Fara í efni

AÐFÖRIN AÐ ÁTVR: ERU TVEIR PLÚS TVEIR EKKI LENGUR FJÓRIR?

Enn hefur ekkert verið aðhafst gegn lögbrotum við áfengissölu.

Enginn vafi leikur hins vegar á því að málið hreyfir við þjóðinni af ýmsum sökum.

Margir undrast sinnuleysi yfirvalda; hafa reyndar í forundran fylgst með því að kærur vegna ólöglegra verslana svo og brotlegra áfengisauglýsinga hafa verið hunsaðar. Meira að segja hefur Ríkisútvarpið lagst svo lágt að taka þátt í lögbrotunum.

Á visi.is segir Sigríður Andersen nýkjörinn þingmaður Miðflokksins, fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins, það hljóta að vera gott sparnaðarráð fyrir ríkið að leggja niður ÁTVR: „Það hlýtur að vera kærkomið sparnaðarráð, því nú er ríkisstjórnin að óska eftir sparnaðarráðum, að ríkið dragi sig alfarið úr sölu á áfengi og selji þessar áfengisverslanir sem eru orðnar. Hætti rekstrinum svo sjálft en hafi tekjurnar áfram af áfengissölunni.“
Staðreyndin er sú að af þessum rekstri – ekki bara áfengisgjaldinu eru gríðarlegar tekjur að hafa, sem verða þeim mun meiri eftir því sem samræmdari reksturinn er undir einu þaki. Eftir þeim hagnaði sækjast fjárfestar. Út á þetta gengur þetta allt saman. https://www.visir.is/g/20252671162d/gott-sparnadarrad-fyrir-rikis-stjornina-ad-leggja-nidur-atvr

Hagnaður ríkisins af ÁTVR er umtalsverður. En kostnaður af völdum áfengis í félagsþjónustu og í heilbrigðiskerfi er þó umtalsvert meiri. Á það benti Alma Möller, þáverandi landlæknir, núverandi heilbrigðisráðherra, á ráðstefnu um lýðheilsumál í febrúar síðastliðnum eins og fram kom í ágætri samantekt á vefsíðu Sameykis. Þar segir:
„Þetta er gríðarlegur kostnaður fyrir heilbrigðiskerfið og nemur hann um 2,6 prósent af landsframleiðslunni sem er 3796 ma. kr. Það er svipaður kostnaður og í OECD löndunum sem er frá 1,5 til 2,6 af vergri þjóðarframleiðslu. “

Hún endaði erindi sitt með því að kalla eftir að ekki verði gefið eftir í lýðheilsubaráttunni og taldi upp þrjú atriði því til stuðnings.

1. Aukið aðgengi að áfengi mun auka neyslu og auka sjúkdómsbyrði og þjáningu
2. Aukið aðgengi að áfengi mun auka kostnað samfélagsins
3. Seljendur hagnast, öll önnur tapa”


Frá málþinginu Lýðheilsa og áfengi-hver vilja kúvenda stefnunni og bjóða hættunni heim? Ljósmynd/Axel Jón (Af vef Sameykis)

https://www.sameyki.is/frettir/stok-frett/2024/02/13/Rikid-framfylgir-ekki-logum-um-solu-afengis-a-Islandi/?fbclid=IwZXh0bgNhZW0CMTEAAR0PrxEf6O8lMR-9MHQ7rQ54fFFXfH4pOph_qaPlNsn_2gLO5szNNpNdCBI_aem_ycv2Wg87vE_gY2QOQt9N9g 

Fjölmiðlar hafa nokkuð fjallað um þessi mál að undanförnu en aðallega af forvitni um framgang þeirra verslana sem vinna að því að brjóta niður ÁTVR. Minna fer fyrir gagnrýnni umræðu um augljós lögbrot. Í mesta lagi er sagt að lögin séu óljós. Hvernig væri að fréttamenn læsu þessi lög sjálfir, horfðu á það sem er að gerast og spyrðu síðan á upplýstan og gagnrýninn hátt?

Ég sakna þess að dómsmálaráðherra sé spurður um niðurbrot á réttarríkinu.

Ég sakna þess að embætti saksóknara og löggæslu sé spurt hvað skýri aðgerðarleysið.

Ég sakna þess að núverandi heilbrigðisráðherra sé spurður um orð og athafnir.

Ég sakna þess að fjármálaráðherra sé spurður um fjárhagslegar hliðar málsins.

Ég sakna þess að yfirlýsingaglaðir stjórnmálamenn séu látnir standa fyrir máli sínu.

Sömu þingmenn og vilja ólmir sameina ríkisstofnanir í hagræðingarskyni vilja sundra ÁTVR einnig í hagræðingarskyni. En hverjar yrðu afleiðingarnar, heilsufarslegar, félagslegar og fjárhagslegar? Sigríði Andersen mætti spyrja hverja hún telji vera útkomuna vilji maður leggja saman tvo og tvo. Skyldi það vera fjörutíu eða kannski bara fjórir einsog hingað til?

--------------

Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.