63 - 0
Þannig vildi ég sjá Icesave samninginn afgreiddan á Alþingi, með sextíu og þremur atkvæðum gegn engu. Það hefur pólitíska, félagslega og efnahagslega þýðingu að skapa samstöðu um afgreiðslu Icesave. Skuldbindingarnar eru af þeirri stærðargráðu að við höfum ekki efni á því að ganga fram klofin - ekki með klofið þing og þaðan af síður sundraða þjóð.
Fram hefur komið að sjálfur get ég ekki fellt mig við að veita ríkisábyrgð á Icesave á þeim forsendum sem fyrir liggja. Svo er enn. Hvort hægt er að setja fyrirvara við ríkisábyrgðina er nú til umræðu á Alþingi. Ég tek heilshugar þátt í þeirri umræðu og fagna því að fulltrúar allra stjórnmálaflokka hafa lýst vilja til að koma að þeirri vinnu. Saman eigum við síðan að ræða okkur að niðurstöðu. Inn í þá umræðu þarf að flétta ígrundað mat á því hversu hyggileg þessi fyrirvaraleið yfirleitt er. Að þessu verki á í engu að flana. Framtíðin er í húfi. Allt veltur á vönduðum vinnubrögðum.
Ekki ætla ég að gera lítið úr stundarhagsmunum Íslendinga. En fyrst og fremst snýst þetta mál þó um framtíðina. Á síðustu árum í aðdraganda bankahrunsins var viðkvæðið jafnan - þetta reddast - verum ekki ákvarðanafælin - og síðan var fyrirhyggjan látin lönd og leið. Það má ekki gerast. Fljótræði er veikleiki ekki styrkur. Fyrir mitt leyti mun ég aldrei samþykkja neitt nema að ég hafi fulla vissu fyrir því að það sé það hyggilegasta í stöðunni eftir mikla ígrundun þar sem allar upplýsingar liggja fyrir og allir valkostir hafa verið grandskoðaðir með hjálp bestu manna innan lands og utan.
Enn skortir þar talsvert á.