Fara í efni

ÁBYRGÐ FJÖLMIÐLA


Góðir fjölmiðlar greina frá öllum hliðum mála; mismunandi sjónarhornum, mismunandi viðhorfum, og ræða við fleiri en einn viðmælanda til að fá fram fleiri víddir og örva umræðu ef því er að skipta. Þetta er gott. Þá gef ég mér að sjálfsögðu að markmiðið sé að draga upp sannverðuga mynd af viðfangsefninu.
Þegar hins vegar rætt er við fulltrúa Vítisengla, Hells Angels, Outlaws eða aðra hópa sem eru þekktir fyrir að beita ofbeldi, til að gefa þeim færi á að segja að þeir séu friðelskandi menn sem eigi ekki í stríði við einn eða neinn er hins vegar annað uppi á teningnum. Ef slík viðtöl eru ekki mjög gagnrýnin og með skýrum fyrirvörum þá er verið að gefa mönnum sem af ásetningi stunda glæpsamlega starfsemi, tækifæri til að villa á sér heimildir. Þetta er ekki góð fréttamennska; á meira að segja ekkert skylt við hana. Þetta er blekkingarleikur og með þessu móti gerast menn samsekir um að falsa veruleikann. Nákvæmlega þetta ástunda samtök á borð við Hells Angels; skapa falsímynd af sjálfum sér útávið á meðan ofbeldi er stundað í felum.

Ekki grín heldur hótun

Þegar fjölmiðlar birta fegrunarviðtöl við ofbeldismenn finnst mér ástæða til að staldra við. Ekkert síður en þegar birtar eru fréttir sem varla verða túlkaðar öðru vísi en sem beinar ofbeldishótanir. Ekki veit ég til dæmis hvað vakti fyrir Pressunni að birta eftirfarandi:
http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/fer-ekki-framhja-neinum-thegar-vid-verdum-fullgildir-i-hells-angels---ogmundur-faer-gyllinaed?page=2&offset=50
Eftir þessum sama talsmanni Hells Angels hefur verið haft á Pressunni að klúbbur hans hafi aldrei verið dæmdur sem klúbbur! Sem sagt, hvað er verið að abbast uppá blásaklaust fólk?
Og í Fréttablaðinu er sömuleiðis eftir sama manni að Hells Angels eigi ekki í stríði við neinn.
Einhverjir kunna að láta blekkjast af svona yfirlýsingum. Stöku manni kann að þykja það bara vera grín og sniðugt þegar gefið er til kynna að forsætisráðherrann og innanríkisráðherrann kunni að verða þess vör líkamlega þegar Hells Angels verði viðurkenndur aðili að alheimssamtökunum.

Fórnarlömbum ekki hlátur í huga

En þeim sem orðið hafa fyrir ofbeldi eða ógn um ofbeldi af hendi þessa hóps eða annarra ámóta sjá ekkert skondið við þetta. Mér er kunnugt um að fórnarlömbum  ofbeldisglæpa hefur óað við að sjá kvalara sína hafna upp til skýjanna í fjölmiðlum og þar með óbeint veitt samfélagslegt samþykki fyrir „hetjudáðir" í ofbeldsiheimum.
Almennt held ég að fjölmiðlamenn séu meðvitaðir um ábyrgð sína. Það er gott.