Fara í efni

AÐ SEGJA ALLT SEM SEGJA ÞARF

Fiskvinnsla
Fiskvinnsla

Kristján Loftsson, stjórnarformaður Granda, hefur birst okkur í fréttum á undanförnum dögum í sérkennilegu hlutverki.

Sem kunnugt er stendur nú yfir atkvæðagreiðsla um verkfall hjá Starfsgreinasambandinu, þar sem er að finna láglaunafólk m.a. úr röðum viðsemjenda Granda og annarra fiskvinnslufyrirtækja í landinu. Kristján hefur hagað máli sínu á þann veg að fólk flykkist á kjörstað að greiða verkfalli atkvæði sitt hvert sinn sem hann opnar munninn.

Það er gott til þess að vita að fólk sé ekki reiðubúið að sitja aðgerðalaust undir móðgunum og háðsglósum stjórnenda.

Stjórnarformaður Granda stærir sig af arðgreiðslum til eigenda fyrirtækisins sem nema tæpum þremur milljörðum króna og einnig af ákvörðun um að hækka greiðslur til stjórnarmanna um þriðjung. Þykir honum þetta fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt og tilefni til að glotta inn í sjónvarpsvélarnar. Hvetur hann til þess að horft sé til annarra stjórna í hlutafélögum þar sem menn fái enn hærri greiðslur fyrir að sitja í stjórn. Með öðrum orðum, hann vill að menn leiti samanburðar í þeim heimi sem hann hrærist í sjálfur.

Ekki vill Kristján Loftsson gangast inn á að beita slíkum samanburðarfræðum innávið til þeirra sem skapa honum verðmætin upp í hendurnar og nú krefjast þess að fá greiddar þrjú hundruð þúsund krónur í mánaðarlaun. Ekki í dag og ekki á morgun. Því marki á að ná á þremur árum! Sjálfur fær Kristján nú fjögur hundruð þúsund krónur í hverjum mánuði fyrir að gegna stjórnarformennsku.

Fyrir daga uppeldisfræðinnar hefði einhver sagt að svona menn ætti að rassskella. Bót í máli að þeir gera það sjálfir; segja sjálfir allt sem segja þarf.

Einn stjórnarmaður í Granda hefur neitað að taka við hækkuninni. Það er Rannveig Rist, álforstjóri. Hún segir réttilega að ekki gangi að hækka greiðslur til stjórnenda á meðan ekki eru bætt kjör  almennra starfsmanna. Þetta er hárrétt og til fyrirmyndar.

Haft var á orði í sjónvarpsþætti að forstjóri álversins væri á himinháum launum og munaði ekki um að verða af fimmtíu þúsund krónum á mánuði. Þetta er eflaust rétt. En minnumst þess að yfirleitt á það fólk sem hefur mest handa á milli erfiðast með að sjá af svo mikið sem einni krónu! Síðan er það hitt að ákvörðun Rannveigar Rist gengur þvert á ókurteisi stjórnarformanns Granda; yfirlýsing hennar slær mig sem eins konar afsökunarbeiðni fyrir hönd stjórnenda Granda! Þess vegna skiptir hún máli.

Nú þarf að fylgja þeirri afsökunarbeiðni eftir með því að samþykkja hófsamar og sjálfsagðar kröfur Starfsgreinasambandsins.

En meira þarf til. Hálauna Ísland þarf að lækka við sig greiðslur og komast þannig í kallfæri við samfélag sitt. 

Það er mikið rétt sem oft er sagt að launahækkanir yfir alla línuna án þess að raska hlutföllum gerir engan gæfumun þegar upp er staðið. Það eru hlutföllin í lífskjörum þjóðfélagshópanna sem þurfa að breytast.

Á Íslandi eru forsendur til þess að við lifum öll bærilegu lífi. Það gera þó ekki allir. Því þarf að breyta.