Að kaupa sig frá eigin verkum
Birtist í Mbl
Á Íslandi styrkir skattborgarinn starfsemi stjórnmálaflokkanna. Fyrir þessu eru ágæt rök. Stjórnmálaflokkar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðisþjóðfélagi. Það kostar sitt að halda uppi stjórnmálastarfi, afla gagna og vinna úr þeim, efna til funda og ráðstefna, gefa út blöð og koma upplýsingum á framfæri. Þetta eru rökin fyrir því að skattfé er varið til stjórnmálaflokkanna. Almenningur hlýtur að ætlast til þess af stjórnmálaflokkunum að þeir ráðstafi þessum peningum af ábyrgð.
Styrkjum til stjórnmálaflokka er þannig varið að stærstu flokkarnir fá mest í sinn hlut, hinir smæstu minnst. Á síðasta þingi var tekin ákvörðun um að smæstu flokkarnir, jafnvel þeir sem ekki fengju menn kjörna á þing en næðu þó tilteknu lágmarki í kjörfylgi, skyldu fá stuðning til að standa straum af stjórnmálastarfi og þar með kostnaði sínum við kosningabaráttuna. Þetta er framfaraspor að okkar dómi.
Peningar frá almenningi
Eftir stendur að sjálfsögðu að stærstu flokkarnir hafa úr mestu að moða og það sem meira er, þeir eru líklegri en hinir smærri til að njóta velvildar fjársterkra aðila í þjóðfélaginu. Við þessu er lítið að gera fyrir skattborgarann annað en fylgjast með því af hve mikilli ábyrgð, eða ábyrgðarleysi eftir atvikum, fjármunum er varið. Ágætt er að fólk hafi í huga að þessir peningar eru að verulegu leyti frá því sjálfu komnir.
Á seinni tímum hefur það færst mjög í vöxt að stjórnmálaflokkar og einstakir stjórnmálamenn beiti auglýsingum til að koma sér á framfæri. Í sjálfu sér getur þetta verið gagnlegt og í sumum tilvikum hafa auglýsingar orðið til að kveikja málefnalega umræðu í þjóðfélaginu og vakið athygli á mönnum og málstað og þannig orðið til góðs. Dæmi um þetta er auglýsingaherferð Öryrkjabandalagsins og eldri borgara sem á markvissan hátt hefur skapað gagnlega umræðu í þjóðfélaginu um stöðu öryrkja og aldraðra.
Auglýsingar geta einnig haft gagnstæð áhrif og er því miður iðulega beitt til að afvegaleiða og rugla fólk í ríminu. Ljóst er að áhrif sölumennsku fara vaxandi í íslenskri stjórnmálaumræðu og í fjölmiðlum undanfarna daga hafa sérfræðingar skipst á skoðunum um hvernig til hafi tekist að koma "vörunni" á framfæri og er þar vísað til stjórnmálamanna og stjórnmálaflokka en ekki til málefna.
Þeir stjórnmálaflokkar sem ráða yfir digrum sjóðum auglýsa nú án afláts til að kaupa sér jákvæða ímynd. Þeir stæra sig af árangri sem oft á tíðum á ekki við rök að styðjast og reynslan sýnir að fyrirheit auglýsinganna reynast oftar en ekki án innistæðu. Auglýsingar sem eru gerðar til þess eins að kasta ryki í augu kjósenda rétt fyrir kosningar eru ekki til þess fallnar að örva málefnalega umræðu og því ekki lýðræðinu til framdráttar.
Tökum málefnalega afstöðu
Vinstrihreyfingin grænt framboð hvetur þjóðina til að beita gagnrýni á stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka svo þeir komist ekki upp með að kaupa sig frá eigin verkum og villa mönnum sýn. Stjórnmálamenn á að dæma af verkum þeirra og á grundvelli þeirrar stefnu sem þeir hafa fram að færa. Vinstrihreyfingin grænt framboð hefur sett fram ítarlega og innihaldsríka stefnu og hefur framboðið staðið fyrir ótal málefnafundum í aðdraganda kosninganna. Því starfi verður haldið áfram og er vakin athygli á því að málefnafundirnir munu standa fram yfir kosningar. Við munum auglýsa menn og málefni af hófsemi og látum kjósendur um að taka afstöðu á málefnalegum grunni.
Ögmundur Jónassson og Kolbrún Halldórsdóttir