Á SKAGAFJARÐARVÖKU: ÞAÐ ÞARF EKKI SKURÐGRÖFU TIL AÐ SETJA NIÐUR VORLAUKA
Í gærkvöldi sat ég kosningafund Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Skagafirði og flutti ég þar ávarp. Það gerði einnig oddviti framboðsins, Bjarni Jónsson. Hann leiðir lista kröftugrar sveitar og ferst það einkar vel úr hendi enda hefur Bjarni til að bera rökvísi, staðfestu og lipurð í mannlegum samskiptum. Bjarni fór í ræðu sinni yfir stöðu mála og hvatti félaga okkar til sóknar á lokasprettinum. VG hefur setið við stjórnvölinn í Skagafirði undanfarið kjörtímabil ásamt Sjálfstæðisflokki en sveitarstjórinn, Ársæll Guðmundsson, kemur úr röðum VG. Hann ákvað að gefa ekki kost á sér á komandi kjörtímabili. Ársæll hefur ásamt félögum sínum unnið gott verk á liðnum fjórum árum og almennt er hægt að segja að Skagfirðingum hafi farnast vel á kjörtímabilinu. Sérstaklega ber því að fagna að áformum um að virkja jökulárnar í Skagafirði í þágu stóriðju var hrundið og er það algerlega verk VG sem í Skagafirði sem annars staðar, stóð náttúruvaktina.
Í ræðu minni í gærkvöld fjallaði ég um það hömluleysi sem einkennir framgöngu ríkisstjórnarinnar í atvinnu- og stóriðjumálum. Henni væri fyrirmunað að setja málin í rétt umfang. Í því samhengi spurði ég :
"Ef þarf að reka nagla, af hverju að biðja um sleggju þegar hamarinn er rétta verkfærið? Ef þarf að setja niður vorlauka, af hverju er hringt eftir skurðgröfu þegar smáskófla nægir? Best er að stakkur hæfi vexti. Ef við þurfum í örvæntingu og í skyndi að útvega tvöþúsund Kínverjum vinnu, þá getur verið að álver sé lausnin. En það er bara ekki vandamálið. Það eru engir tvöþúsund atvinnulausir Kínverjar á Króknum, né heldur á Hofsósi.
Verkefnið í atvinnumálum felst í að skilgreina þarfirnar rétt og setja niður fyrir sér aðgerðir sem auðvelda Skagfirðingum að byggja upp atvinnu sem er arðbær. Sem skapar störf sem eru áhugaverð. Lausnin má ekki vera verri en vandamálið. Læknisaðgerðin má ekki drepa sjúklinginn.
Óspillt umhverfi er auðlind framtíðarinnar. Þeir sem vilja ráðast gegn umhverfinu skilja ekki framtíðina. Þeir eru ekki einu sinni að vitja nútímans, þeir eru fastir í fortíðinni einsog stígvél í leðju...Það þekkja allir viðhorf vinstri grænna til atvinnumála. Við viljum láta framtak heimamanna fá tækifæri og stuðning..."
Ég kom heim undir morgun. Hjá mér er þetta undantekning. Hjá mörgum landsbyggðarþingmönnum, mönnum á borð við Jón Bjarnason, þingmann VG í Skagafirði, er þetta hið daglega brauð. Á degi eins og þessum, þegar landið skartar sínu fegursta er það hins vegar gott daglegt brauð og unaður að njóta.