AÐ KOMAST INN Í HEIM HEYRNARLAUSRA
Í kvöld sá ég frábæra leiksýningu í Hafnarfjarðarleikhúsinu. Það var sýning Draumasmiðjunnar í samstarfi við Hafnarfjarðarleikhúsið á Viðtalinu, eftir þær Lailu Margréti Arnþórsdóttur og Margréti Pétursdóttur. Þessi sýning er það sem kallað er Döff leikhús en það hefur verið þýtt sem "leikhús heyrnarlausra"
Döff er heyrnarlaus á táknmáli, segir í leikskrá. Um slíkt leikhús segir þar ennfremur: "Þá er ekki endilega átt við að allir leikararnir séu hreyrnarlausir en eitt af skilyrðunum er að minnsta kosti einn leikari í sýningunni sé heyrnarlaus. Annað skilyrði fyrir því að geta kallað leikhús Döffleikhús er að hún sé aðgengileg heyrnarlausum áhorfendum annað hvort eingöngu eða til jafns við heyrandi áhorfendur...Sú staðreynd að Döff-leikhús speglar veruleika og menningu heyrnarlausra, á þann hátt sem leikhús heyrandi getur aldrei gert, gerir það sérstakt og nauðsynlegt fyrir íslensku menningar- og listaflóruna."
Undir þetta vil ég taka. Þetta er ekki aðeins mikilvægt fyrir heyrnarlausa og þeirra menningu heldur ekki síður hina heyrandi, að komast inn í heim heyrnarlausra eins og haft var á orði í Viðtalinu.
Leikritið orkaði sterkt á mig – vel upp byggt og leikurinn góður. Nú hef ég í langan tíma haft áhuga á málefnum heyrnarlausra og talið mig all-meðvitaðan um þau. Á sýningunni rann upp fyrir mér hve mikið vantar þar uppá! Leikritið segir frá tveimur mæðgum sem fyrst byrja að ræðast við sem einstaklingar á jafnræðisgrundvelli þegar dóttirin, sem er heyrnarlaus, er komin á fullorðinsaldur. Dóttirin talar táknmál en móðirin ekki. Þegar mæðgurnar fara að ræðast við með aðstoð túlks opnast nýjar víddir í tilverunni og margt frá liðinni tíð fær nýja merkingu. Það verður móðurinni áfall að fá innsýn í heim dóttur sinnar. Hún hafði alla tíð elskað hana og dáð og viljað henni allt hið besta. Móðirin hafði hins vegar verið haldin ýmsum ranghugmyndum en smám saman byrja augu hennar að opnast fyrir þeim fordómum sem hún hafði verið haldin. Það held ég að hafi einnig gerst hjá mörgum áhorfandanum. Ég var alla vega í þeim hópi og fyrir það er ég þakklátur