Fara í efni

AÐ ÞESSU SINNI SAMMÁLA DAVÍÐ

Nokkuð hefur verið talað um málþóf á Alþingi í tengslum við stjórnarfrumvarpið um RÚV ohf. Þeir sem raunverulega hafa fylgst með framvindunni vita að þetta er ósanngjörn ásökun.
Í fyrsta lagi er það ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn sem stendur í vegi fyrir því að samkomulag náist um framtíð Ríkisútvarpsins. Í öðru lagi er rétt að minna á að stjórnarandstöðunni hefur í tvígang tekist einmitt með langri umræðu að koma í veg fyrir vanhugsuð og stórskaðleg stjórnarfrumvörp um Ríkisútvarpið.
Stjórnarandstöðunni tókst einnig að fresta gildistöku Vatnalaganna með langri umræðu. Það þýðir að þjóðin fær nú í vor tækifæri til að kjósa um þann umdeilda lagabálk.

Enda þótt þingmenn VG leggðu sig alla fram um að koma í veg fyrir Kárahnjúkaslysið tókst ekki að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál. Þar var VG eitt á báti og mátti ekki á endanum við margnum.

Iðulega hefur flokknum þó tekist með harðfylgi á þingi að hafa jákvæð áhrif á umdeild þingmál. Stundum hefur það kallað á langa umræðu. Hinu má svo ekki gleyma að um yfirgnæfandi meirihluta þingmála ríkir breið sátt og fer lítið fyrir umræðu um þau utan þess sem gerist á fundum viðkomandi þingnefnda.

Það eru umdeildu málin sem kalla á athygli. Langar umræður á Alþingi eru einmitt oftar en ekki tilraun til að ná eyrum þjóðarinnar í málum sem stjórnarandstaðan telur skaðleg og brjóta í berhögg við þjóðarvilja.

Annað veifið heyrast þær raddir að banna eigi þingmönnum að hafa langt mál um slík mál. Það væri mikið óráð. Eða vilja menn virkilega að kæfa stjórnmálaumræðu í landinu? Þöggun á þingi myndi vera skref í þá átt. Um þetta efni þótti mér Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra, mælast vel í þjóðhátíðarræðu sinni á Austurvelli árið 2000:

"En það liggur í eðli stjórnmálabaráttunnar að menn stilla upp andstæðum og gera sem mest úr því sem á milli ber, enda þarfnast það sem er ágreiningslaust ekki skýringa. Þjóðin þarf þó ekki að velkjast í vafa um að kjörnir fulltrúar hennar beri hag hennar fyrir brjósti, hvar sem þeim er skipað í flokka og hvort sem þeir eru innan eða utan stjórnar hverju sinni. Það hefur lengi tíðkast að tala af óvirðingu um störf þingmanna og saka þá um að stunda innihaldslaust jag og kjaftagang. Og sjálfsagt erum við þingmenn ekki alveg saklausir í þeim efnum. En umræðan, gagnrýnin og hinar pólitísku skylmingar hafa mikið gildi fyrir lýðræðislega málsmeðferð. Því er það ekki rétt að skerða mun meira en orðið er þann þátt í starfsemi löggjafarþingsins."