Auðvitað á að taka skoðanakönnunum með varúð. Líka könnunum í Norðvestur-kjördæmi. Það hlýtur þó að vera saga til næsta bæjar þegar skoðanakannanir sýna fylgi stjórnmálaflokks vaxa um helming. Það hefur Vinstrihreyfingin grænt framboð gert frá síðustu alþingiskosningum ef marka má nýjustu skoðanakönnun Gallup. Hverju er þetta að þakka? Í Skagafirði hafa samherjar í VG staðið sig vel við stjórnvölinn í sveitarstjórnarmálum og í landsmálum hefur flokkurinn einnig staðið sig afar vel undir gunnfána Jóns Bjarnasonar alþingismanns, sem hefur verið óþreytandi í ferðum og erindrekstri um kjördæmið og stöðugt að gæta að hagsmunum þess á Alþingi. Enginn hefur verið ötulli og eindregnari en Jón Bjarnason í baráttunni til verndar jökulsám Skagafjarðar. Hefur mjög mætt á honum í því efni upp á síðkastið og flutti hann fimm tíma magnaða og hugsjónaþrungna ræðu um málefnið á þingi fyrir fáeinum dögum. Henni gleymir hvorki ég né Valgerður Sverrisdóttir. Á vefriti Skagfirðinga segir frá þessum framgangi VG í norðvestrinu á eftirfarandi hátt: http://www.skagafjordur.com/index.php?pid=511&cid=5517 ,
|
|
Jón Bjarnason er nú eini þingmaður Vg í Norðvesturkjördæmi. Fær hann félagsskap í næstu kosningum? |
Fréttir | 07. febrúar 2006 - kl. 10:35 Fylgi Vinstri grænna eykst um 100% í Norðvesturkjördæmi
Í nýjasta Þjóðarpúlsi Gallup um fylgi stjórnmálaflokkanna á landsvísu kemur fram að Vinstri grænir hafa bætt við sig mestu fylgi í Norðvesturkjördæmi, fá 20% í könnuninni en fengu 10% í síðustu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur einnig unnið á samkvæmt könnuninni, fengi 34% atkvæða ef kosið yrði nú en var með 29%.
Framsóknarflokkurinn hefur misst nokkuð fylgi, fer úr 22% í 19%, en staða flokksins er engu að síður sterkust í Norðvesturkjördæmi og má benda á að samkvæmt könnuninni er hrun í Norðausturkjördæmi Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra þar sem flokkurinn mælist nú með 15% fylgi en hafði 34% í kosningunum.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur dalað örlítið, er 23%. Hjá Frjálslyndum hefur fylgið í Norðvesturkjördæmi hrunið úr 14% í 5%, samkvæmt könnun Gallups.
|
|