Aðalatriði í hermáli
Í morgunfréttum fengum við að heyra niðurstöðuna, alla vega til bráðabirgða. Herflugvélarnar verða hér áfram. Að vísu virtist aðalatriði málsins vera hver hringdi í hvern. Condoleezza Rice, öryggismálafulltrúi Bandaríkjaforseta, hringdi í Davíð Oddsson og Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna í Halldór Ágrímsson. Þetta vitum við að þeim báðum þykir vera mikið aðalatriði í málinu. Það sem hins vegar mikilvægast hlýtur að teljast, er að okkur beri gæfa til að horfast af raunsæi í augu við þá heimsmynd sem við blasir. Sú mynd hefur tekið örum breytingum á undangengnum hálfum öðrum áratug. Og enn tekur heimsmyndin breytingum. Sá dagar uppi sem ekki viðurkennir þetta. Framganga ríkisstjórnarinnar hefur einkennst af því að stappa niður fótunum og freista þess að fresta framtíðinni. Nú hefur það tekist um einhvern stuttan tíma og okkar menn náttúrlega alsælir að hafa fengið klapp á kollinn. Það var jú hringt í þá!
Hinir “staðföstu” stuðningsmenn Bush Bandaríkjaforseta hneigja sig djúpt á forsíðu Morgunblaðsins í morgun. Davíð Oddsson kvaðst hafa beðið öryggisfulltrúann að senda Bush kærar kveðjur og þakkir. Þetta sýndi sagði Davíð “að Bandaríkin mætu það góða samstarf, sem verið hefði á milli ríkjanna að undanförnu…” Um það efaðist Hjálmar Árnason þingmaður Framsóknarflokksins ekki heldur í sumar, að Bandaríkjastjórn myndi launa Íslendingum fylgispektina við þá í árásarstríðinu gegn Írak.
Innst inni hlýtur öllum að vera ljóst að hér er ekki þörf á bandarísku herliði til að standa vörð um öryggi Íslands. Þvert á móti er margt, sem bendir til að einmitt vegna veru hersins kunni okkur að stafa ógn af andstæðingum heimsveldisins, sem ekki reynist vant að virðingu sinni í skiptum við þá sem ekki undirgangast vald þess. Það er ekki á hverjum degi að hægt er að taka undir með Bush Bandaríkjaforseta. En þegar eftir honum var haft að breytt heimsmynd hefði haft í för með sér breyttar þarfir fyrir hernaðarviðbúnað á norðurslóðum þá hljómaði það óneitanleg sannfærandi. Hér á landi var um langt skeið fjöldi herflugvéla til að fylgjast með Sovétmönnum og halda þeim á tánum með viðhlítandi ógn. Við fall Sovétríkjanna hvarf óvinurinn og þar með breyttust þessar forsendur einnig.Sem kunnugt er bíta röksemdir af þessu tagi ekki á Davíð Oddsson forsætisráðherra og Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra Íslands. Án þess að þurfa nokkurn tímann að gera grein fyrir máli sínu, halda þeir því fram, að lítið sem ekkert hafi breyst í heiminum og undanfarna mánuði hafa þeir þrástagast á því við Bandaríkjamenn að fá að halda hér eins mörgum orustuþotum og kostur er, væntanlega vegna þess að þörf sé á loftvörnum við Ísland. Aldrei hafa fréttamenn gengið svo nærri þeim að biðja þá að skilgreina varnarþarfir Íslands.
Vinstrihreyfingin grænt framboð lagði til fyrir fáeinum árum að við sýndum fyrirhyggju og hygðum sérstaklega að styrkingu atvinnulífs á Suðurnesjum. Þessi tillaga stendur enn. Fyrirsjáanlegt er að herinn fer – nokkuð sem reyndar ber ekki að sýta. Við eigum nú að undirbúa rækilega þetta skref inn í framtíðina. Það er hún sem er aðalatriði þessa máls.