AÐDRAGANDINN AÐ KENNARAVERKFALLI
Ástæðan fyrir verkfalli kennara er að sjálfsögðu fyrst og fremst sú að kennurum þykja kjör sín ekki ásættanleg. Reyndar svo langt frá því að þeir leggja það á sig að fara í erfitt verkfall.
Ég skrifaði grein sem ég birti á vísi.is síðastliðinn föstudag þar sem ég lýsti yfir stuðningi við verkfallsbaráttu kennara. Ég skal játa að ég hef ekki kynnt mér launakjör þeirra til hlítar en þykist vita að þau þurfi að bæta. https://www.ogmundur.is/is/greinar/eg-stend-med-kennurum
Ástæðan fyrir því að ég steig fram var sú að ég sá hve margir hafa viljað bregða fæti fyrir kjarabaráttu kennara, með kærumálum og óbilgjörnum árásum, bæði innan veggja Alþingis og utan úr þjóðfélaginu.
Ég hef staðnæmst sérstaklega við gamalkunnan söng um að þegar hafi verið samið um leyfilegar launabreytingar og kennurum beri að hlíta því jafnvel þótt þeir hafi ekkert haft um þær að segja.
Þetta minnir mig á aðdróttanir af svipuðu tagi í garð opinberra starfsmanna á níunda áratugnum og stundum síðar einnig. Þeim var haldið utan samningaviðræðna og síðan ætlast til þess að þeir ætu það sem úti frýs.
Viðlag í þessari aðför var jafnan hið sama, opinberir starfsmenn byggju við svo góð lífeyrisréttindi, góðan veikindarétt, starfsöryggi og sitthvað annað. Þetta yrði allt að jafna út í anda sanngirni.
Aldrei vorum við andvíg þessu, nema við vildum jafnan upp á við, ekki niður á við. Þannig stóðum við fast á þvi að verja lífeyriskjörin og má almenni markaðurinn þakka staðfestu okkar því að því kom að lífeyriskjörin þar á bæ voru bætt. Það hefði ekki gerst ef opinberir starfsmenn hefðu lyppast niður.
Núna heyrum við þetta sama. ”Það er ekki hægt að reka vanhæfa opinbera starfsmenn, veikindaréttur þeirra er of mikill miðað við aðra...» Allt þetta verði að jafna út, ranglætið sé óbærilegt! Hver talar? Það eru talsmenn Samtaka atvinnulífsins og fulltrúar þeirra á þingi, og eins og áður var einhverjar raddir innan úr verkalýðshreyfingunni. Og hvernig skuli bætt úr ranglætinu? Með því að hafa af opinberum starfsmönnum það sem þeir hafi náð í kjarabaráttu á liðnum áratugum. Ekkert er á það minnst að jöfnunin gæti átt að verða upp á við.
Talsmenn SA segja að ekki megi stilla fólki upp hvert á móti öðru. Það er hins vegar nákvæmlega það sem þeir gera sjálfir.
En því miður hafa opinberir starfsmenn ekki alltaf borið gæfu til að verja réttindi sín og átti að mínum dómi alvarlegasta eftirgjöfin sér stað með «jöfnun lífeyrisréttinda» árið 2016. Það var bakábyrgð ríkisins látin fjúka og reiknireglum um lífeyrisgreiðslur breytt. Þetta var gert á sama tíma og breytingar voru gerðar á lögum um almannatryggingar.
Ég reyndi allt sem ég gat til að vara við þessu. Hér er til dæmis slóð á þingræðu haustið 2016 þar sem ég talaði yfir vægast sagt daufum eyrum því ég man ekki til þess að nokkur maður tæki undir: https://www.althingi.is/altext/upptokur/raeda/?raeda=rad20160908T134657
Allt þetta gekk eftir, opinberir starfsmenn samþykktu að rýra lífeyrisréttindi sín en MEÐ ÞVÍ SKILYRÐI AÐ ÞVÍ FYLGDU LAUNAHÆKKANIR. Auk þess var horft til SALEK samkomulagsins frá árinu 2015 um vélrænar hækkanir til opinberra starfsmanna til að tryggja að þeir fylgdu launaþróun. Hvort tveggja var svikið.
Nú talar atvinnurekendahliðin um ýmis kostnaðarsöm réttindi svo sem styttingu vinnuvikunnar sem verði að reikna til launa í þessum samningaviðræðum. En þá horfa þeir fram hjá því að SAMIÐ VAR UM LAUNAHÆKKANIR VEGNA LÍFEYRISSKERÐINGANNA.
Ég hef jafnan látið það fylgja með í þessari umræðu að sjálfur var ég heiftarlega ósammála þessum samningum og taldi auk þess áhöld um að þeir myndu ganga upp. En þau sem sögðu að þau hefðu trú á þessari leið og að þeirra eigin orð myndu standa verða nú að gjöra svo vel að standa við orð sín.
Átti orðastað við Sigríði Margréti Oddsdóttur framkvæmdastjóra Samtaka Atvinnulífsins á Bylgjunni síðastliðinn föstudag í tilefni af grein minni á vísi.is. https://www.visir.is/k/1308a7ed-984f-478d-8871-cef721629cbe-1739558585497
Umfjöllun um sama efni:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/engin-skerding
https://www.ogmundur.is/is/greinar/ekki-skerda-lifeyrisrettindin
Brugðist við kröfu um réttindaskerðingu: https://www.ogmundur.is/is/greinar/flugmadur-og-baejarstjori-raeda-kjarasamninga
(Myndina af samstöðufundi kennara efst á síðunni leyfði ég mér að taka af vef KÍ. )
-----------------
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/