Fara í efni

Á MÓTI LÝÐRÆÐI: ÍSRAEL, ÍSLAND, ESB OG BUSH

Athygli vakti við umræðu um utanríkismál á Alþingi í vikunni hve mjög Geir H. Haarde endurómaði áherslur bandarískrar utanríkisstefnu í ræðu sinni. Þannig réðst hann á Íran og lagði lykkju á leið sína til þess að gagnrýna nýkjörna stjórn í Palestínu. Sem kunnugt er fóru Hamas samtökin með sigur í nýafstöðnum kosningum í Palestínu. Ekki var það Ísraelsstjórn að skapi. Reyndar er það ekki að undra því Hamas hafa ekki viljað viðurkenna Ísraelsríki. Að þessu leyti er líkt komið á með Hamas og stjórnvöldum í Ísrael því hin síðarnefndu hafa ekki viljað viðurkenna tilvist Palestínu, eins og hún var ákveðin á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eftir hin blóðugu átök á árunum 1948 – 49. Þar var ákveðið að Palestínumenn fengju rúman fimmtung af Palestínu eða um 22%. Núverandi stjórn í Ísrael ætlar Palestínumönnum innan við 10% af sundurtættri Palestínu. Myndirnar hér að ofan sýna þessa þróun. Lengst til vinstri er Palestína árið 1945 þegar gyðingar hafa verið að koma sér fyrir á svokölluðum landnemabyggðum. Síðan eru landamærin 1947 og þá samkvæmt grænu línu Sameinuðu þjóðanna 1949 eftir stríðsátökin. Þá eru landamærin eftir Sex daga stríðið 1967 og loks eins og staðan hefur verið síðan 2000. Hvað eftir annað hafa Sameinuðu þjóðirniar ályktað en þegar komið hefur til kasta Öryggisráðsins hafa Bandaríkjamenn jafnan beitt neitunarvaldi.

Ísraelar hafa nefnilega komist upp með aðskilnaðarstefnu sína – apartheid – þar sem þeir reisa kynþáttamúra og beita Palestínumenn ótrúlegu harðræði, í skjóli Bandaríkjanna. Alltaf finna Bandaríkjamenn einhverja ástæðu til að réttlæta aðgerðir Ísraela. Á meðan Yasser Arafat var á lífi, var hann sagður standa í vegi friðar og eftir að hann leið er það Hamas.
Og viti menn, eftirfarandi var framlag utanríkisráðherra Íslands við umræðu um utanríkismál á Alþingi í vikunni sem leið: "Við fráfall Yassers Arafats skapaðist nýtt tækifæri til lausnar deilna Palestínumanna og Ísraelsmanna þar sem hann hafði um árabil verið talinn Þrándur í Götu friðar. Útlitið var nokkuð bjart, þar til þingkosningar voru haldnar á palestínsku heimastjórnarsvæðunum í lok janúar 2006 þar sem hin herskáu Hamas-samtök sigruðu..."

Nú berast þær fréttir að Evrópusambandið sé staðráðið í því að hætta öllum fjárhagsstuðningi við Palestínumenn. Það hafa Bandaríkjamenn þegar gert. Þetta kemur í ofanálag þess að Ísraelar sem innheimta skatta og tolla fyrir palestínsk yfirvöld neita að afhenda forsvarsmönnum hinnar hernumdu þjóðar peningana. Viðkvæðið er að Hamas séu öfgasamtök og eigi ekkert gott skilið.

20. február skrifaði ég m.a. eftirfarandi hér á vefsíðuna um þetta efni:

"Bandaríkin og Evrópusambandið taka þátt í nýjustu mannréttindabrotunum gegn palestínsku þjóðinni; hóprefsingu fyrir að kjósa yfir sig stjórn sem er ekki Ísrael og Bandaríkjastjórn að skapi. Hamas, sigurvegarar nýafstaðinna þingkosninga, voru þau samtök sem lengi vel héldu á loft hugmyndinni um sameinað ríki Palestínu; ríki sem héldi regnhlíf yfir bæði Ísraelum og Palestínumönnum. Frá þessari kröfu hefur Hamas horfið og viðurkennir nú í reynd landamærin frá 1967 í samræmi við yfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, nokkuð sem Ísrael gerir ekki! Í meira en ár hafa Hamas-samtökin haldið vopnahlé og í reynd viðurkenna þau Osló samkomulagið. Þá má geta þess að 75% af kjósendum Hamas vilja, samkvæmt skoðanakönnunum, friðsamlega sambúð við Ísrael.
Ismail Haniya, leiðtogi Hamas segist vilja frið. Þann mann eigum við að taka trúanlegan. Þann mann verður að taka trúanlegan. Það gerðu Palestínumenn í nýafstöðnum kosningum. Horfum í eigin barm. Hvernig værum við stemmd ef hvað eftir annað hefði verið ráðist á heimili okkar með eldflaugaárásum; sonur okkar myrtur og eiginkona lömuð. Við hefðum síðan orðið sigurvegarar í frjálsum kosningum þar sem þátttaka var 77% við eins erfiðar aðstæður og hugsast getur. Að kosningum loknum hefði okkur verið meinað að sækja þingfund – allt þetta af erlendu hernámsliði, sem segði að ófært væri að ræða við okkur því við neituðum að afvopnast! Nákvæmlega þetta er hlutskipti leiðtoga Hamas, Ismail Haniya.

Í rauninni er stórmerkilegt að slíkur maður skuli yfirleitt halda andlegri ró sinni. Nú um stundir virðist ekki við Hamas og  Ismail Haniya að sakast vegna ofbeldis. Nær væri  að spyrja ísraelsk stjórnvöld hvers vegna þau láti ekki af ofbeldinu?
En hvað með lýðræðið, á það bara við þegar niðurstaðan er stjórnendum heimsins í hag? Bandaríkjastjórn verður nú tíðrætt um
Venezuela Í Suður-Ameríku. Þar sé ekki nægileg virðing borin fyrir lýðræðinu (les: bandarískum hagsmunum)! Auðvitað væri þetta ekkert annað en hlægilegt ef málið væri ekki grafalvarlegt. Það er alvarlegt fyrir Íslendinga að horfa upp á fasismann og ofbeldið, sem Bandaríkin, þetta svokallaða bandalagsríki okkar, beitir alla þá sem ekki leggjast í duftið. Ekki batnar það þegar haft er í huga að ríkisstjórn Íslands lítur á stjórnarherrana í Washington sem alveg sérstaka bandamenn Íslands sem eftirsóknarvert sé að verji okkur fyrir öllu illu!
En hvað ætlar ríkisstjórn Íslands að
gera; horfa aðgerðalaus upp á ofbeldið og niðurlæginguna – það er að segja í Brussel og Washington – eða er kominn tími til að reka af sér slyðruorðið og rísa upp til varnar mannréttindum? Því miður óttast ég að sú ríkisstjórn sem nú situr muni aldrei hafa sig upp af hnjánum. Hún mun kvaka áfram um lýðræði og mikilvægi þess að standa vörð um vestræn gildi á sama tíma og þau eru fótum troðin…"

Því miður bendir ræða utanríkisráðherra, Geirs H. Haarde í vikunni sem leið til þess að þetta hafi verið orð að sönnnu.

Sjá nánar HÉR og HÉR.