AÐ HÆTTI MAFÍUNNAR?
Undanfarinn áratugur hefur verið áratugur einkavæðingar eða einkaframkvæmdar. Síðarnefnda fyrirbrigðið er upprunnið á Bretlandseyjum og er hugtakið notað um einkarekstur, sem byggir á opinberum framlögum. Hér á síðunni hefur oft verið fjallað um þessa tegund einkavæðingar og vísað í rannsóknarskýrslur, sem sýna ótvírætt fram á að einkavæðing af þessu tagi er dýrari fyrir skattgreiðandann en opinber fjárfesting. Það er hins vegar mikil freisting fyrir pólitíkusa að fara þessa leið því útkoma í bókhaldi ríkis eða sveitarfélags virðist hagstæðari fyrir þá sök að fjárfestingarlán er þar ekki að finna því þeim er fyrirkomið í bókhaldi hins einkarekna rekstraraðila. Þegar upp er staðið er reikningurinn hins vegar greiddur af hinu opinbera og hefur þessi skipan yfirleitt reynst miklu óhagkvæmari fyrir samfélagið.
Á þessu hagnast hins vegar einkaaðilar eins og fyrirtækið NÝSIR sem stærir sig af afrekum á þessu sviði á heimasíðu sinni. Nýsir situr að því leyti beggja vegna borðs að fyrirtækið og ráðgjafar þess ráðleggja einkavæðingu, bæði hér á landi og utan landsteinanna en taka síðan gjarnan að sér þau verkefni sem hafa verið færð upp á einkavæðingarfæribandið. NÝSIR ráðleggur þannig sjálfu sér til hagsbóta.
Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Gunnar Birgisson og Tony Blair
Í Morgunblaðinu í dag segir frá samstarfi NÝSIS og Mosfellsbæjar um að reisa nýja íþróttamiðstöð í bæjarfélaginu. Fróðlegt væri að sjá þá útreikninga sérfræðinga Mosfellsbæjar, sem gefa bæjarstjóranum tilefni til að fullyrða eftirfarandi: “Sparnaður sveitarfélagsins vegna þessa samnings er áætlaður á um fimmta hundrað milljónir króna, en áformað er að hefja rekstur miðstöðvarinnar næsta sumar”. Bæjarstjórinn, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, segir bæjarfélagið spara “á annan tug milljóna á ári.”
Þetta er aldeilis frábært: Bæjarfélagið græðir, Nýsir græðir, allir græða! Alveg eins og Tony Blair sagði í Bretlandi og segir jafnvel enn um einkaframkvæmd af þessu tagi. Verst er að allar rannsóknir benda í aðra átt. Athygli vekur að eitt bæjarfélag sker sig úr hvað þessa stefnu áhrærir, þ.e. Kópavogur. Þar er bæjarstjórinn Gunnar Birgisson. Gunnar er íhald af guðs náð. En hann er líka bisnissmaður. Gæti það verið skýringin á því að erfiðara er að beita hann sjónhverfingum?
NÝSIR og bisnissmenn á hvítum sloppum
Annars var það ekki þetta sem ég staðnæmdist við í frásögn Morgunblaðsins, heldur sú staðhæfing að samningurinn við NÝSI hafi það í för með sér, að “sveitarfélagið kemst hjá árekstrum við einkaaðila í rekstri á almennum markaði.” Hvað er átt við með þessu? Við vitum að Samtök atvinnulífsins, Verslunarráðið og ýmsir hagsmunaaðilar á markaði stunda nánast ofsóknir á hendur opinberri starfsemi. Þessir aðilar vilja komast yfir hana, ekki síst ef tryggt er að hún verði fjármögnuð með opinberu fé. Þetta er auðveldasta tekjulind sem hugsast getur! Við sjáum þennan darraðardans nú í heilbrigðisþjónustunni þar sem bisnissmenn á hvítum læknasloppum fara nú offari.
Ber ekki að virða lýðræðislegar ákvarðanir?
Svo er að skilja að í Mosfellsbæ komi menn til með að hafa allt sitt á þurru. Með öðrum orðum, ef samið verði við NÝSI þurfi aldeilis ekki að hafa áhyggjur af ofsóknum af þessu tagi. Mosfellsbær sé einfaldlega kominn inn í verndað umhverfi. Þetta minnir svolítið á Al Capone, hinn alræmda mafíuforingja og félaga hans á bannárunum í Bandaríkjunum. Þeir veittu vernd gegn mönnum af sama sauðahúsi og þeir voru sjálfir, nema það hafi einmitt verið gegn sjálfum sér sem þeir buðu verndina? Þetta eru náttúrlega bara hugrenningatengsl en hvaða árekstra “við einkaaðila í rekstri á almennum markaði”, skyldu forsvarsmenn Mosfellsbæjar og NÝSIS eiga við, en það er einmitt vitnað í þeirra yfirlýsingar hvað þetta varðar? Og hvað segir þetta okkur um hugmyndir þessa fólks um lýðræði? Það er ákvörðun út af fyrir sig að einkavæða almannaþjónustuna. Við tökumst á um það í lýðræðisþjóðfélagi og til verður niðurstaða, sem við verðum að sætta okkur við ef hún er lýðræðislega tekin. Ef meirihlutinn og fulltrúar hans vilja á hinn bóginn fara gagnstæða leið og efla samfélagslegan rekstur, á þá ekki að virða þá ákvörðun? Er eðlilegt að haft sé þá í hótunum um að slíkt muni kalla á árekstra og átök við fyrirtæki sem ásælast þennan markað?