Á AÐ LÁTA GRÆÐGINA EYÐILEGGJA ALLT?
Birtist í DV 11.04.14.
Ísland fór á hliðina þegar græðginni var gefinn laus taumurinn. Svo einfalt var það. Og nú blasir þetta við að nýju að græðgi nokkurra landeigenda er á góðri leið með að eyðileggja ferðþjónustuna á Íslandi. Þetta rann upp fyrir mér þegar ég gerði mér grein fyrir því hvað rukkunin við Kerið og Geysi og svipuð áform á norð-austurhorninu eru farin að hafa víðtæk áhrif út fyrir landsteinana.
Ég leyfi mér að fullyrða að almennt eru Íslendingar mjög óánægðir með þessa rukkun og látum við þá liggja á milli hluta - í bili - að hún er kolólögleg. Fólk vill ekki breyta ásýnd Íslands með posavélum og ágengu rukkunarfólki eins og nú er að ryðja sér til rúms við náttúruperlur Íslands.
Þetta er óíslenskt
En þetta er ekki bundið við Íslendinga. Mér var sagt af bandarískum ferðmálafrömuði sem varð furðu lostinn þegar hann frétti af hinum nýja sið og sagði í forundran: „En þetta er svo óíslenskt. Í huga mínum er Ísland frjálst og opið og fólkið gestrisið. Þetta gengur þvert á allt þetta!"
Það er nú það! þetta rímar vissulega ekki við landið og ímyndina sem menn hafa af því en því miður er þetta í fullkomnu samræmi við landann þegar hann sleppir fram af sér beislinu og heimtar mikið og meira og svo miklu meira.
Líka krónur og aurar
En ímyndin er ekki bara huglæg. Hún hefur líka efnahagslega þýðingu. Aðili í ferðþjónustu sagði mér þegar við hittumst við Geysi um síðustu helgi að hann hefði þegar fengið eina afpöntun fyrir sumarið vegna frétta af gjaldtöku. Sjálfur er ég ekki beintengdur inn í þennan atvinnuveg en ég tek þennan mann trúanlegan og ef þetta er rétt þá er líklegt að þetta sé vísbending um það sem koma skal.
Síðan er hitt að erlendir fjölmiðlar eru farnir að hafa samband og spyrja hvenær næstu mótmæli fari fram. Ég vísa hér í samtöl við þýska útvarpsstöð og Wall Street Journal. Þetta þykja mér vera slæm tíðindi.
Erlendir fjölmiðlar spyrja
Áhugi erlendra fjölmiðla er hins vegar skiljanlegur því hér er verið að tala um grundvallarmál sem snertir miklu fleira fólk en okkur ein hér á okkar skeri. Spurt er um markaðsvæðingu náttúrunnar.
Ég sagðist ætla að láta hina lagalegu hlið liggja á milli hluta - en bara í bili. Það er nefnilega ekki hægt að horfa framhjá þeirri hlið á þessu máli. Það er ekki hægt annað en spyrja hverni g í ósköpunum það geti gerst að í trássi við lög skuli það líðast að menn gangi að ferðafólki og krefji það um peninga án þess að hafa til þess nokkra heimild? Þvert á móti þá eru um það skýr ákvæði í lögum að þetta sé með öllu óheimilt. Það er beinlínis kveðið á um það í lögum að þetta sé óheimilt!
Áfram verður andæft
Þess vegna mun ég og án efa miklu fleiri halda að Geysi á laugardag klukkan hálf tvö, ganga inn á svæðið án þess að greiða svo mikið sem eina krónu og hvet ég alla til þess að gera slíkt hið sama. Því aðeins verður hætt við þetta ef lögbann verður komið til framkvæmda.
Ekki óhlýðni
Einhver spurði mig hvort þetta væri það sem kallað er borgaraleg óhlýðni. Ég kvað svo ekki vera. Það værum við sem hlýddum lögunum en ekki hinir sem hafa tekið sér vald til að ganga á svig við þau með þessum hætti