Fara í efni

30 ÞÚSUND MÓTMÆLA Í STRASSBOURG

Í dag komu 30 þúsund manns saman  til útifundar í Strassbourg í Frakkalndi til að mótmæla þjónustutilskipun Evrópusambandsins. Tilskipunin kom til umræðu á Evrópuþinginu í dag en atkvæðagreiðsla um hana fer fram á fimmtudag. Tekist hefur samkomulag milli hægri flokkanna og sósíaldemokratísku flokkanna á Evrópuþinginu um tilteknar breytingar á tilskipuninni. Það er hins vegar bæði svo að verkalýðshreyfingin hefur efasemdir um að samkomulagið haldi þegar til kastanna kemur í atkvæðagreiðslu og síðan er hitt að almennt þykir samkomulagið ekki ná nærri nógu langt. Aðeins íhaldssömustu öflin innan verkalýðshreyfingarinnar telja nógu langt gengið en meginþorrinn telur það fjarri lagi, einkum varðandi þá þætti sem lúta að almannaþjónustunni. Almennt er litið á þjónustutilskipun ESB sem tilræði við samfélag sem byggir á samstöðu og samhjálp þótt upphaflega hafi margir bundið vonir við svokallað Lissabon ferli sem tilskipunin er sprottinn upp úr.

Árið 2000 setti Evrópusambandið sér markmið, á fundi sem haldin var í Lissabon í Portúgal, að róið skyldi að því öllum árum að gera Evrópu að kraftmestu markaðseiningu í heiminum á komandi áratug. Því var heitið að þessi framfarasókn yrði byggð á jafnvægi á milli félagslegra þátta, markaðssjónarmiða og sjálfbærrar þróunar. Þegar á hólminn kom áttu markaðsöflin mestan hljómgrunn í valdastofnunum Evrópusambandsins og er óhætt að segja að á meðal margra einlægra Evrópusinna innan verkalýðshreyfingarinnar í álfunni gæti bæði reiði og mikilla vonbrigða.

Á vefsíðu BSRB (www.bsrb.is ) er nú sem endranær ítarleg frásögn af gangi mála. Fjallað er um stöðu þjónustutilskipunarinnar í sögulegu samhengi og hver staðan er nú, auk þess sem vísað er inn á vefsíður evrópskrar vekralýðshreyfingar:
http://bsrb.is/news.asp?id=682&news_id=1029&type=one