Fara í efni

Á TÍMAMÓTUM

agnes - oj - ofl loka
agnes - oj - ofl loka


Ávarp við setningu prestastefnu í Háteigskirkju
Hjá okkur stjórnmálamönnum markar byrjun og lok kjörtímabils ákveðin þáttaskil. Undangengið kjörtímabil hefur verið nokkuð stormasamt hjá þjóðinni og fyrir mig persónulega hefur það vissulega verið það - inn og út úr ríkisstjórn - en inná gaflinum  hjá íslensku þjóðkirkjunni hef ég verið  í tvö og hálft ár sem ráðherra kirkjumála.

Tvö og hálft ár. Er það langur eða skammur tími?  Tíminn er afstæður. Matthaís sagði okkur að á mælikvarða almættisins væru þúsund ár dagur ei meir.  Og afstæði tímans hefur birst okkur skýrt  á okkar tíð.

Stundum koma skeið í  mannkynsögunni og í sögu þjóða að ekkert virðist hreyfast í áratugi, jafnvel í árhundruð en síðan á örskotsstundu verður atburðarás bæði hröð og innihaldsmikil. Karl Marx sagði að í byltingum yrði þjóðfélagið sýnilegra en ella því þá kristsallaðist langtímaþróun í skýrum þjóðfélagsátökum en sem kunnugt er taldi hann að þjóðfélagið væri knúið áfram af átökum fylkinga, þeirra sem réðu yfir framleiðslunni annars vegar og hinna sem þjónuðu ráðastéttunum.

Ekki ætla ég mér þá dul að vita hvað knýr mannkynssöguna áfram, átök eða samvinna eða blanda af þessu tvennu en hitt þykist ég sjá að gangverkið er flóknara en ég taldi sem ungur maður og að hið huglæga í tilverunni skipar mikilvægari sess en ég áður taldi. Og það tel ég  víst að samfélagi sem leggur rækt við hin siðrænu gildi vegnar betur en hinu sem vanrækir þau.

En hverjir eiga að stunda hið andlega ræktunarstarf? Hverjir eru líklegastir til að geta haft áhrif til góðs? Stjórnmálamenn? Listamenn? Siðfræðingar? Fjölmiðlafólk og vísindamenn? Og ekki ætla ég að gleyma okkar nánustu, henni ömmu og að sjálfsögðu mömmu. Kannski hafa þær mest áhrif af öllum. Foreldrar okkar og fjölsyklda.

En kirkjan? Hún var jú beinlínis til þess stofnuð að hafa áhrif; hún var stofnuð til þess að hafa áhif á mannkynið til góðs - hræra strengi mennskunnar.
Hlutskipti hennar Sölku Völku lét engan mann ósnortinn. Það var vegna þess að listamaðurinn Halldór Laxness kunni að hræra hinn sammannlega streng - strenginn sem er til staðar hjá öllum, hinum milda og hinum harða - það er einmitt þetta sem gefur okkur vonina - að þessar tilfinningar eru til staðar  hjá hinum ósérhlífna sem og hinum eigingjarna.  Hann er þarna einhvers staðar þessi strengur, hjá okkur öllum eins og strengirnir í hörpu Davíðs Stefánssonar sem hann bað hina himinbornu dís að snerta og gæða lífi eins og fuglana sem hann skar úr furutré til að syngja í þá líf :


Þeir geta sumir synt á læk og tjörn,
og sumir verða alltaf lítil börn.
En sólin gyllir sund og bláan fjörð
og sameinar með töfrum loft og jörð.

Ég heyri í fjarska villtan vængjaþýt.
Um varpann leikur draumsins perluglit.
Snert hörpu mína, himinborna dís,
Og hlustið englar Guðs í Paradís.

Á fyrsta Kirkjuþinginu sem ég ávarpaði sem ráðherra kirkjumála haustið 2010 var mér hugleikin spurningin um andann og efnið. Boðskapinn og brauðið. Ég minnti á að í mannskynssögunni hefðu af og til verið gerðar tilraunir til þess að finna út hvort maðurinn gæti lifað á brauði einu saman; að Íslendingar hefðu nýlokið einni slíkri tilraun og að sú tilraun hefði ekki  heppnast vel.

Ég minnti á eftirminnileg orð járnfrúarinnar bresku, Margrétar Thatcher, sem nú er nýlátin, að græðgi væri góð. Og einnig á íslensku útgáfuna sem óneitanlega var mildari um að virkja bæri eignagleðina. Þannig var það orðað hér á landi.

Síðan sagði ég: „Í árþúsundir hafa trúarbrögðin, heimspekin og siðfræðin reynt að beisla hið illa með okkur og virkja hið góða. Þetta er eilífðarverk mannsins. Andvaraleysið er slæmt og ekki hjálpar þegar komið hefur bein hvatning um að virkja þær tilfinningar og hvatir sem við almennt teljum slæmar, ágirndina og eigingirnina.
Best vegnar samfélögum sem eru í góðu jafnvægi, þar sem mannréttindi eru í hávegum höfð, gagnkvæm virðing manna á milli, stofnanir þyka traustsins verðar, réttarkerfið nýtur virðingar og síðast en ekki síst siðleg gildi eru í hávegum höfð."

Það er semsagt breytnin sem öllu skiptir. Hvað sagði ekki Gandhi? Hann vildi að líf sitt yrði boðskapur sinn. Að breytni sín yrði sá vitninsburður sem horft væri til.

Í augum Gandhis þurfum við að varast siðlaus stjórnmál, samviskulausar nautnir, auðsöfnun í iðjuleysi, þekkingu án innihalds, viðskipti án siðferðis, vísindi án mannúðar, tilbeiðslu án kærleika - og fórnar.

Flókið, einfalt, satt, magnþrungið, djúpt, augljóst.

Og hlutverk þjóðkirkju Íslands, sem nýtur stuðnings meirihluta þjóðarinnar, er það ekki að sýna forystu með breytni sinni, að sýna aðgát í nærveru sálar, að vera holdgervingur þeirrar aðgátar? Alla hluti mannlega þarf að finna upp aftur og aftur einsog þeir séu líkami sem eldist og hrörnar og deyr. Alla baráttu þarf að hefja að nýju, aftur og aftur, því hlutskipti mannsins er að geta ekki skilað næstu kynslóð reynslu hinnar eldri. Einungis hin formlega menning skilar sér. Ekki reynslan, ekki tilfinningalegur skilningur. Og siðferðið? Það er erfitt að kenna siðferði, ef siðferðisstyrkinn vantar.

Og kirkjan er á þessum erfiðu landamærum: segir sögu af yfirburðum  og yfirmannlegum styrk en er sjálf mönnuð körlum  og konum, sem eru jafn breysk og mannleg og við hin.

Presturinn er einn og óstuddur. Presturinn er úti í mýri og ekki í vaðstígvélum. Presturinn er þjónn kirkju og samfélags og teygður milli beggja og er krafinn um breytni og siðferði sem okkur hinum er ofviða.

Eigum við að tala um peninga?

Þjóðkirkjan hefur verið aðþrengd á undanförnum árum, ekki síður en aðrar stofnanir samfélagsins. Aldrei hafa fulltrúar þjóðkirkjunnar vikið sér undan því að axla byrðarnar af efnahagshruninu sem þjóðfélagið mátti þola. Voru samningar Þjóðkirkjunnar og ríkisins endurskoðaðir með þetta að leiðarljósi ár hvert. Starfsmenn kirkjunnar skyldu taka á sig byrðar eins og aðrir. Hins vegar var á það bent að sóknargjöld kirkjunnar voru skorin meira niður en nánast allir aðrir þættir í rekstri en sóknargjöldin ganga sem kunnugt er til þess að fjármagna rekstur og starf á vegum kirkjunnar; starf sem allir skilja að kostar peninga - og þeir sem ekki vilja skilja það - gera það þegar á reynir, þegar náinn ættingi fellur frá og leika þarf á orgel undir söngnum í upphitaðri kirkjunni. Þessi  gjöld voru skorin niður meira en aðrir rekstrarþættir í þjónustu við landsmenn. Á þetta benti kirkjan og ég tók kalli hennar og í sameiningu unnum við að úttekt á þróun sóknargjalda í nefnd sem ég setti á fót undir forystu Ingibjargar Pálmadóttur, fyrrverandi alþingismanns og ráðherra. Ráðuneytið kom vel að þessari vinnu og vil ég nefna nafn Odds Einarssonar sérstaklega  í því sambandi. Þessi nefnd skilaði skýrslu sem þegar hefur haft áhrif til góðs og á enn eftir að gera það þannig að sóknargjöldin verði færð í það horf sem lögin í reynd alltaf hafa gert ráð fyrir.

Já, við getum talað um peninga. En við getum líka talað um hið góða, um breytni, siðferði og baráttuna fyrir betra mannfélagi. Að sjálfsögðu tölum við um allt þetta. Því íslensk þjóðkirkja er allt þetta. Hún er þúsund ára gömul.

Hún hefur sýnt að hún er ekki komin á leiðarenda. Hún kemst aldrei á leiðarenda. En hjá henni og hjá okkur sem eigum með henni samleið eins og ég hef átt sem ráðherra kirkjumála á undanförnum árum verða stundum tímamót. Og eins og ég gat um í upphafi míns máls þá stend ég nú á slíkum tímamótum. Hvað sem framtíðin ber í skauti sér vil ég nú þakka fyrir gott og gefandi samstarf á liðnum árum og óska Þjóðkirkjunni velfarnaðar á sinni braut.
http://kirkjan.is/2013/04/hlutverk-kirkjunnar-er-ad-syna-forystu-med-breytni/
http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/28518

 prestastefna 2013 - oj ræðustóll