Fara í efni

Á HEIMSÞINGI PUBLIC SERVICES INTERNATIONAL

PSI - LOGO
PSI - LOGO

Fimmta hvert ár efna heimssamtök opinberra starfsmanna, Public Services International, PSI, til þings og var það að þessu sinni haldið í Genf í Sviss, vikuna 30. október til 3. nóvember. Ég hef setið nokkur þessara þinga sem formaður BSRB en að þessu sinni var ég þar sem gestur auk þess sem ég hafði tekið að mér ýmis verkefni í tengslum við þingið. Þannig kom ég að umsjón með málstofum - tilbúinn að hlaupa í skarðið ef einhver dytti úr skaftinu, þá sem stjórnandi eða þátttakandi.

Nokkrir félagar úr aðildarfélögum BSRB sátu þingið og var það samdóma álit okkar að þingið hefði að þessu sinni verið sérlega vel heppnað, fróðlegt, upplýsandi og hvetjandi.

Yfirskrift þingsins var eins konar hvatning um að setja almannahag í forgang en ekki fjármálahagsmuni, People over profit.

Annað meginþema var ákall um að stöðva ofbeldi gegn konum.
 PSI - forysta 

Níu málstofur voru á þinginu. Fyrsta málstofan fjallaði almennt um yfirskrift þingsins. Fimm þátttakendur voru í málstofunni, þeirra á meðal Rosa Pavanelli, framkvæmdastjóri PSI. Sérstaklega vil ég nefna varaforseta bandarísku verkalýðssamtakanna AFL-CIO, Tefere Gebre. Ég hlustaði af mikilli athygli á þennan mann þegar ég áttaði mig á forsögu hans, flóttamaður frá Eþíópíu, sem kom fótgangandi til Súdan 14 ára gamall, einn síns liðs. Úr súdönskum flóttamannabúðum komst hann til Bandaríkjanna, aftur einn á báti. Í Suður-Kaliforníu, San Diego og síðar Los Angeles, braust hann til mennta og síðan til áhrifa í stjórnmálum og verkalýðshreyfingu. Hann talaði máli innflytjenda í Bandaríkjunum en sagði að aldrei mætti gleymast af hverju menn flýðu og að gera þyrfti öll lönd lífvænleg, „liveable" að búa í. „Það þarf að uppræta spillingu og ofbeldi og gera löndin mannvinsamleg, því engan langar að flýja heimahaga sína!"
Þarna var líka Ghassan Slaiby, sem lengi var fulltrúi PSI í arabaheiminum, fór fyrir skrifstofu samtakanna sem þjónaði norðanverðri Afríku, Mið-austurlöndum og síðan eitthvað austur á bóginn. Ghassan Slaiby er nú búsettur í Beirút í Líbanon. Hann sagði mér í kaffispjalli eftir pallborðsumræðuna að hann hefði stundum hugsað til þess að nánast allt sitt líf hefði verið ófriður í kringum sig. Og nú væri Trump að hræra í Írönum. Hvað þýðir það? Hann gæti þar með verið að hita undír nýjum átökum milli Hezbollasamtakanna í Líbanon og stjórnarinnar í Ísraels. Ghassan sagði að við þekktum af biturri reynslu hvernig það getur endað. Hið margflókna samspil alþjóðastjórnmála er okkur ekki alltaf augljóst við fyrstu sýn.
PSI - Þáttakendur  

Í málstofu númer tvö var fjallað um heilbrigðismál. Einnig þar voru fimm þátttakendur, hver öðrum betri. Ég staðnæmist við nafn dr. Amit Sengupta, forsvarsmann indverskrar heilbrigðishreyfingar, Coordinator, People´s Health Movement of India. Hann gagnrýndi niðurskurð til heilbrigðismála í einstökum ríkjum og til alþjóðlegra stofnana. Þessi þróun myndi leiða til þess að minna yrði hlustað á Alþjóðaheilbrigðisstofnunina, WTO, en Bill Gates og hans líka, hvað varðar áherslur og stefnumótun. Inntakið var þetta: Lýðræðið víkur fyrir auðvaldi ef fram fer sem horfir.

Þriðja málstofan fjallaði um „framtíðarvinnustaðinn" innan almannaþjónustunnar. Eftriminnilegur var málflutningur Karen Gregory frá háskólanum í Edinborg en hún sérhæfir sig í því sem kallað er „digital sociology", stafrænni félagsfræði. Hún fallaði um breytt samskiptaform í stafrænum heimi, en höfuðáhersla hennar var engu að síður á að gleyma því ekki að þrátt fyrir allar tækniframfarir þá ætti tæknin að vera þjónn en ekki sitja í fyrirrúmi, þar ætti manneskjan og þarfir hennar að vera.

Stórmerkileg þótti mér fjórða málstofan, en hún fjallaði um borgir og borgarmenningu. Meðal annars var fjallað um tilraunir til að endurheimta einkavædda þjónustu í opinbera umsjá.
Í fimmtu málstofunni var fjallað um almannaþjónustu í alþjóðlegu samhengi. Þátttakendur voru afburða góðir en bitastæðustu upplýsingarnar þóttu mér koma frá Sanya Reid Smith frá Third World Network en hún fjallaði um alþjóðaviðskiptasamninga og þá sérstaklega „úrskurðardómstólana" sem standa utan allra réttarkerfa og óháðir ríkjum og þar með lýðræðinu. Þeir kveða uppúr um skaðabætur til fyrirtækja sem "verða fyrir barðinu á almenningi,"  en í seinni tíð hefur það viljað brenna við að þessi sami almenningur vilji endurheimta vatnið sitt og heilbrigðisþjónustu sem óprúttin yfirvöld hafa fært vildarvinum sínum í hendur.
PSI - Ögmundur 

Í sjöttu málstofnunni var fjallað um árekstra sem iðulega skapast á milli almannahagsmuna og fjárhagshagsmuna fyrirtækja sem komast yfir almannaþjónustu. Ég tók þátt í þessari málstofu og freistaði ég þess að skilgreina ástæður einkavæðingar en þær yrðum við að skilja til að takast á við hana. Ég nefndi gróðavon, vilja til að stýra stefnumörkun fyrir tilstilli fjármagns og í þriðja lagi fór ég yfir þær kerfisbreytingar sem gerðar voru á opinberum rekstri frá lokum áttunda áratugarins og fram á þennan dag með það fyrir augum að nýta markaðsformið til niðurskurðar.

Í sjöundu málstofunni var fjallað um fjármagn og lýðræði. Fróðlegt var að hlýða á Henry Garrido - framkvæmdastjóra heildarsamtaka opinberra starfsmanna í Bandaríkjunum, AFSCME, en hann á sæti í risastórum lífeyrissjóði. Hann sagði að um fjárfestingar lífeyrissjóða þyrftu að gilda reglur og siðferðiskvarðar en klykkti síðan út með að segja að lífeyrissjóðir ættu helst ekki að koma nálægt fjárfestingum í almannaþjónustunni.

Í áttundu málstofunni var fjallað um hópa sem eiga undir högg að sækja, þar á meðal samkynhneigða og transgender fólk. Stjórnandi málstofunnar var Phyl Opuku-Gyimah, svört samkynhneigð kona frá Bretlandi. Hún varleiftrandi skemmtileg og kröftug og náði hún að kveikja í þátttakendum málstofnunnar, sem ekki voru af verri endanum. Nefni ég sérstaklega Fred van Leeuwen, formann Kennarasambands Evrópu. Hann tók nokkur dæmi um ofsóknir á hendur samkynhneigðum og nefndi dæmi af sjálfum sér. Hann hefði einhvern tímann verið kallaður til Makedóníu að freista þess að leysa úr ágreiningi kennara við stjórnvöld. Hefði hann þá fengið að heyra að í sjónvarpsviðtali hefði fulltrúi stjórnvalda komið fram til að lýsa því yfir að í Makedóníu legðu menn það ekki í vana sinn að eiga viðræður við homma og skyldi hann því snúa til síns heima hið bráðasta. Fred van Leeuwen mæltist einkar vel og hugsaði ég hve heppnir evrópskir kennarar væru að eiga slíkan talsmann en þá jafnframt rifjast upp hve austurhluti Evrópu er illa á sig kominn hvað mannréttindin varðar.

Í níundu málstofunni var fjallað um mannréttindi almennt og var í titlinum skírskotað til þess að lífið snerist um annað og meira en það eitt að eiga til hnífs og skeiðar. Umræðunni stýrði Marc Bélanger frá alþjóðlegu verkalýðsútvarpsstöðinni, RadioLabour. Einn þátttakenda dr. Emily Porter, bresk kona sem sérhæft hefur sig í menningarverðmætum í Írak sem eyilögð hafa verið eða er ógnað af ófriði, ekki síst af hálfu ISIS samtakanna sem hagnast hafa á sölu slíkra verðmæta. Það óhugnanlega er, sagði dr. Emily, að það væru ekki bara seljendur slíkra verðmæta heldur væru  líka til staðar kaupendur og þeir væru á meðal okkar í ríkari hluta heimsins. Hrottalegt var síðan að hlusta á Gülfem Karatas, fréttakonu frá Tyrklandi segja frá ofsóknum og fangelsunum fréttamanna þar í landi. Hún talaði opinskátt - og því varla þörf á að taka fram að hún er flúin land.

Hér nefni ég málstofurnar sérstaklega en á þinginu fór fram lífleg almenn umræða um aðskiljanleg málefni, bæði sem sneru að samtökunum inn á við en einnig út á við. Þess má geta að þegar jafnréttismál bar á góma hlaut Ísland lof fyrir jákvæða viðleitni og í ljós kom að þingið sætu fulltrúar félagasamtaka sem hefðu komið á kröftugan hátt að jafnréttisbaráttunni, þá kvað við dynjandi lófaklapp Íslendingunum til heiðurs.

PSI hefur komið mjög að þeim málum sem heitast brenna á heimsbyggðinni, efnalegri misskiptingu, heilbrigðisvanda fátækra þróunarlanda (PSI beitti sér mjög í E-bólufaraldrinum til stuðnings og varnar fórnarlömbum og heilbrigðisstarfsmönnum); gegn einkavæðingu og alþjóðlegum viðskiptasamningum að því leyti sem þeir eru á forsendum fjármagnisins og á kostnað almennings. Þannig mætti áfram nefna loftslagsmálin og margt annað.

Að mínu mati er PSI róttækustu og öflugustu verkalýðssamtök sem nú eru starfandi á heimsvísu.

Á þinginu í Genf var þess minnst að eitt hundrað og tíu ár eru frá stofnun PSI. Listamenn sem fram komu gerðu það undir merkjum DADA listsköpunar hreyfingarinnar sem fram kom í Sviss á millistríðsárunum á öldinni sem leið en hún beindi spjótum sínum gegn valdníðslu og þjóðernishroka. Þótti skipuleggjendum þings PSI við hæfi að minna á DADA hreyfinguna í ljósi pólitískra hræringa nú um stundir víða um lönd.
http://congress.world-psi.org/