42. ÞING BSRB SETT
Ræða við setningu þings BSRB 21.10.09.
Í setningarræðu formanns BSRB er hefð að tala um undangengið kjörtímabil og það sem framundan er. Ég mun vissulega víkja að framtíðinni en einkum mun ég dvelja við það sem liðið er og láta nýjum formanni það eftir að horfa fram á veginn því einsog fram kom síðastliðið vor hef ég ákveðið að bjóða mig ekki fram að nýju til formennsku í BSRB. Það er ekki einvörðungu undangengið kjörtímabil sem er undir í mínum ávarpsorðum nú í upphafi 42. þings BSRB heldur það tímabil í heild sinni sem ég hef verið formaður bandalagsins. Það er jafnan hollt að horfa til baka, því þannig fáum við hina sögulegu sýn á tilveruna. Hún dýpkar skilning okkar á samtímanum og gerir okkur kleift að vefa þræði sögunnar inn í framtíðina af meiri skilningi en ella.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar þá tvo áratugi sem liðnir eru frá því að ég var kjörinn formaður BSRB í október árið 1988, fyrir rúmum tveimur áratugum, tuttugu og einu ári nánast upp á dag. Það var í allt öðru þjóðfélagi en við búum við í dag. Þá efndu menn til þjóðarsáttar um að kaupa íslenskt, nú eru menn kærðir fyrir að hvetja til að gera einmitt það.
BSRB byggði á öðrum hefðum en við gerum í dag. Á þessum tíma var flokkspólitíkin að renna af samtökunum - ég held að ég, óflokksbundinn maðurinn, hafi komið inn sem varamaður í stjórn BSRB á forsendum Alþýðubandalagsins árið 1981 - það sem menn vissu ekki þá var að ekki kaus ég alltaf þann flokk á þessum árum, yfirleitt Fylkinguna stundum Kvennaframboðið - það var þegar þar á bæ var talað um að fella valdastóla karlanna, skapa þar með ný og lýðræðislegri gildi sem gagnast mættu öllum, körlum jafnt sem konum. Þessi róttæka hugsun vék síðar fyrir íhaldssamari nálgun kvótakerfisins - þar sem höfuðkapp var lagt á jafna skiptingu ofan á valdastólunum sem sífellt minna var lagt upp úr að fella.
Í BSRB voru nýjar félagspólitískar áherslur að ryðja sér til rúms á síðari hluta níunda áratugarins, þar á meðal jafnréttisáherslur. Félagsfólk, einkum konurnar, vildu samsvörun í samsetningu samtakanna annars vegar og fulltrúum á stjórnendastólum hins vegar. Þessi sjónarmið, svo og að gætt væri jafnvægis á milli höfuðborgarsvæðis og dreifbýlis, á milli fagstéttarfélaga og svokallaðra blandaðra félaga, voru farin að vega meira á þessum tíma en flokkspólitískur litur á fólki.
Ég held að ég geti fullyrt að á ferli mínum sem formaður BSRB hafi stjórn bandalagsins aldrei hugsað eftir flokkspólitískum línum. ALDREI. Aldrei var samþykkt ein einasta ályktun í stjórninni - aldrei á þessum tveimur áratugum - sem einn einasti stjórnarmaður var andvígur. Ef svo var þá var ályktuninni breytt þangað til allir gátu sætt sig við hana eða hún lögð til hliðar.
Sjaldan var þó ályktun lögð til hliðar því við héldum yfirleitt ekki á nein óvissumið. Þetta er umhugsunarvert í ljósi þess að margoft hafa birst yfirlýsingar frá BSRB sem ýmsum hafa þótt nokkuð afdráttarlausar. Hvað segir þetta okkur? Í fyrsta lagi segir þetta okkur að BSRB hefur forðast að taka afstöðu í málum sem mjög deildar meiningar eru um á meðal félagsmanna og stjórnarmanna. Þannig reyndi BSRB ekki að taka afstöðu til stóriðjustefnunnar. Kárahnjúkavirkjun var aldrei á dagskrá hjá stjórn BSRB eða á þingum og ráðstefnum bandalagsins. Og þegar aðild Íslands að Evrópusambandinu bar á góma þá var áherslan á upplýsingar og lýðræðislega aðkomu að málinu. Öðru máli gegndi hvað menn sögðu sem einstaklingar. En í nafni BSRB var áherslan á upplýsingu og lýðræði. Þegar þáverandi ríkisstjórn hundsaði kröfur tugþúsunda Íslendinga um þjóðaratkvæðagreiðslu um inngöngu Íslands í hið Evrópska Efnahagssvæði árið1993 og leyfði sér að skýra afstöðu sína með því að almenningur væri ekki nógu upplýstur um málið til að taka um það ákvörðun þá réðst BSRB í auglýsingaherferð þar sem krafist var þjóðaratkvæðagreiðslu. Auglýsingarnar byggðu á gömlum málsháttum sem áttu að endurspegla visku þjóðarsálarinnar og voru áminning hrokafullum stjórnmálamönnum að hugleiða í hverra umboði þeir störfuðu.
BSRB átti frumkvæði að auglýsingaherferðum verkalýðshreyfingarinnar. Sú fyrsta endaði með hvelli en í aðdraganda verkfalls BSRB haustið 1984 birtust skjáauglýsingar í sjónvarpi með myndum af félagsmönnum úr ýmsum starfsstéttum þar sem greint var frá launum þeirra. Þetta þoldi þáverandi útvarpsráð ekki, bannaði auglýsingarnar og kynnti þar með undir komandi átökum. Um og upp úr 1990 minntu samtökin iðulega á áherslur sínar í hressilegum sjónvarpsauglýsingum. Hér hvíldi þunginn í boðskapnum yfirleitt á mikilvægi almannaþjónustunnar fyrir samfélagið, og var heilbrigðiskerfið, lífæð velferðarkerfisins oftar en ekki til umfjöllunar. Velferðina skilgreindi BSRB vítt og horfði til grunnréttinda á borð við eignarhald og aðgengi að vatni að ógleymdum auðlindunum. Engin samtök hafa komist með tærnar þar sem BSRB hefur haft hælana í að örva til umræðu um vatnið, raforkuna, heilbrigðisþjónustuna, einkavæðinguna, velferðina, jöfnuðinn og jafnréttið. Við sendum fólk yfir þveran hnöttinn, alla leið til Nýja Sjálands en líka til grannlanda okkar að fræðast um afleiðingar einkavæðingarfársins og fluttum inn fyrirlesara, fræðimenn og verkalýðsfrömuði til að miðla af reynslu sinni og efna til umræðu. Með þessum hætti hefur BSRB haft afgerandi áhrif í þjóðfélagsumræðu undangenginna áratuga.
Þegar ég var kjörinn formaður BSRB árið 1988 hefði þótt fráleitt að formaður bandalagsins settist á þing, jafnvel enn fráleitara en á nágrannabænum, ASÍ. Þar var ennþá sterkari hefð en hjá okkur fyrir hinni pólitísku tengingu. Formenn BSRB höfðu vissulega verið flokkspólitískir. Ólafur Björnsson sat um langt skeið á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn þó aldrei samhliða formennsku í BSRB, Sigurður Ingimundarson fyrir Alþýðuflokkinn og forveri minn Kristján Thorlacius var um skeið varaþingmaður Framsóknarflokksins. Það var reyndar orðið langt um liðið og lagði Kristján jafnan mikið upp úr því sín síðustu ár á löngum formannsferli að hann væri ekki flokkspólitískur í starfi fyrir BSRB- sem var rétt. Það á reyndar að mínu mati við um alla formenn BSRB sem tengdust stjórnmálaflokkum. En tengslin voru þarna og skiptu iðulega máli þegar menn voru kosnir til áhrifa innan bandalagsins. Árið 1988 var flokkspólitík hins vegar ekki lengur á dagskrá hjá BSRB sem áður segir. Þó voru þess þá þegar teikn á lofti um að við værum að færa okkur inn í nýja og pólitískari tíma.
Nokkur orð um þetta. Tuttugasta öldin er að mínum dómi merkilegasta tímaskeið mannkynssögunnar. Þetta var öldin sem velferðarkerfin voru byggð upp. Þetta var öldin sem krafðist mannréttinda fyrir alla, öldin sem lagði til atlögu við stéttaskiptingu og misrétti fyrri tíðar. Þetta var öld byltinga í nafni jafnaðar og jafnréttis, öldin sem jafnvel bandarískur forseti - fremstur talsmaður í heimi fjármagns og auðvalds, jafnvel hann sá sig knúinn til að heita þjóð sinni að nú skyldi gefið upp á nýtt. Út á það gekk New Deal Roosevelts Bandaríkjaforseta á fjórða áratugnum, sama áratug og Sosialreformen varð að veruleika á Norðurlöndum og stjórn hinna Vinnandi stétta á Íslandi lagði grunninn að almannatryggingakerfi fyrir alla. Þar með var rekið smiðshöggið á það ætlunarverk verkalýðshreyfingar og félagslegra afla að færa réttindi sem áður höfðu verið vinnumarkaðstengd - einskorðuð við þá sem voru á vinnumarkaði - inn í almannakerfi þar sem allir fengju notið réttindanna. Frá vöggu til grafar, From the cradle to the grave - sagði breski Verkamannaflokkurinn stoltur á eftirstríðsárunum, með fyrirheitum um að öllum skyldi tryggð velferð, allt frá því við kæmum í heiminn og þar til við yfirgæfum hann. Og til varð heilbrigðisþjónusta, sem gerði ekki greinarmun á ríkum og snauðum. National Health Service kölluðu Bretar heilbrigðiskerfið sem þeir skópu með löggjöf árið 1948.
Það ár er fæðingarárið mitt. Mín kynslóð þekkir ekki annað en þá hugsun að allir eigi að hafa sama rétt þegar heilsan brestur eða eitthvað fer verulega úrskeiðis í lífinu. Allir skyldu ganga inn á Landspítalann um aðaldyrnar og undir engum kringumstæðum átti efnahagur að ráða hverjir fengju þar rúm sólarmegin.
Uppgötvun 20. aldarinnar var máttur samvinnunnar. Þær framfarir sem urðu í efnahagslífi, menningu og listum hefðu aldrei orðið ef hver og einn hefði paufast í sínu horni. Þá skildist mönnum að með því að virkja kraftinn í einstaklingnum, öllum einstaklingum, öllum einstaklingunum saman, í samvinnu og sameiningu, að þannig mætti leysa úr læðingi margfalt meira afl en við byggjum yfir hvert og eitt. Og það var þetta afl, þessi kraftur, sem fleytti okkur inn í mesta framfaraskeið mannkynssögunnar.
Það merkilega sem gerðist þegar leið á hina tuttugustu öld var að til varð sameiginlegur skilningur á mikilvægi samstöðunnar, hins félagslega átaks: Að saman ættum við að vinna að smíði velferðarkerfis. Og þessu tengd var vitund um að jöfnuður og félagslegt réttlæti yrði að fylgja með því aðeins með því að koma okkur öllum á sama bátinn - gætum við saman lagst á árarnar og náð árangri.
Þetta kostaði vissulega baráttu - stundum erfiða verkfallsbaráttu - en hún skilaði þessum sameiginlega skilningi þverpólitískt á stjórnmálaflokka.
Verkalýðshreyfingunni tókst að skipuleggja samtakamátt almennings þannig að framhjá honum varð ekki gengið. Og á endanum var ekki um það deilt hvar landamærin ættu að liggja á milli velferðarsamfélagsins annars vegar og markaðarins hins vegar.
Undir lok níunda áratugarins fóru að koma brestir í þessa sameiginlegu sýn. Á tíunda áratugnum hófust að nýju harðvítug átök um sjálfan grundvöll verkalýðsbaráttunnar - markaðsöflin vildu þröngva sér leið inn eftir spítalaganginum, inn í skólana, tóku að ásælast raforkuna og vatnið, véfengdu jafnvel áunninn rétt verkalýðshreyfingarinnar, lagagrundvöll hennar og réttindakerfi, lífeyrisréttinn og verkfallsréttinn. Alla þessa þætti var nú tekist á um á löggjafarsamkundum. Því um grundvallarregluverkið sem sátt hafði verið um alla miðja 20. öldina ríkti nú að nýju ófriður.
Á slíkum tímum hlutu menn að nýju að beina sjónum sínum að löggjafarsamkundunni, Alþingi. Þess vegna fékk ég stuðning BSRB - félaga úr öllum stjórnmálaflokkum að stíga þangað inn og taka þátt í slagnum. Það sem hafði verið óhugsandi á 9. áratugnum þótti nú sjálfsagður hlutur. Fyrir þetta var ég stundum gagnrýndur á þingi og utan samtakanna en ekki varð ég fyrir slíkri gagnrýni innan BSRB að heitið geti. Þar á bæ vissu menn að pólitík er eitt, flokkspólitík er annað. Og við skulum ekki gleyma því að allar hörðustu ályktanir BSRB gegn einkavæðingu og markaðshyggju voru sem áður segir samþykktar af félögum úr öllu hina flokkspólitíska litrófi. Hægri sinnaðir menn í BSRB hafa ekki verið síðri talsmenn öflugrar samfélagsþjónustu en vinstri menn. Það er staðreynd.
En það er ekki bara þjóðfélagið sem hefur tekið breytingum - líka BSRB. Fyrstu samningarnir sem ég kom að - samningarnir vorið 1989 og þjóðarsáttin svokallaða 1990 segja sína sögu um þær breytingar sem urðu á BSRB á þeim tíma og skýra afstöðu samtakanna nú að verulegu leyti. Þessa sögu rakti ég í erindi sem ég flutti haustið 2005 á ráðstefnu forstöðumanna ríkisstofnana. Þar kom fram það viðhorf mitt að almennt hefðu sögurýnendur ekki skilið mikilvægi aðkomu BSRB að Þjóðarsáttinni árið 1990. Þeir hafa margir hverjir ekki gert sér grein fyrir því að Þjóðarsáttin hefði aldrei orðið að veruleika án BSRB.
Í framangreindu erindi rakti ég hvernig Alþýðusambandið hefði allan níunda áratuginn reynt að ná samningum á grundvelli þess að hemja verðlag og ná því niður á meðan opinberir starfsmenn hefðu lagt höfuðáherslu á kröfur um kauphækkanir. Í kjarasamningunum vorið 1989 vendir BSRB hins vegar sínu kvæði í kross, leggur áherslu á jafnlaunasamninga einsog oft áður, með krónutöluhækkunum, en tekur nú jafnframt að horfa mjög stíft á verðlagið. Þessi skammtímasamningur sem gerður var í apríl og gilti fram á haustið var með uppsagnarákvæði tengt verðlagi á matvöru. Um sumarið brustu þessi bönd og minnast eflaust einhverjir geysilega fjölmenns útifundar verkalýðshreyfingarinnar í Reykjavík snemmsumars 1989 þar sem verðhækkunum á matvöru var mótmælt og krafist aðgerða. Þessu var fylgt eftir með margvíslegum þrýstiaðgerðum af hálfu BSRB og ASÍ. Var í þessu sambandi vísað í samningsforsendur BSRB sem voru enn strangari en verðlagsforsendur ASÍ sem gengið hafði frá skammtímasamningi í maíbyrjun. Ríkisstjórnin svaraði mótmælunum og brostnum samningsforsendum með niðurfærslu á matvöruverði.
BSRB og ASÍ voru þarna komin í betra kallfæri en í langan tíma þótt segja megi að samningarnir 1986 hafi að nokkru leyti verið á sambærilegum forsendum. Nú voru það útgjöld heimilanna sem einblínt var á fremur en innkoman í launaumslagið. Á þessum tíma var samdráttur í efnahagslífinu, samhliða óðaverðbólgu, um 30% á árinu 1989 og sú stemning ríkjandi að allir þyrftu að leggjast á árarnar til að ná verðlagi niður.
Á þessum tíma urðu erfið - en sem betur fer aðeins tímabundin - vinslit með BSRB og samtökum háskólamanna, BHM - en síðarnefndu samtökin keyrðu á kröfu um launakerfi sem byggði á þremur þáttum, sem áttu að fá sérstakt vægi: Menntun, stjórnunarlegri ábyrgð og fjármálaábyrgð. Ríkið og BHM gerðu síðan með sér samning haustið 1989 sem byggði á því að háskólamenn skyldu fá allar þær hækkanir sem BSRB kæmi til með að semja um næsta hálfa áratuginn og launakerfistilfærslur á framangreindum forsendum í ofanálag. Þessum samningum var síðar rift með miklum eftirköstum en það verður að segjast einsog er að þeir gengu þvert á stefnu BSRB og þóttu afar ósanngjarnir innan okkar raða.
Ég nefni þetta allt vegna þess að í þessari fortíð urðu til þræðir sem rekja má inn í samtímann. BSRB tók nú að fóta sig í nýju hlutverki. Í fyrsta lagi má tala um aukna áherslu á útgjaldapólitík. Hugsunin fór nú að ganga út á að aðildarfélögin semdu um það sem færi inn í launaumslagið, áherslur bandalagsins kæmu hins vegar til með að lúta fremur að því sem út úr umslaginu væri tekið: sköttum, húsnæðiskostnaði, vaxta- og öðrum fjármagnskostnaði, tilkostnaði í heilbrigðiskerfinu, leikskólagjöldum og þar fram eftir götunum.
Á þessum tíma hófst einnig afar farsælt samstarf við Bændasamtökin með áherslu á hagstætt verðlag nauðþurfta, mikilvægi innlendrar hágæðamatvöru, matvælaöryggis og einnig vilja til að efla byggðir landsins. BSRB hefur litið á bændur landsins sem lífakkeri þjóðarinnar, nokkuð sem mun koma í ljós að byggir á raunsærri framtíðarsýn.
Jafnvægið á milli útgjalda heimilanna annars vegar og innkomunnar hins vegar eigum við enn eftir að fínstilla. En ég tel að þróunin eigi að verða sú, að á vettvangi heildarsamtaka verði samið um almennar launabreytingar með tilliti til verðlagsþróunar og aðstæðna í efnahagslífinu almennt og auk þess litið til útgjalda heimilanna og almennra velferðarmála en á vegum einstakra stéttarfélaga verði hins vegar samið við stofnanir og samningar lagaðir að sértækum aðstæðum. Þessi aðferðafræði hefur verið að þróast en verkaskiptingin á enn eftir að finna jafnvægi, bæði af okkar hálfu og einnig af hálfu viðsemjenda okkar.
Ég tel það vera mjög mikilvægt að gæta vel að því að viðhalda aðkomu heildarsamtaka að kjaramálum því eins og dæmin sanna hefur það reynst vel þegar á hefur þurft að halda og vísa ég þar í þjóðarátakið sem gert var í byrjun tíunda áratugarins við að kveða óðaverðbólguna í kútinn. Atvinnurekendahliðin sýndi að vísu litla ábyrgð í framhaldi þjóðarsáttarsamninganna og vildi aldrei viðurkenna að með þjóðarsáttinni átti að búa í haginn fyrir vaxandi kaupmátt á grundvelli jafnaðar. Sjúklingaskattar og margvísleg notendagjöld innan velferðarþjónustunnar sem fóru að líta dagsins ljós á þeim tíma skildi eftir óbragð í munni margra sem því miður tengdist þjóðarsáttinni auk þess sem að sjálfsögðu samningsrofin gagnvart BHM sátu lengi í mönnum þar á bæ og spillti samstarfi á milli BSRB og BHM um langt skeið því háskólamenn litu lengi á alla aðstandendur þjóðarsáttarinnar sem tilræðismenn í sinn garð. Allt þetta tók í en miklu máli skipti að persónuleg tengsl milli forsvarsmanna samtakanna voru ætíð góð og réðu úrslitum um að sambandið milli samtakanna rofnaði aldrei þrátt fyrir ágjöfina.
Sá þáttur í starfi BSRB sem við höfum náð hvað bestum tökum á snýr að réttindamálum. Þar hafa bandalögin tvö og Kennarasamband Íslands einnig náð mjög vel saman enda árangurinn eftir því. Afraksturinn er m.a. samkomulag um nýtt lífeyriskerfi árið 1996, Fjölskyldu - og styrktarsjóður árið 2000, auk þess sem við áttum drjúgan þátt í hugmyndavinnunni að baki nýjum fæðingarorlofslögum sem lögleidd voru á sama tíma. Hugmyndin að baki Fæðingarorlofssjóði varð fyrst til í fundarsölum BSRB um miðjan tíunda áratuginn en síðar kom á daginn að margir hefðu viljað þá Lilju kveðið hafa.
Eins og hér hefur komið fram hefur BSRB átt náið samstarf með öllum helstu samtökum launafólks í landinu. Sjálfur hef ég átt þann draum að þau sameinuðust öll í einum samtökum, Launamannasambandi Íslands. Fyrstu skrefin gat ég hugsað mér að yrðu sameining launafólks innan almannaþjónustunnar. Samstarf um verkefni væru fyrsta skrefið og leit ég á HASLA, Hagrannsóknir launafólks í almannaþjónustu sem BSRB, BHM, KÍ og Samband bankamanna, SÍB eiga aðild að sem vegvísi í þessu efni.
Annars megum við aldrei gera of mikið úr skipulagi. Að sjálfsögðu er það inntakið í starfinu sem endanlega skiptir máli. Ég tel að verkalýðshreyfingin sé í verulegri hættu að fjarlægjast rót sína, gerast stofnun meira upptekin af skipulagsformum en baráttumarkmiðum. Mér varð það áhyggjuefni þegar samtök launafólks komu að gerð Stöðugleikasáttmálans, sem svo er nefndur, síðastliðið vor hve samstiga samtökin og samtök atvinnurekenda - sem var minna undrunarefni - voru kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um niðurskurð, einnig í velferðarmálum með þeirri einu undantekningu að vilja þenja út ný félagsleg úrræði undir handarjaðri aðila vinnumarkaðar. Þetta þykir mér vera vísbending um að sú hætta sé fyrir hendi - og mjög raunveruleg - að verkalýðshreyfingin stofnanavæðist og verði meira umhugað um sjálfa sig og eigin stofnanir en hina almennu velferð sem ekki er vinnumarkaðstengd. Þessi nálgun er afturhvarf til 20. aldarinnar öndverðrar þegar réttindi voru meira og minna vinnumarkaðstengd.
Í seinni tíð hafa kraftar okkar í vaxandi mæli beinst út fyrir landsteinana og þá mjög að alþjóðlegum hugmyndaverkstæðum svo sem hjá OECD og þá ekki síður Alþjóðaviðskiptastofnuninni og samningunum sem þar eru í smíðum en sem kunnugt er hafa fjölþjóðlegir samningar og skuldbindingar sífellt meiri áhrif á íslenska lagasmíð og þar með frelsi okkar til athafna.
BSRB hefur staðið í fararbroddi í hreyfingu launafólks á þessu sviði og leyfi ég mér að fullyrða að viðleitni samtakanna til að vekja athygli á samspili alþjóðlegra skuldbindinga og íslenskrar lagasetningar hefur þegar haft talsverð áhrif, til dæmis varðandi skuldbindingar okkar í GATS samningalotunni. Þarna er einmitt komið að veigamiklu hlutverki heildarsamtaka á borð við BSRB í lýðræðissamfélagi, að upplýsa, örva til umræðu og varpa ljósi á mál frá sjónarhóli launafólks. Eftir að ég settist inn á Alþingi gerði ég mér betur grein fyrir þessu mikilvæga hlutverki verkalýðshreyfingar sem síst verður minna mikilvægt eftir því sem fjármagnsöflin styrkjast í þjóðfélaginu. Ef tryggja á jafnvægi á milli launafólks annars vegar og atvinnurekendavalds og fjármagns hins vegar - er lífsnauðsynlegt að hafa sterka verkalýðshreyfingu. Ég hvet til þess að BSRB efli þetta alþjóðastarf en dragi ekki úr því. Því miður eru þeir alltof margir sem gera sér ekki grein fyrir því að á erlendri grundu er hægt að hafa áhrif - alþjóðlegar stofnanir hafa áhrif á okkur og við eigum að hafa áhrif á þær. Er ég þar ekki sérstaklega að horfa til Evrópusambandsins heldur heimsins alls, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, OECD að ógleymdum Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum. Á fundi þessara stofnana hafa um langt árabil verið gerðir út íslenskir ráðherrar - í okkar umboði - að tala fyrir einkavæðingu jafnvel í fátækum ríkjum. Þetta er búmeranginn sem nú hefur hitt okkur sjálf fyrir.
Engin réttindamál hafa verið eins fyrirferðarmikil í okkar starfi og lífeyrismál enda risastórt hagsmunamál. Forverar okkar lögðu höfuðáherslu á lífeyrisréttindin og hafa forsvarsmenn BSRB ekki látið sitt eftir liggja á undanförnum tveimur áratugum.
Innan samtaka launafólks hafa menn ekki alltaf verið á eitt sáttir um hve ríka áherslu eigi að leggja á lífeyrissparnað og lífeyrisréttindi. Sumir telja of mikið í lagt hvað lífeyrissparnað snertir og telja að við ættum að láta hluta af núverandi iðgjöldum renna niður í launaumslagið. Hjá BSRB varð það sjónarmið ofan á að leggja ríka áherslu á lífeyrisréttinn og höfum við mörg haldið því fram að það séu meiri rök fyrir því að launin séu breytileg stærð - sveiflist eftir efnahagsaðstæðum en lífeyrisrétturinn verði á hinn bóginn að vera sem stöðugastur. Með öðrum orðum, fremur beri að draga úr kaupmætti launa þegar þrengir að en kaupmætti ellilífeyris. Ellilífeyrisþegi hefur þegar allt kemur til alls ekki tök á því að afla viðbótartekna við slíkar aðstæður, sem launamaðurinn á þó sem betur fer iðulega kost á að gera. Á almennum vinnumarkaði hefur stundum verið sagt gegn þessu sjónarmiði að opinberir starfsmenn geti trútt um talað með einsleita atvinnurekendur, öðru máli gegni á almennum vinnumarkaði, þar sé erfiðara að komast að samkomulagi um föst réttindi með breytilegu iðgjaldi. Þessi gagnrýni þykir mér ekki standast, lífeyrissjóðum fækkar og auðveldara að komast að heildarniðurstöðum í þessu efni fyrir allan vinnumarkaðinn.
En þessar áherslur okkar hafa komist heldur betur í hann krappan. Á síðari hluta níunda áratugarins var lífeyriskerfi opinberra starfsmanna mjög hætt komið. Opinberum starfsmönnum var þá boðið upp á að umreikna lífeyrisréttindi sín í laun; afsala sér lífeyrisréttindum en hækka kaupið sem næmi réttindamissinum.
Sem betur fer stóðum við þessa atlögu af okkur. Nokkrir einstaklingar stóðu vaktina örðum fremur, en fremstur þar í flokki var án nokkurs vafa í mínum huga, Gunnar Gunnarsson, þáverandi framkvæmdastjóri SFR, síðar framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands. Á málþingi um lífeyrismál sem haldið var í byrjun árs 2008, Gunnari til heiðurs í tilefni 70 ára afmælis hans, rakti ég þessa sögu og hvernig málum lyktaði farsællega eftir samkomulag við þáverand ríkisstjórn í kjarasamningum 1989 og ítrekað í Þjóðarsáttarsamningunum 1990 en þar með var atlögunni hrundið um sinn. Eða þar til að nýju var ráðist að kerfinu með skerðingarfrumvarpi árið 1996 af þáverandi ríkisstjórn.
Aldrei áttum við bandamenn í samtökum launafólks á almenum vinnumarkaði í þessari baráttu og litu félagar okkar þar umframréttindi opinberra starfsmanna hornauga. Við höfðum ríkan skilning á kröfum um jöfnuð - nema hvað við vildum jafna kjörin upp á við en ekki niður. Það er staðreynd sem ekki verður horft framhjá að staðfesta BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands sem sameiginlega hafa staðið lífeyrisvaktina í seinni tíð í almannageiranum hefur orðið til þess að lífeyrisréttindi í landinu almennt hafa verið bætt. Sameiginlega tókst þessum samtökum að ná fyrrnefndu skerðingarfrumvarpi út af vorþinginu 1996 og að afloknum sumarlöngu samningaþófi varð til það kerfi sem við búum við í dag fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga. Með þessu vannst gríðarlegur sigur. Lífeyrisrétturinn byggir eftir þetta á samræmdum grunni fyrir vinnumarkaðinn allan en sá áfangi náðist án þess að fórna réttindum opinberra starfsmanna.
Ástæðan fyrir því að BSRB í samvinnu við BHM og KÍ höfðu árangur af erfiði sínu er hve nátengd hreyfingin er lífeyriskerfinu. Í seinni tíð hefur ekki verið haldinn sá aðalfundur í BSRB að ógleymdum fjölda stjórnarfunda að ekki hafi verið farið ítarlega í lífeyrismálin, forsvarsmenn þeirra, starfsmenn og stjórnarmenn krafðir upplýsinga og stefnumál rædd. Aðkoma launafólks, núverandi lífeyrisþega og lífeyrisþega framtíðarinnar er þannig mjög mikil - og fráleitt að skera á þessi tengsl undir því yfirskyni að "eigendur" sjóðanna eigi að geta valið stjórnarmenn. Það gera þeir nú á lýðræðislegan hátt í gegnum sín samtök hvort sem þau heita ASÍ, BSRB, BHM, KÍ eða SÍB.
Enn eigum við eftir að komast fyllilega að raun um hve mikið tap lífeyrissjóðanna varð í hruninu. Það er tilfinnanlegt. En þá skulum við ekki gleyma því að á undanförnum árum hafði himinhár gróði verið sýndur í statistíkinni án raunverulegrar innistæðu. Þegar bólan síðan sprakk hvarf sýndargróðinn án þess að raunveruleg innistæða hefði lækkað eins og bókhaldstölur þó gáfu til kynna.
Við hrunið hafa vissulega vaknað spurningar sem við verðum að taka alvarlega og markvissa umræðu um. Á fyrrnefndri ráðstefnu um lífeyrismál til heiðurs Gunnari Gunnarssyni ræddi ég meðal annars ýmsar ranghugmyndir um lífeyrissjóðina. Oft væri litið á þá sem eins konar sparibauka. Við legðum í þá peninga til geymslu þar til við þyrftum á þeim að halda. Þetta væri eitthvað annað en gegnumstreymiskerfið þar sem ellilífeyrir er fjármagnaður með skattgreiðslum í núinu. Ég hélt því fram að í reynd væri minni munur á þessum kerfum en margir ætluðu. Því á endanum væri einfaldlega um það að ræða - hvert sem kerfið er - að taka þyrfti peninga út úr efnahagslífinu þegar kæmi að greiðslu lífeyris. Spurningin væri hversu aflögufært efnahagslífið væri hverju sinni. Þetta þýddi að lífeyrissjóðirnir ættu allt sitt komið undir burðum efnahagslífsins. En þá væri spurningin hvernig færum við að því að geyma peninga. Væri það yfirleitt hægt?
Og þetta var einmitt spurningin sem ég setti fram á lífeyrisráðstefnunni: "Er hægt að geyma peninga, hvað er átt við með því að geyma peninga?" Sjálfum mér svaraði ég í löngu máli sem ég rek ekki hér en sagði m.a.:" Ef litið er til ávöxtunar einnar, þá er hámarks ávöxtun það sama og örugg ávöxtun. Flestar ávöxtunarleiðir jafna hver aðra út, sé litið til nógu langs tíma. Öll ávöxtunarleikfimi endar í sama punkti yfir langan tíma. Fyrsta reglan í geymslu peninga, hlýtur að felast í því að láta þá þjóna sér um leið og þeir vaxa. Til dæmis er ekkert vit að fá lánaða peninga til að kaupa hús og geyma svo sparnaðinn sinn í banka. Skuldsettur sparnaður er ekki mikil klókindi, nema því aðeins að sparnaðurinn skapi manni tekjur sem eru meiri en kostnaðurinn við skuldina. Það gæti til dæmis falist í að skapa atvinnu á heimaslóðum. Það gæti líka falist í að auka lífsgæði eigenda. Til dæmis með því að fjárfesta í bættri heilsugæslu og aðbúnaði fyrir aldraða. Skilar það arði? Það skilar arði ef markmiðið með sparnaðinum er að auka lífsgæði. Annars ekki. Í Hávamálum segir: Enginn skyldi fjár síns þörf þola. Það er að segja enginn skyldi gerast þurfamaður gagnvart sínum eigin fjármunum. Enginn skyldi þurfa að betla hjá sjálfum sér. Og síðan segir: Oft fær leiður það sem ljúfum er ætlað. Margt fer verr en varir.
Heimurinn er hverfull, við getum ekki séð fyrir hvað verður eftir 30 ár. Það væri illt að vera búin að safna tíu þúsund milljörðum í lífeyrissjóð og deyja síðan öll úr fuglaflensu eða kjarnorkustríði.
Hvernig geymir samfélag peninga? Eru góðir vegir álíka gáfuleg geymsla á peningum og grafa þá í jörð? Eru jarðgöng nútímaleg útfærsla á fjársjóðsgreftri? Eru innviðir samfélags arðbærir og hvernig er það mælt? Er menntun arðbær? Er vellíðan arðbær? Er jafnrétti arðbært? Er þá hægt að geyma peninga í innviðum, vellíðan, menntun og jafnrétti? Er þetta kannski ekki svona flókið? Á bara að láta Sigurð Einarsson fá peningana og biðja hann að skila þeim eftir 30 ár? ..."
Og áfram hélt ég þessum vangaveltum: "Við lesum um eignir lífeyrissjóðanna næstum daglega eða vikulega í blöðum. Við fyllumst stolti yfir styrk þeirra. Þúsund milljarðar, eittþúsundogfimmhundruð milljarðar. Við ætlum að geyma þá handa okkur. Við ætlum ekki að nota þá núna. Erum við að falla í sömu gildru og foreldrar okkar? Þau byggðu upp forsendur þessa auðs. Þau ákváðu að geyma sér peningana. En þau fá þá ekki. Við tímum því ekki. Þá verður ekki nóg handa okkur..... Okkur ber að spyrja hvort notkun peninganna sé hugsanlega besti mælikvarðinn á geymsluna; að ef þeir eru vel notaðir þá séu þeir vel geymdir og ef illa notaðir þá séu þeir jafnframt illa geymdir. Er þegar allt kemur til alls, er samfélag jafnréttis, kærleika, dugnaðar, góðs aðbúnaðar fyrir sjúka, besti peningaskápurinn? Samfélag sem er vel fjármagnað af eigin sparnaði á lágum vöxtum, með háu atvinnustigi er arðbær fjárfesting. Samfélag sem skapar slíkan arð er örugg fjárfesting."
Og enn var spurt í þessu tveggja ára gamla erindi:
"Er ef til vill kominn tími fyrir innrás í stað útrásar? Eru íslenskir bankar tilbúnir í innrás til Vestfjarða? Tilbúnir til að hjálpa til að skapa gott mannlíf á Norðurlandi? Eru íslenskir bankar tilbúnir til að minnka? Tilbúnir til samráðs við samfélagið? Tilbúnir til að hlusta? Tilbúnir til að selja þoturnar og keyra um á Toyota Yaris og Nissan Micra? Vera hluti af þjóðfélaginu? Tilbúnir til aðeins meiri auðmýktar, skilnings, ábyrgðar? "Sá sem óskar eftir trausti almennings, verður að sætta sig við að vera eign almennings", sagði höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, Thomas Jefferson...."
Og ég hvatti til þess að nú litu allir í eigin barm, lífeyrissjóðirnir og ekki síður bankarnir. "Íslenskir bankar", sagði ég að lokum , " eiga að líta í sinn íslenska barm, fara sér hægt og minnka efnahagsreikninga sína. Fjárfestingakerfið í heild sinni þarf að huga að langtímaarði, að uppbyggilegu sjálfbæru atvinnulífi, að grasrótinni, að þorpunum á ströndinni, að mannlífinu einsog það er núna, ekki bara seinna. Það er lítið gagn í sparnaði ef lifað er undir fátæktarmörkum og jöfnuði og velferð fórnað....Við skulum ávallt muna að peningar eru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Það er lítils virði að eiga stærsta olíusjóðinn ef það er tólf mánaða biðtími eftir nauðsynlegum uppskurði."
Þannig setti ég málið fram fyrir tæpum tveimur árum og hvatti til umræðu um ráðstöfun lífeyrissparnaðar.
Og góðir félagar, hvað nú? Menn vilja stofna Fjárfestingarsjóð á vegum lífeyrissjóðanna til að efla atvinnu hér innanlands. Gott og vel. En er ekki sú hætta fyrir hendi að fyrir barðinu verði verkefni ríkisins og sveitarfélaganna. Ekki er nóg með það að ríkissjóður sé tómur, hann er rekinn með geigvænlegum halla. Sama á við um sveitarsjóðina. Þetta eru sjóðirnir sem fjármagna velferðina, skólana, sjúkrahúsin, stofnanir fyrir fatlaða, löggæsluna, slökkviliðin, sjúkraflutningana, vatnsveiturnar, stofnanir fyrir aldraða, sjálfa innviði samfélagsins. Ég vil láta minn lífeyrissparnað renna þangað, til að verja innviðina, svo ekki verði grafið undan velferðinni. Aldrei er hennar meiri þörf en í kreppu.
Og svo má spyrja: Meina menn ekkert með því að varðveita eigi kvennastörfin? Oft hef ég á tilfinningunni að þetta séu orð til sýnis. Niðurskurðurinn í velferðinni þýðir að konum verður vísað út í atvinnuleysi á sama tíma og spekingar setjast yfir að búa til störf fyrir karla. Ég kalla eftir því að lífeyrissjóðirnir setjist yfir þetta með ríkinu og sveitarfélögunum með það í huga að forgangsraða fjármagni til þeirra, láni ríki og sveitarfélögum peningana okkar til að draga úr hinum bratta niðurskurði. Þetta er mín krafa um mína peninga. Síðan skulum við ekki gleyma hinu að í gegnum almannavaldið rennur fjármagn út á markaðinn til að framkvæma, reisa byggingar, gera vegi, brýr, hafnir og önnur mannvirki.
Á síðasta þingi BSRB haustið 2006 var hömluleysi frjálshyggjunnar að ná hámarki. Við setningu þingsins þá vék ég að þessu hömluleysi græðginnar með eftirfarandi orðum:
"Okkur er sagt að græðgin gefi af sér peninga. Að hinir gráðugu einstaklingar séu eins og vakrir gæðingar sem geysast um og skapi auð í hverju spori. Og við hin skulum sitja á baki og njóta þess að vera á harðastökki og finna þaninn vöðva gæðingsins hnyklast undir okkur. En sé líkingin um gæðinginn rétt, sem ég hef miklar efasemdir um, þá spyr ég: Hverjum dettur í hug að fara á bak hesti án þess að setja í hann beisli. Hverjum dettur í hug að láta taumlaust náttúruafl ráða ferðinni. Og ef þetta er fyrir okkur gert erum það þá ekki við sem eigum að setja stefnuna? Og varla viljum við ríða berbakt. Við viljum leggja upp í ótemjuna mél skynseminnar og hnakk samúðar og tillitssemi. .... Og nú er svo komið að við verðum að spyrja: Hvað viljum við nú? Hver er okkar draumsýn? Eigum við öll að efla með okkur græðgi og deyfa siðferðið og skeiða af stað? Hver er okkar sýn á framtíðina? Á ekki okkar draumsýn að vera að efla samhjálpina? Við höfum séð hversu gífurlega hagsmuni við höfum af samhjálpinni, þó hún sé fjárvana. Hversu mikið gætum við ekki notið betur ef betur væri við hana gert og betur að henni búið? Almenningur er löngu búinn að átta sig á þeirri gífurlegu verðmætasköpun sem liggur í þeim samfélagslega vefnaði sem störf almannaþjónustunnar skila á hverjum degi. En utandyra má heyra óhljóð græðginnar, frýsið í ótemjunni, sem vill geta keypt og verslað með störfin, með sjúklinga, með aldraða, með ungviðið. Hún vill allt inn í bókhaldið. En þegar hún spyr hvað það kosti að baða gamla konu, þá er okkar svar að það fari eftir lífsviðhorfi þess sem á heldur. Það fari eftir því hvað okkur finnst að það eigi að kosta.
Það þarf að reka gæðinga græðginnar út á gaddinn, þar sem þeir geta sannað gildi sitt í vindi og veðrum. Þeir munu áreiðanlega leita til okkar, verði þeir sárfættir eða svangir. Fésýslumenn, sem hafa sýnt ótrúlegt trúnaðarleysi við samfélag sitt, taka til sín meira heldur en þeir þurfa til þúsund ára og greiða lægri skatta en aðrir. Viljum við fá þessum mönnum það hlutverk að standa með skeiðklukkuna á meðan gamla konan er böðuð og börnunum kennt að lesa? "
Þetta var sagt hér í þessum ræðustól fyrir þremur árum. Nú hafa þeir leitað til okkar gæðingarnir talsvert sárfættir eða eru það kannski við sem erum sárfætt?
Nú eru það við sem þurfum að læra af reynslunni. Og þá fyrst með því að horfa í eigin barm, hvað varðar gagnsæið, hvað varðar lýðræðið og hvað varðar réttlætið. Búum við í verkalýðshreyfingunni sjálfum okkur sömu réttindi og kjör og við semjum um fyrir félagsmenn okkar? Er allt gagnsætt hjá okkur? Erum við eftir allar þjóðarsáttirnar ef til vill orðin of nátengd gagnaðilum okkar? Eru aðilar vinnumarkaðar í flertölu að verða aðili í eintölu? Hér er vandrataður vegurinn. Við viljum sátt en sú sátt þarf að byggja á þeim veruleika sem við lifum í. Við búum í þjóðfélagi misskiptingar, þar sem sumir hafa gnægð fjár, aðrir ekki. Við búum við vinnustaði þar sem einn ræður og öðrum er gert að hlýða. Við búum í þjóðfélagi þar sem handhafi fjármagnsins fer með vald yfir hinum snauða. Á milli þessara heima er hyldýpi og þegar þeir talast við hljóta samskiptin að stjórnast af því. Eða hvað? Er kannski engin togstreita - þegar komið er upp á kontórana hjá okkur? Er togstreitan lærð? Er hún vegna þess að menn þurfa að hugsa sig inn í hana en ekki vegna þess að hún er sprottin af innri þörf? Getur verið að við séum komin upp í of stóra jeppa, inn í of stór hús, of stórar skrifstofur, sækjum við of marga fína fundi? Spyrjum og leitum svara.
Við eigum að horfast í augu við það að í þjóðfélaginu ríkir togstreita - það er okkar hlutverk að toga fyrir þá sem standa höllum fæti gagnvart fjármagni og valdi. Það breytir því ekki að togstreitunni á jafnan að beina í eins jákvæðan og uppbyggilegan farveg og kostur er. Ég vil að við séum sem ein fjölskylda. En þá verðum við líka að vera það í reynd.
Íslendingar standa frammi fyrir miklum erfiðleikum þar sem við þurfum á því að halda að leita góðrar sáttar. Við sáum í vetur leið hve nærri við vorum, og erum kannski enn, því að friðurinn í þjóðfélaginu sé rofinn. Eldar loguðu við Alþingishúsið. Ég minnist þess eitt örlagakvöldið að ég var í beinni útsendingu í sjónvarpi. Hrópin heyrðust að utan. Eggjum var hent í rúður þinghússins. Svo kom grjótið. Hönd fréttakonunnar sem hélt um hljóðnemann titraði. Loft var lævi blandið. Að loknu viðtalinu gekk ég að glugga sem veit út á Austurvöllinn. Við hlið mér stóð öryggisvörður, félagi minn í BSRB. Fyrir neðan okkur voru lögreglumenn með hjálma og skildi - og tárags. Því hafði verið beitt kvöldið áður. Allir í viðbragðsstöðu. En þegar grjótkastið tók að beinast að lögreglumönnunum - þá gerðist það. Hópur fólks tók sig út úr mannfjöldanum og myndaði mannlegan varnarmúr frammi fyrir lögreglunni. Hið ósagða lá í augum uppi. Sá sem grýtir lögregluna grýtir mig. Lögreglumennirnir lögðu skildina frá sér. Ég gleymi því aldrei þegar félagi minn við gluggann - öryggisvörðurinn - sagði og ég heyrði klökkvann í röddinni: Guði sér lof. Við erum komin aftur til Íslands.
Góðir félagar.
Nú líður að því að ég kveðji BSRB. Alltaf mun hjarta mitt eiga heima hjá ykkur. Megi BSRB farnast vel um ókomin ár. Megi BSRB auðnast að standa vörð um réttlætið, um jöfnuðinn, um jafnréttið, um frelsið, um kjarkinn, um baráttuna. Já, um baráttuna. Nú hefjum við baráttufána að húni!
42. þing BSRB er sett.