Fara í efni

AÐ HORFAST Í AUGU VIÐ AFLEIÐINGAR EIGIN VERKA

Aldrei hef ég efast um heilindi Halldórs Blöndals, fyrrum alþingismanns, ráðherra og forseta Alþingis. Hann hefur ætíð unnið landi og þjóð af heilindum og samkvæmt bestu samvisku. Það treysti ég mér til að fullyrða. Það breytir ekki hinu að oftar en ekki hef ég verið á öndverðum meiði við Halldór í pólitískri orrahríð undangenginn hálfan annan áratug eða frá því Sjálfstæðisflokkurinn komst til valda í Stjórnarráðinu vorið 1991.
Í mjög svo athyglisverðri grein sem birtist eftir Halldór í Morgunblaðinu í dag kveður við gamalkunnan tón þegar höfundur gerir upp undangengið valdaskeið Sjálfstæðisflokksins. Þjóðfélagið hafi verið opnað fyrir markaðsöflunum, einkavætt hafi verið ekki bara fjárfestum heldur einnig neytendum til hagsbóta: "Fjármagnsflutningar eru frjálsir og hlutabréfamarkaðurinn blómstrar, ríkisbankarnir einkavæddir og stóriðjuvæðingin á fljúgandi ferð."
En bíðum við. Eitthvað er ekki eins og það á að vera. Augljóst er að þrátt fyrir aðfararorðin um ágæti verka Sjálfstæðisflokksins er greinin skrifuð til að hvetja til endurmats á þeirri stefnu sem flokkurinn hefur fylgt við landstjórnina frá því í byrjun tíunda áratugar síðustu aldar:

Stöldrum við

"Nóg er nú. Oftar en ekki eru þessi orð komin fram á varir mínar síðustu daga. Atburðarásin hefur verið hröð og mótsagnakennd. En eitt hefur þó skýrst í huga mér, sú sannfæring mín, að orkulindirnar megi ekki vera til sölu né orkuverin, – ekki Landsvirkjun, ekki Orkuveita Reykjavíkur, ekki Norðurorka og ekki Hitaveita Suðurnesja. Við Íslendingar búum við ódýra orku, sem skýrir góð lífskjör hér á landi. En orkulindirnar eru ekki ótæmandi. Við skulum ganga vel um þær og hafa þær í vörslu þjóðarinnar sjálfrar. Við höfum séð það á síðustu dögum, að fjárfestar eru ekki endilega að hugsa um almannahag í skiptum sínum við ríki og borg, heldur vilja þeir ávaxta sitt pund....

Gráðugir sanka að sér jörðum

...Hið sama á raunar við um jarðnæðið. Framundir þetta hef ég beitt mér fyrir því að ríkisjarðir séu seldar og ber ábyrgð á nokkrum sölum. En síðustu ár og misseri hafa einstakir menn sankað að sér jörðum með skipulögðum hætti, orðið gráðugir. Vitaskuld var tími til kominn að bændur fengju gott verð fyrir jarðir sínar. En á hinn bóginn geta fæstir fellt sig við að nær allt jarðnæði á Íslandi verði í höndum fárra spekúlanta. Þess vegna er ég andvígur því nú, að ríkisjarðir séu seldar í bráð....

Siðferðileg skylda

...Nú reynir á nýja meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur að hann taki höndum saman við sjálfstæðismenn um að ógilda samninginn milli Orkuveitunnar og Geysir Green Energy. Það er siðferðileg skylda."
Undir þessi orð Halldórs Blöndals vil ég taka. Það er rétt að " að fjárfestar eru ekki endilega að hugsa um almannahag..."
Hvers vegna skyldum við, sem barist höfum gegn einkavæðingarstefnu Sjálfstæðisflokksins, hafa gert það? Við höfum einfaldlega viljað vernda almannahag gegn ágangi fjármagnsins. Við höfum viljað koma í veg fyrir að peningamenn sem stjórnast af skammtíma eiginhagsmunum fengju ráðið lögum og lofum í íslensku þjóðfélagi. Okkar barátta hefur þannig verið barátta fyrir lýðræði. Við höfum viljað búa í fjölþátta lýðræðisþjóðfélagi með blönduðu hagkerfi en ekki þjóðfélagi sem í einu og öllu lýtur valdi auðsins. Hvað röksemdirnar áhrærir þá er það umhugsunarvert að þeir þættir sem Halldór Blöndal nefnir í grein sinni, eftir að lýkur lofgjörð hans um Davíð Oddsson og félaga, eru nákvæmlega sömu rök og við höfum haldið fram í málafylgju okkar.

Nú er að draga lærdómana

Grein Halldórs Blöndals er þakkarverð. Þar er að finna orð í tíma töluð. Þótt Halldór segi ekki berum orðum að sjálfstæðismönnum beri að horfast í augu við afleiðingar stefnu sinnar og eigin verka þá gerir hann það óbeint. Enda ber grein hans titilinn: Drögum lærdóm af síðustu atburðum.
Það skulum við gera.  

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Eftrifarandi er Morgunblaðsgrein Halldórs Blöndals:

Drögum lærdóm af síðustu atburðum 
Síðan ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tók við völdum vorið 1991 hafa orðið þvílíkar framfarir hér á landi, að sá maður sem síðast mundi eftir sér á dögum síðustu vinstri stjórnar yrði eins og úti á þekju í dag. Fjármagnsflutningar eru frjálsir og hlutabréfamarkaðurinn blómstrar, ríkisbankarnir einkavæddir og stóriðjuvæðingin á fljúgandi ferð. Íslenskir fjárfestar eru í útrás. Nýir möguleikar blasa við hvarvetna, en auðvitað er ekki allt til sölu. Fjárfestar eru gott orð og innihaldsríkt. Þar sem frjáls samkeppni nýtur sín eru þeir í essinu sínu, enda rennur hluti af afrakstrinum til neytendanna með lægra verði fyrir vöru og þjónustu. En að sjálfsögðu á það ekki við í fákeppni né um náttúruauðlindir og þau gæði sem takmörkuð eru.
Nóg er nú. Oftar en ekki eru þessi orð komin fram á varir mínar síðustu daga. Atburðarásin hefur verið hröð og mótsagnakennd. En eitt hefur þó skýrst í huga mér, sú sannfæring mín, að orkulindirnar megi ekki vera til sölu né orkuverin, – ekki Landsvirkjun, ekki Orkuveita Reykjavíkur, ekki Norðurorka og ekki Hitaveita Suðurnesja. Við Íslendingar búum við ódýra orku, sem skýrir góð lífskjör hér á landi. En orkulindirnar eru ekki ótæmandi. Við skulum ganga vel um þær og hafa þær í vörslu þjóðarinnar sjálfrar. Við höfum séð það á síðustu dögum, að fjárfestar eru ekki endilega að hugsa um almannahag í skiptum sínum við ríki og borg, heldur vilja þeir ávaxta sitt pund. Af þeim sökum skall á orkukreppa í Kaliforníu fyrir nokkrum árum. Fjárfestarnir vildu ná sem mestum arði með sem minnstum tilkostnaði. Reglur, sem tryggja áttu næga orku við hóflegu verði, voru ekki nógu skýrar og aðhald ónógt. Og hinum almenna borgara blæddi. Augljóst er, að andstaða við nýjar virkjanir mun fara í áður óþekktar hæðir, ef afraksturinn verður reiddur fram í matadorpeningum.
Hið sama á raunar við um jarðnæðið. Framundir þetta hef ég beitt mér fyrir því að ríkisjarðir séu seldar og ber ábyrgð á nokkrum sölum. En síðustu ár og misseri hafa einstakir menn sankað að sér jörðum með skipulögðum hætti, orðið gráðugir. Vitaskuld var tími til kominn að bændur fengju gott verð fyrir jarðir sínar. En á hinn bóginn geta fæstir fellt sig við að nær allt jarðnæði á Íslandi verði í höndum fárra spekúlanta. Þess vegna er ég andvígur því nú, að ríkisjarðir séu seldar í bráð. Það liggur ekkert á. Við skulum doka við og sjá hverju fram vindur.
Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur féll eftir sameiningu REI og Geysir Green Energy. Reykjavík Energy Investment skal hið nýja fyrirtæki heita, enda samningurinn og gögn málsins lögð fram á ensku í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur. Það var ekki gott.
Það er regla, að útboðslýsingar vegagerðarinnar vegna verkframkvæmda og verksamningar skuli vera á íslensku við hvern sem er að eiga. Í flókinni samningagerð geta blæbrigði og margbreytileiki málsins skipt sköpum um skilninginn. Margrét Jónsdóttir, forstöðumaður alþjóðasviðs Háskólans í Reykjavík, ráðlagði það í morgunútvarpinu á dögunum að ef Íslendingar ættu viðskipti við Dani skyldu þeir tala dönsku til að kynnast þeim en samningarnir ættu að vera á ensku, af því að ella væru Danirnir á heimavelli og hefðu þess vegna betri samningsstöðu. Fjárfestarnir í Geysir Green Energy voru þaulvanir samningagerð á ensku. Það er ekki hægt að hlaupa í það skjól, að enska sé alþjóðlegt viðskiptamál, þegar fyrirtæki borgarinnar gerir samning við íslenskt fyrirtæki.
Á dögunum sá ég í Reykjavík auglýst eftir starfsfólki á íslensku og ensku. Þar var þessi klausa: "Góð enskukunnátta er skilyrði og einhver íslenskukunnátta er góð, en ekki nauðsyn." Samfélagið hefur svo sannarlega breyst, en eigandanum er vorkunn. Íslenskt afgreiðslufólk hefur ekki fengist og því hefur hann tekið enskuna fram aðrar erlendar tungur af því að hann skildi hana. En það var af illri nauðsyn, en ekki til að skapa sér yfirburði eins og tilfellið var um Geysir Green Energy.
Nú reynir á nýja meirihlutann í borgarstjórn Reykjavíkur að hann taki höndum saman við sjálfstæðismenn um að ógilda samninginn milli Orkuveitunnar og Geysir Green Energy. Það er siðferðileg skylda. Ég tek undir með Geir H. Haarde forsætisráðherra. Það getur verið í lagi að gera samninga til 20 ára, en ekki einkaleyfissamninga til 20 ára. Þess vegna finnst mér sá þáttur í málinu nánast óhæfa. Um hinn nýja borgarstjóra vísa ég til þess sem hann sagði í sjónvarpsviðtali fyrir nokkrum dögum: "Ég hef þroskast mikið." Og Björn Ingi. Guð láti gott á vita.