaði neinum öðrum…“
Það var samt ástæða fyrir vígvæðingunni, og það sá reyndar George F. Kennan mætavel. Ástæðan var ekki árásarhneigð Rússa. Heldur lá hún innan Bandaríkjanna sjálfra. Það var efnahagsleg þörf – og vald Her-iðnaðarsamsteypunnar áðurnefndrar. Tíu árum fyrr, meðan Sovétríkin enn voru við lýði, í viðtali árið 1987, færði Kennan rök fyrir því að efnahagskerfið í Bandaríkjunum væri allt of háð því að ríkið ætti sér óvini:
„Ef Sovétríkin myndu á morgun sökkva í saltan mar þá yrði bandaríska her-iðanaðarsamsteypan að halda áfram efnislega óbreytt þar til finna mætti einhvern annan óvin. Allt annað yrði óásættanlegt sjokk fyrir bandarískan efnahag“ (N. Cousins, The Pathology of Power, New York: Norton, 1987, iv).
Framvindan varð mjög eftir því sem George Kennan þarna talaði um. Bandaríkin þurftu nauðsynlega – og náðu að „finna upp“ – sína óvini. Fyrst voru það einkum íslamskir hryðjuverkamenn, gjarnan „made by USA“ á einhvern hátt, þannig að við tók „stríð gegn hryðjuverkum“ í um áratug, síðan voru það „harðstjórarnir“ og síðast „alræðisríkin“ sem reyndust vera þau ríki sem risið hafa upp sem keppinautar Bandaríkjanna, Kína og Rússland öðrum fremur.
Það koma vissulega fram „strategistar“ sem leggja fram línu um sigurstranglega stefnu Bandaríkjanna í valdatafli heimsveldanna. George Kennan var einn slíkur á sínum tíma eins og fram hefur komið, seinna komu menn eins og Henry Kissinger, Zbigniew Brzezinzki, Paul Wolfowitz, George Friedman o.fl. Strategistar þessir – og nokkrar þungavigtarhugveitur (think-tanks) – hafa oft haft mikil áhrif á bandarísk stjórnvöld og bandaríska utanríkisstefnu, satt er það.
En auðvaldið sjálft hugsar fyrst og fremst með hjartanu. Og hjarta þess er gróðinn. Voldugasta stórauðvald Bandaríkjanna, Her-iðnaðarsamsteypan, veit hvað best nærir hjartað: stríð án enda („never ending wars“). Frá sjónarhóli þess er ekki einu sinni mikilvægasta markmiðið að vinna stríðin, enda gengur það mjög misvel. Nei, það eru einfaldlega stríðin sem eru meginmarkmiðið í sjálfu sér.
Proletären heitir málgagn kommúnista í Svíþjóð. Það birti 18. mars grein um vestrænu vopnaaðstoðina til Úkraínu, með áherslu á framleiðslu- og söluhliðina. Höfundur er einn af ritstjórum blaðins, Alfredo Teran. Greinin fylgir hér þýdd.
Proletären: 90% Úkraínu-aðstoðarinnar fer til bandaríska vopnaiðnaðarins
„Það hefur komið æ betur í ljós að hernaðaraðstoðin til Úkraínu er í reynd iðnaðarstuðningur við bandarísku Her-iðnaðarsamsteypuna. Nú, þegar nýr stuðningspakki til Úkraínu er í limbói milli bandarísku þingdeildanna, fullvissar Joe Biden fólk um að einnig meirihluti þessa nýja stuðnings muni renna til Bandaríkjanna.
Það hefur algjörlega rignt peningum yfir bandarísku Hernaðar-iðnaðar-samsteypuna frá innrás Rússa í Úkraínu. Ein rannsókn sýnir að hernaðaraðstoðin í reynd jafngildir innlendum iðnaðarstuðningi og að u.þ.b. 90% hernaðarlega stuðningspakkans fer aldrei út fyrir landamæri aldrei Bandaríkjanna.
Úkraínski herinn þarf stöðugt innflæði vopna, skotfæra og stríðsfarartækja til að halda stríðinu áfram. Án vopnaaðstoðarinnar myndu landvarnir Úkraínu brotna saman á fáum vikum.
En stuðningurinn er ekki óeigingjarn, heldur felur í sér möguleika Bandaríkjanna að fjármagna vígbúnað eigin vopnaiðnaðar sem nú um stundir veitir vinnu 2,1 milljón Bandaríkjamanna með undirverktökum – u.þ.b. 10% vinnuaflsins í bandarískum verksmiðjuiðnaði.
Með samtals 113 milljarða dollara til Úkraínu eru Bandaríkin stærsti einstaki stuðningsaðilinn – og vel yfir helmingur aðstoðarinnar er hernaðarlegur. Nýr stuðningspakki hefur verið barinn í gegnum Öldungadeildina og reiknað með að hann verði brátt tekinn upp í Fulltrúadeildinni þar sem repúblíkanar hafa meirihluta.
Nokkrir repúbíkanar – þ.á.m. Donald Trump – hafa verið gagnrýnir á rausnarleg framlög Joe Bidens til Úkraínu, en stuðningspakkinn getur gengið í gegn – með þeim breytingum að framlögin takmarkist við hið hernaðarlega og að mannúðaraðstoðin verði lán með frystar rússneskar eignir sem tryggingu. Sjá hér.
„Þessi lög beina vopnabúnaði til Úkraínu en þau verja peningunum hér í Bandaríkjunum, í borgum eins og Arizona, þar sem Patríot-flaugarnar eru smíðaðar, og Alabama, þar sem Javilin-flaugarnar eru smíðaðar, og Pennsylvania, Ohio och Texas, þar sem stórskotasprengjur eru framleiddar“, sagði Joe Biden eftir að síðasti stuðningspakkinn gekk í gegn í Öldungadeildinni.
Stuðningspakkinn sá, sem festist í Fulltrúadeildinni, er alls upp á 95 milljónir dollara þar sem hluti rennur til Ísraels. En meirihlutinn, 60 milljarðar, eru eyrnamerktir Úkraínu. Samkvæmt Bidenstjórninni skal a.m.k. 38 milljarðar af Úkraínufénu renna til bandarískra verksmjðja sem framleiða skotflaugar, skotfæri og annan herbúnað.
Vopnastuðningspakkarnir hafa vakið hálfsofandi borgir til lífsins. Eitt dæmið er loftvarnarflaugin Stinger. Fyrir stríðið höfðu Bandaríkin ekki framleitt Stingerflaugar frá 2005 – fátæku löndin sem Bandaríkin börðust við áttu varla flugvélar. Nú hafa Bandaríkin sent þúsundir Stingerflauga til Úkraínu, og til að endurfylla lagera hefur Pentagon lagt inn nýja pöntun upp á 625 milljóin dollara.
Til að koma framleiðslunni af stað hefur Rayaton neyðst til að kalla eftirlaunaþega aftur til starfa í verksmiðjunum í Tucson, Arizona.
Meðal annars í Mezquite í Texas byggir General Dynamics nýja verksmiðju sem mun ráða hundruðir verkafólks til að svara þörfinni fyrir 155 mm sprengjuvörpur. Reiknað er með að Úkraína noti 6000 til 8000 þess háttar sprengikúlur á dag – og Bandaríkin hafa þegar afhent eina milljón en lagerarnir eru óðum að tæmast.
Fyrir stríðið gátu Bandaríkin bara framleitt ca. 15000 155-millimetra sprengivörpur á mánuði. Það hefur leitt af sér stórfjárveitingu frá Pentagon sem hefur lagt 1,5 milljarða dollara í að auka framleiðsluna um 500%, í um 100.000 stórskotasprengjur á mánuði.
Í krafti Úkraínuaðstoðarinnar hefur Hernaðar-iðnaðar-samsteypan fjárfest tugmilljarða dollara í yfir hundrað nýjum framleiðslumannvirkjum í næstum öllum ríkjum Bandaríkjanna.
Það er ekki bara bandaríska Úkraínuaðstoðin sem rennur til Bandaraíkjanna. Mörg NATO-lönd hafa afhent eldri herbúnað sinn til Úkraínu og skipta því svo út fyrir nýframleiddan bandarískan herbúnað.
Til dæmis hefur Pólland sent 250 eldri sovéska og þýska skriðdreka til Úkraínu, og síðan gert samning um kaup á hundruðum Ohio-framleiddra M1A2 Abrams skriðdreka að virði 6,15 milljarðir dollara. Pólland sendi líka gamlar sovéskar herþyrlur til Úkraínu til að kaupa síðan 96 nýjar Apacheþyrlur úr verksmiðju Boeing í Arizona fyrir 12 milljarða dollara.“
Og vopnaiðnaður Svía blómstrar líka
„Aðstoð Svíþjóðar við Úkraínu, sem hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu, er meiri en Bandaríkjanna. Hernaðaraðstoð Svíþjóðar er u.þ.b. 30 milljarða [sænskra] króna virði og hefur líka gagnast vopnaiðnaði Svíþjóðar, jafnvel þótt stórir hlutar af honum séu nú komnir í eigu bandarísk-bresku BAE Systems. Vopnaiðaðurinn í Svíþjóð veitir vinnu rúmlega 30.000 manns með mörgþúsund nýráðnum bara síðustu árin.
Svíþjóð hefur m.a. veitt [Úkraínu] 50 stykki af „Skriðdreki 90“ sem var framleiddur af BAE Systems Hägglunds i Örnsköldsvik – og sem Herinn bætir upp með nýjum. Það hefur leitt til þess að verksmiðjan í Örnsköldsvik hefur eflst úr 800 starfsmönnum upp í 2000 á tveimur árum.
Svíþjóð hefur líka sent átta Archersystem stórskotavörpur og pantað 48 nýjar frá BAE Systems Bofors í Karlskoga. Að auki hefur Svíþjóð sent þúsundir af Saab sprengjukúlubyssum og brynvarnarróbótum til Úkraínu.
Sænski herinn hefur lagt fram pantanir upp á marga milljarða króna sem hefur leitt til þess að Saab hefur tvöfaldað framleiðsluafköstin, nýráðið nærri 2500 manns árið 2023 lagt til hliðar milljarð til að byggja upp framleiðslueiningarnar í Karlskoga.
Meðan hermennirnir deyja við víglínuna í Úkraínu brytja vopnaframleiðendur gullið með sveðjum.“
Grein Þórarins Hjartarsonar birtist einnig á neistar.is