Fara í efni

AÐ VINNA Á HANDARBAKINU


Stundum er talað um handarbakavinnubrögð. Þá er átt við hroðvirknislegar  og klaufalegar aðfarir við vinnu. Auðvitað er mönnum mislagið að ástunda vönduð vinnubrögð. Gagnvart þeim sem leggja sig fram reynir velviljað fólk þó að sjá í gegnum fingur enda þótt árangurinn sé ekki upp á marga fiska.  Öðru máli gegnir um hroðvirkni af ásetningi. Þegar slíku er til að dreifa í málum sem eru mikilvæg, málum sem jafnvel hafa þjóðhagslega þýðingu, þá er engum skemmt.

Flaustursleg vinnubrögð heilbrigðisráðherra

Vinnubrögð heilbrigðisráðherra varðandi frumvarp um nýja sjúkratrygginga- og innkaupastofnun á heilbrigðissviði er af þessu tagi. Ráðherrann hefur gerst sekur um flaustursleg og ómarkviss vinnubrögð og að því leyti er réttmætt að tala um ásetningsbrot af hans hálfu að aldrei hefur hann boðið upp á vandaða aðkomu að málinu. Rétt fyrir jólahlé, fyrir tæpu ári síðan, var dengt inn í þingið frumvarpi með  ákvæði sem gaf ráðherranum lagastoð til að skipa stjórn yfir þessa stofnun sem þó var ekki orðin til. Um þetta urðu nokkrar deilur. Vildu menn fá að sjá lögin sem áttu að gilda um stofnunina áður en skipuð yrði yfir hana stjórn! Nema hvað, lagastoðin var samþykkt og skipuð var stjórn yfir hina ímynduðu stofnun. Heilbrigðisráðherra sagði  á Alþingi að enda þótt lagarammi stofnunarinnar væri ekki orðinn til þá yrði með vorinu kynnt frumvarp um stofnunina og gæfist þá gott tóm til að ræða málin vel og ítarlega.

Ekki tími til að ræða málin!

Síðan leið og beið. Ekkert bólaði á hinu fyrirheitna frumvarpi. Þar til rétt áður en þingi var slitið að inn á borð þingmanna er dengt frumvarpsdrögum með því fororði að þau yrðu að samþykkjast með miklum hraði. Því miður væri málið svo brýnt að ekki væri tími til að efna til þeirrar umræðu sem áður hafði verið lofað.
Ekki vildum við öll una þessu og eftir talsvert þóf tókst að fá því framgengt að afgreiðslu frumvarpsins var frestað fram á haustið. Töldu flestir að nú stæði til að efna til vandaðarar umræðu um málið í sumar. Ekki reyndist það vera. Allavega ekki af hálfu ráðherra eða ríkisstjórnar. Enginn fundur!
Á vegum samtaka launafólks og stjórnarandstöðuflokka hefur frumvarpið hins vegar komið til umræðu og eftir því sem hún hefur orðið dýpri hefur andstaðan gegn frumvarpinu orðið meiri.
Til að bæta gráu ofan á svart gerist það nú að með frumvarpinu er allt í einu lagður fram fjöldi af viðbótartillögum sem eiga að fara inn í frumvarpið. Hvers vegna var þetta ekki rætt í sumar?

Lágmark að öll gögn verði skoðuð

Í greinargerð með þessu makalausa stjórnarfrumvarpi er vísað til þess að byggt sé á reynslu Svía og Breta. Hver skyldi sú reynsla vera? Væri ekki ráð að fara í saumana á henni? Rétt áður en þing kom saman var heilbrigðisnefnd Alþingis drifin upp í flugvél og flogið með hana til Stokkhólms þar sem verktakafyrirtæki (sem unnið hefur að framgangi frumvarpsins á vegum Guðlaugs Þórs) efndi til tveggja daga fundar. Ef ráðherrann og Alþingi telur sig vera laust allra mála með slíkum kattarþvotti þá er það misskilningur. Til Alþingis hefur nú verið komið gögnum sem sýna ótvírætt fram á að reynslan af þeim kerfisbreytingunum  sem Guðlaugur Þór vill innleiða er ekki góð og í sumum tilvikum hörmuleg. Þarf ekki að fara betur í saumana á þessum málum? Eigum við að innleiða grundvallarbreytingar í heilbrigðisþjónustunni að óathuguðu máli? Þetta jafngildir því að menn greiði atkvæði á Alþingi með bundið fyrir augun.
Skyldi stjórnarmeirihlutinn á Alþingi ætla að láta bjóða sér svona vinnubrögð?  Finnst honmum í lagi  að mikilvæg lagafrumvörp séu unnin á handarbaki Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra? Jafnvel þótt hann kaupi ráðgjafaþjónustu sér til halds og trausts?