Að borga fyrir ýsuflakið frá í gær
Birtist í Morgunblaðinu 31.10.2003
Hvergi á byggðu bóli eru peningar eins rækilega tryggðir og á Íslandi. Víðast hvar annars staðar er verðgildi lánsfjármagns tryggt annað hvort með vísitölubindingu eða með breytilegum vöxtum. Báðar þessar aðferðir eru notaðar til að koma í veg fyrir að fjármagn rýrni að verðgildi. Þetta liggur í augum uppi varðandi vísitölubindinguna en breytilegir vextir þjóna sama hlutverki. Ef verðbólga eykst á lánstímanum eru vextirnir á láninu hækkaðir til samræmis. Á Íslandi vilja fjármagnseigendur gera meira en að hafa allt sitt á þurru með annarri hvorri þessari aðferð: Þeir vilja girða sig bæði með belti og axlaböndum, hafa vísitölubingu á lánunum og breytilega vexti. Þetta þýðir að raunvextirnir verða breytilegir. Á lánstímanum vilja lánveitendur geta rokkað upp og niður með vextina að eigin geðþótta. Þetta er hin almenna regla á íslenskum lánamarkaði. Ákvarðanir lánveitandans um breytilega raunvexti vísa aftur í tímann. Upphaflega var ákveðið verð á peningunum en síðan er lánveitandinn stöðugt að breyta þessu verði. Ég held það kæmi á margan manninn ef fisksalinn léti sér ekki nægja að láta hann borga fyrir ýsuna sem verið væri að kaupa þann daginn heldur kæmi líka rukkun fyrir ýsuna frá í gær eða fyrradag eða þá frá í fyrra. Fisksalinn hefði nefnilega ákveðið að breyta verðinu aftur í tímann! Þetta gengur náttúrlega ekki. Þess vegna er nú komið fram frumvarp á Alþingi sem bannar lánveitendum að hækka vexti á vísitölubundnum lánum eftir að lántakan fer fram. Þetta er þarft réttlætismál sem ég á erfitt með að trúa að verði saltað í nefnd.