Á LEIÐ TIL TYRKLANDS
Birtist í Morgunblaðinu 11.02.19
Vaxandi spennu gætir í Tyrklandi vegna sveltimótmæla pólitískra fanga þar í landi en þeir krefjast þess að einangrun Öcalans, höfuðleiðtoga Kúrda í Tyrklandi og Norður-Sýrlandi, verði rofin og pólitískum föngum sleppt úr haldi.
Mótmælasvelti
Tölur um hve margir taki þátt í þessum sveltiaðgerðum eru nokkuð á reiki en þær eru á bilinu 150 til 250. Lægri talan vísar þá til þeirra sem eru innan fangelsismúra en sú hærri til heildarinnar. Þannig taka fjórtán stjórnmálamenn þátt í mótmælasvelti í Strassborg þar sem Mannréttindadómstóll Evrópu er staðsettur svo og þing Evrópuráðsins. Þessar stofnanir hafa sætt nokkurri gagnrýni fyrir linkind gagnvart mannréttindabrotum Tyrkja.
Leyla Güven
Augu fjölmiðla beinast mjög að einum helsta leiðtoga Kúrda til margra ára, Leylu Güven, en hún hætti að neyta matar 7. nóvember sl. Hefur hún því verið án matar í nær eitt hundrað daga. Leyla var látin laus úr fangelsi fyrir fáeinum dögum en ákvað að halda sveltinu áfram enda hafi til þess verið stofnað að hennar sögn til þess að krefjast þess að einangrun Öcalans yrði rofin. Honum er haldið í föngnum á Imrali-eyju í Marmarahafi, skammt undan Istanbúl, og síðustu árin algerlega einangruðum þvert á alþjóðlegar grundvallarreglur um mannréttindi.
Ný sýn á kvenfrelsi og lýðræði í anda Öcalans
Öcalan hefur setið í fangelsi í tvo áratugi en framan af gat hann komið frá sér miklum ritsmíðum sem hafa haft afgerandi áhrif á stjórnmálaþróun á meðal Kúrda í Tyrklandi og Norður-Sýrlandi.
Áherslur hans hafa breyst mjög frá því hann stýrði vopnaðri baráttu Kúrda frá lokum áttunda áratugarins og leggur hann ekki lengur áherslu á stofnun sjálfstæðs ríkis heldur lýðréttindi og stjórnarfar sem nú einkennir stofnanir, sveitarfélög og landsvæði þar sem Kúrdar hafa komist til áhrifa. Jafnrétti kynjanna er þar lykilþáttur en þetta segir Öcalan vera frumforsendu þess að unnt sé að koma á lýðræði.
Í öllum bæjum og borgum sem Kúrdar stýra á þessu svæði gegna bæði karl og kona bæjarstjóraembættum og svo háttar einnig um allar áhrifastöður í HDP flokki Kúrda í landsmálapólitíkinni, þar eru tveir formenn, karl og kona.
Í Rojava, því héraði Norður-Sýrlands þar sem Kúrdar eru ráðandi er þessi pólitíska hugsun í hávegum höfð, jafnrétti kynjanna og áhersla á samstjórn fólks, sem á sér mismunandi bakgrunn í trúarlegu og félagslegu tilliti. Eflaust eru brotalamir í framkvæmdinni en markmiðið er þetta.
Frá þíðu til harðstjórnar
Sjálfur minnist ég þess að sækja risastóran fjöldafund í Diyarbakir, höfuðstað Kúrda í suðaustanverðu Tyrklandi í byrjun árs 2014. Tónninn í ræðum manna á þeim fundi þótti mér harður en þegar ræðurnar voru þýddar, þar á meðal boðskapur Öcalans, heyrði ég að hann var fyrst og fremst friðsamur: Verum hugrökk og semjum! Það voru skilaboðin.
Þetta var á tíma þíðu í samskiptum Kúrda og stjórnvalda í Ankara en hún skilaði Kúrdum vaxandi árangri í kosningum. Í kosningunum í júní 2015 fengu Kúrdar 11,2% atkvæða en þröskuldur til að koma mönnum á þing er 10%. Við þetta féll meirihluti Erdogans forseta sem við svo búið venti sínu kvæði í kross og hóf nú ofsóknir á hendur Kúrdum með tilheyrandi pólaríseringu í samfélaginu.
Hver er glæpurinn?
Athyglisvert er að fangelsanir á undanförnum misserum beinast fyrst og fremst að fólki sem drýgt hefur þann glæp að hvetja til samninga og friðsamlegra lausna! Þetta á við um opinbera starfsmenn, sem eru þessarar skoðunar og hafa látið hana í ljósi, fréttafólk, fólk úr dómskerfinu og heilbrigðisstarfsmenn, svo nefndar séu stéttir sem að undanförnu hafa sætt sérstökum ofsóknum.
Merki ofsókna
Þegar ég kom til Tyrkalands í febrúar 2017, að þessu sinni í svokallaðri Imrali-sendinefnd að krefjast þess að pólitískir fangar yrðu látnir lausir og einangrun Öcalans á Imrali-eyju rofin, þá var öðru vísi um að litast en í upphafi árs 2014. Nú hafði drjúgur hluti hinnar ævafornu Diyarbakir-borgar, sem verið hafði á minjaskrá Sameinuðu þjóðanna, verið jafnaður við jörðu og víða mátti sjá ummerki hrikalegrar eyðileggingar og ofsókna.
Að tala máli mannréttinda
Þegar þessi grein birtist er ég á leið til Tyrklands, samkvæmt sömu formúlu og í Imrali-heimsókninni árið 2017, að tala máli mannréttinda. Ég hef fyrir hönd hópsins, sem ég er hluti af, óskað eftir fundi með dómsmálaráðherra Tyrklands, Abdulhamid Gül, og jafnframt beðið um að fá að heimsækja Imrali-eyju. Engin svör hafa borist við þessu erindi.
Við stefnum hins vegar á að hitta fulltrúa mannréttindasamtaka, verkalýðshreyfingar, stjórnmálasamtaka, dóms- og réttarkerfis, fjölmiðla og síðan einnig fólk sem er í mótmælasvelti gegn mannréttindabrotum og ofbeldi.
Við munum á miðvikudag halda til Diyarbakir og freista þess að hitta þar Leylu Güven, verði hún þá enn á lífi.