AÐ LOSA ÞJÓÐINA VIÐ LANDIÐ OG LANDIÐ VIÐ ÞJÓÐINA
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 08/09.23.
Sú var tíðin að til tals kom að losa Ísland við þá þjóð sem bjó í landinu eða öllu heldur að losa þjóðina við Ísland, land íss og elda. Landið hafði reynst Íslendingum svo erfitt að varla yrði lagt meira á þá og þess vegna ef til vill skástur kostur að flytja allan mannskapinn suður á Jótlandsheiðar sambærilegt við flutning á sauðfé af rýrum afrétti á annan grösugri. Á Jótlandi væru hvorki eldfjöll né hafís og þótt jarðvegur á heiðunum dönsku væri ekki talinn vera gjöfull þá væri hann varla nískari en gerðist hér norðurfrá.
Þetta var eftir Móðuharðindin sem fylgdu eldgosinu í Lakagígum undir lok 18. aldar. Af völdum Móðuharðindanna varð mikill mannfellir, þjóðinni fækkaði um fimmtung, úr tæpum fimmtíu þúsund í innan við fjörutíu þúsund manns og búféanði fækkaði um enn hærra hlutfall. Tæplega tólf þúsund nautgripir, hundrað og áttatíu þúsund fjár og tuttugu og átta þúsund hross féllu. Áhrifanna gætti um allt land enda öskufall gríðarlegt og móðan svo mikil að skýrir þá nafngift sem harðindin fengu.
Ekki voru þessar hörmungar einsdæmi í Íslandssögunni. Í Landnámabók segir frá því að á árinu 976 hafi “úaldarvetur” verið á Íslandi. “Þá átu menn rafna og melrakka, og mörg úátan ill var etin, en sumir létu drepa gamalmenni og ómaga og hrinda fyrir hamra. Þá sultu margir menn til bana ...”
Í Mannfækkun af hallærum Hannesar biskups Finnssonar, sem út kom eftir Móðuharðindin, er saga hörmunga á Íslandi rakin og samfléttuð fornsögunum sem væru þær nánast úr samtímanum. Hannes segir svo dæmi sé tekið: “Við 985 set ég hallærið sem fékk Hallgerði Höskuldsdóttur til að láta stela matnum á Kirkjubæ.”
En alltaf reis þjóðin úr öskustónni þótt ekki gerðist það án baráttu og hvatningar bestu manna. Landið var fagurt og frítt og er enn, sagði í herhvöt Jónasar Hallgrímssonar.
Árið 2009 í kjölfar bankahrunsins skrifaði Guðmundur Jónsson sagnfræðingur athyglisverða grein í Sögu, tímarit Sögufélagsins, um efnahagskreppur á Íslandi. Þar vitnar hann í fyrrnefnt rit Hannesar biskups og segir að skrif hans hafi þrátt fyrir allt hörmungartalið haft jákvæðan boðskap að flytja: "En þó Ísland sé hallærasamt, þá er það ei óbyggjandi, þau góðu árin eru miklu fleiri en þau hörðu; líka og, þó á vorri tíð hafi áfallið stórharðindi, þá hafa forfeður vorir, hvörja oss er svo tamt að prísa miklu sælli en vér erum, haft aungu minni né færri harðæri að reyna; hefir landið þó þess á milli oftast náð sér aftur, fætt sín börn og framleitt margan merkismann..."
Tilefni rannsóknar Guðmundar Jónssonar var bankakreppan sem þá reið yfir landið og spyrja má hvort eitthvað svipað hafi vakað fyrir honum og Hannesi biskupi fyrr á tíð, að setja yfirstandandi vanda í sögulegt samhengi og minna okkur þar með á að sagan kenni að eftir dimma daga hafi ætíð birt á ný. Sannast sagna flögraði þessi hugsun að mér líka þegar ég sá að það var árið 1970 sem þeir Jón Eyþórsson og Jóhannes Nordal réðust í að gefa út rit Hannesar biskups, Mannfækkun af hallærum. Á þeim tíma þurftu Íslendingar á því að halda að stappa stálinu hver í annan. Það vita þeir sem muna síðustu ár sjöunda áratugar síðustu aldar en þá reið yfir alvarleg kreppa, sem átti upptök í sjávarútvegi, með fjöldaatvinnuleysi og brottflutningi af landinu.
Í formála sínum að ritinu fjallaði Jóhannes Nordal um þrengingar 18. aldarinnar og sagði þar það hafa verið "gæfa íslenzku þjóðarinnar" að brotna aldrei undan fargi erfiðleika sinna, heldur hafi hún risið "til viðnáms og til undirbúnings þeirrar sóknar, er átti eftir að leiða hana út úr ógöngum..." Jóhannes segir að Mannfækkun af hallærum sé "varnarrit fyrir tilverurétti íslenzku þjóðarinnar og trúnni á landið og lífsgæði þess, ritað þegar hvort tveggja var dregið í efa bæði af Íslendingum sjálfum og þeim útlendu mönnum, er örlögum hennar réðu".
Það var einmitt tilveruréttur íslensku þjóðarinnar sem skyldi varinn, þess hóps manna sem byggir þetta land, þeirra sem hafa tileinkað sér íslenska menningu, tala íslenska tungu og telja það einhvers virði að viðhalda hvoru tveggja.
Allt þetta er nú í hættu, einfaldlega vegna þess að svo fjölgar okkur eyjaskeggjum að heita má að verið sé að skipta þjóðinni út, að losa landið við fyrri þjóð og fá nýja í staðinn. Í verslunum, á veitingahúsum, á söfnum, nánast alls staðar í ferðaþjónustu, byggingariðnaði eða öðrum greinum sem tengjast hraðvexti efnahagslífsins er oftar en ekki enginn sem talar eða skilur íslensku.
Íslenskt samfélag hefur ekki alltaf verið gott við alla, samanber tilvitnun að framan í Landnámabók. En samfélag hefur þetta verið engu að síður vegna þess að þannig höfum við viljað hafa það.
En er það svo enn að allir vilji að hér sé samfélag? Finnst ráðandi öflum ekki meira virði að geta grætt sem mest og sem hraðast, flutt inn þræla til að vinna öll leiðinlegu störfin, skítt með húsnæði þessa fólks, börnin þess, möguleika til að ganga inn í íslenskt velferðar- og meningarsamfélag?
Þegar þrengir að, sem mun gerast af og til í sveiflum kapítalismans, þá verður þessu fólki fyrst hrint fram af hömrunum. En ætlum við að láta það gerast?
Tökum valdataumana úr höndum gróða- og þensluaflanna, hægjum á, verjum það besta sem við eigum, samfélagið.
Í kaupbæti fáum við að halda í íslenka tungu og íslenska menningu.