AÐFÖR AÐ ÍBÚÐALÁNASJÓÐI
Birtist í Morgunblaðinu 15.06.07.
ÞÁ er lokið enn einni heimsókn "sérfræðinga" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til Íslands. Boðskapur þeirra til okkar er nú sem endranær á sömu lund. Þeir vilja samdrátt í ríkisumsvifum, einkavæðingu og aðhald í kjarasamningum við almennt launafólk. Núna vilja þeir að flutt verði til landsins fólk frá láglaunasvæðum heimsins til að grafa undan kjörum og réttindum íslensks launafólks! Eins og í undangengnum heimsóknum er viðkvæðið að Íbúðalánasjóður verði lagður niður.
Vilja þrengja að sjóðnum
Og nákvæmlega eins og eftir fyrri heimsóknir fagna bankarnir ákaflega enda vilja þeir Íbúðalánasjóð feigan. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins tekur einnig undir með þeim 13. júní: "Það er athyglisvert hvað sjóðurinn leggur mikla áherzlu á tilvist Íbúðalánasjóðs í þessu samhengi og telur greinilega, að ef ekki væri vegna samkeppni þessa opinbera sjóðs væru bankarnir búnir að hækka vexti á íbúðalánum sínum svo verulega að draga mundi úr fasteignakaupum og byggingu á nýju húsnæði. Stjórnmálamennirnir hafa haft áhyggjur af því, að ef Íbúðalánasjóður væri ekki til staðar mundu bankarnir engin lán veita til bygginga og kaupa á húsnæði á landsbyggðinni. Sjóðurinn kemur til móts við það sjónarmið með því að segja að taka megi upp sértækar aðgerðir til þess að tryggja þá lánsfjármögnun. Er það ekki eitthvað, sem Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra getur verið til viðræðu um?"
Fjármagnskostnaður íbúðalána of lítill?
Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra kveðst vera til viðræðu um þessar ábendingar því í Blaðinu 13. júní segir að hann ætli að fara yfir þessar hugmyndir: "Ráðherrann segir að gagnrýni Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði tekin alvarlega."
Hvað á eiginlega að taka alvarlega? Á að taka alvarlega hvatningu um að takmarka umsvif Íbúðalánasjóðs svo bankarnir geti óhindrað hækkað vexti? Það er þó alla vega framför að viðurkenna að Íbúðalánasjóður haldi vöxtunum niðri – hinu gagnstæða hefur iðulega verið haldið fram. Finnst leiðarahöfundi Morgunblaðsins og viðskiptaráðherra að vextir á húsnæðislánum séu of lágir? Þeir eru núna tæplega 5% auk verðbóta. Undanfarna þrjá mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 2,0% sem jafngildir 8,2% verðbólgu á ári. Miðað við þá verðbólgu bera þessi lán rúmlega 13% vexti! Þótt verðbólgan verði ekki svona mikil yfir árið er engu að síður ljóst að fjármagnskostnaður íbúðakaupenda verður verulegur.
Varðandi þá ráðleggingu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins – sem Morgunblaðið tekur undir – að Íbúðalánasjóður einskorði sig við "sértæk" lán, þ.e. lán til fólks sem á í félagslegum þrengingum eða býr á stöðum þar sem veð eru ótrygg – nokkuð sem bankarnir helst vilja vera lausir við, þá er þetta að segja: Með þessu móti yrði lánsfjármagn Íbúðalánasjóðs dýrara en lánsfjármagn bankanna. Vilja menn íþyngja hinu opinbera með þessum hætti – til þess eins að bankarnir geti setið einir að íbúðalánunum?
Jafnaðarmannaflokkur?
Lán til húsnæðiskaupa eru almennt tryggustu lán sem um getur – nema að sjálfsögðu í þeim tilvikum sem að framan greinir. Ef áhættunni er hins vegar dreift á landsmenn alla eins og við núverandi fyrirkomulag er um jöfnunaraðgerð að ræða. Ætlar Jafnaðarmannaflokkur Íslands – er það ekki það sem Samfylkingin kallar sig á hátíðastundum? – að skrifa upp á það? Hvað er það sem Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra ætlar að leggjast yfir?
Annars er ástæða til að gjalda varhug við "sérfræðingum" Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það gleymist að kynna þá rétt til sögunnar. Staðreyndin er nefnilega sú að "sérfræðingarnir" sem fara um heiminn með nafnspjöld Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Alþjóðabankans upp á vasann eru fyrst og fremst pólitíkusar. Eflaust hafa þeir háskólagráðu í hagfræði. En þeirra sérfræði er pólitík. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn eru langt frá því að vera hlutlausar stofnanir. Þær hafa fyrst og fremst það hlutverk að tala fyrir markaðsbúskap og hafa ítrekað sýnt að þær svífast einskis þegar kemur að áróðri fyrir einkavæðingu og andstöðu við verkalýðshreyfinguna. Óskandi væri að næst þegar "sérfræðingar" koma frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum að ráðleggja Íslendingum um stjórn efnahagsmála verði þeir kynntir í fjölmiðlum undir réttum formerkjum. Þá kunna ráðleggingar þeirra, til dæmis um að leggja niður Íbúðalánasjóð eða flytja verkafólk til landsins svo undirbjóða megi íslenska launamarkaðinn, að fá annan hljóm.