2000 ÁRA HEILRÆÐI BESTI VEGVÍSIRINN
Þetta heilræði er svohljóðandi: „Það sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra."
Ef við erum í vafa um hvaða stefnu við viljum fylgja í málefnum sem snerta annað fólk, þá nýtist heilræðið prýðilega. Hvað myndi ég vilja að gert yrði ef ég sjálfur eða sjálf ætti í hlut?
Þessa formúlu má til dæmis nota á úrræði fyrir aldraða sem þurfa á stuðningi að halda. Þá gerðu stefnumótendur rétt í að spyrja sjálfa sig, hvaða úrræði þeir kysu sjálfir.
Fljótlega kæmi í ljós að svörin væru engan veginn á einn veg. Einstaklingur sem býr afskekkt eða er án fjölskyldu, væri líklegri að vilja komast á dvalarheimili fyrir aldraða en sá sem býr í þéttbýli, er í nánum daglegum tengslum við fjölskyldu sína og nærri þjónustumiðstöðvum. Þá má ekki gleyma því að við erum ólík að því leyti að sum okkar þrá stöðugt samneyti við sem allra flest fólk en öðrum líður betur með sjálfum sér eða fáu fólki.
Og þar sem svörin eru mismundi ætti það einnig að gilda um lausnirnar, samkvæmt formúlunni góðu. Það þýðir bara eitt ef vel á að vera og það er valfrelsi. Fólk þarf að geta valið hvað því hentar best.
En hver er svo veruleikinn? Hann er þessi: Skorið er niður við hefðbundnar öldrunarstofnanir og hlutfallslega fækkað rýmum þar. Þannig að möguleikar fólks til að velja slík úrræði verða stöðugt takmarkaðri, enda nýja stefnan sú að stuðla að þvi að sem flestir verði á heimilum sínum sem allra lengst.
Forsenda þess að sú stefna gangi upp er aftur sú, að því aldraða fólki, sem vill vera sem lengst heima en er hjálparþurfi, sé veittur nauðsynlegur stuðningur.
Það er hins vegar ekki að gerast. Eftir því sem ég kemst næst þá er staðan í þessu efni síður en svo að batna, hún er að versna. Álagið á það fólk sem sinnir þessum umönnunarstörfum er vaxandi, því fjölgun starfsfólks er í engu samræmi við fjölgun skjólstæðinga. Þetta bitnar á starfsfólkinu og að sjálfsögðu einnig á þeim sem þjónustunnar eiga að njóta.
Fyrir ekki svo ýkja löngu var ég ráðstefnustjóri á málþingi sem Sjúkraliðafélag Íslands stóð fyrir í samvinnu við evrópsk systursamtök. Flestum fyrirlesurum varð tíðrætt um mikilvægi opinberrar stuðningsþjónustu á þessu sviði og höfðu sumir orð á að frelsa þyrfti aðstandendur undan þeim byrðum sem foreldrar og ættingjar gætu orðið þeim. Þá kvað skyndilega við allt annan tón úr ræðupúltinu. Vitnað var í aldraða konu sem snúið hafði dæminu algerlega við: „Í guðanna bænum frelsið mig frá börnum mínum. Ég hef engan áhuga á nánu samneyti við þau, hvað þá að þau fari að borða með mér daglega, þvo af mér og jafnvel mér sjálfri, nei takk". Salinn setti hljóðan en öllum fannst þetta vera viðhorf sem vert væri að íhuga enda snerist það um grundvallaratriði, nefnilega frelsi einstaklingsins.
Og nú þurfum við að spyrja: Skyldi sú aðstoð sem veitt er þurfandi öldruðu fólki í heimahúsum á Íslandi, vera til þess fallin að gera það að frjálsum einstaklingum? Aldrað fólk í Reykjavík sem ekki ræður við að baða sig sjálft getur fengið aðstoð við böðun einu sinni í viku - að hámarki. Fyrir manneskju sem er byrjuð að missa stjórn á eigin líkama er þetta ekki nóg, það segir sig sjálft. Það á reyndar við um okkur öll, óháð aldri okkar, að við viljum geta þrifið okkur á degi hverjum.
En er þá ekki komið að því að beita formúlunni góðu, „það sem þér viljið að aðrir gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra"?