Fara í efni

AÐFÖRIN AÐ ÍBÚÐALÁNASJÓÐI ER AÐFÖR AÐ HINUM TEKJULÁGU

Birtist í Morgunblaðinu 03.07.06.
Ingibjörg Þórðardóttir, varaformaður Félags fasteignasala, orðaði það vel í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í byrjun vikunnar að undarlegt væri að láta sverfa að þeim sem lakast stæðu að vígi í þjóðfélaginu þegar ráðast ætti til atlögu gegn verðbólgudraugnum. Þar vísaði hún í þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar að lækka lánshlutfall úr Íbúðalánasjóði úr 90% í 80% og færa hámarksupphæðina niður úr 18 milljónum í 17 milljónir.
Ingibjörg benti réttilega á að þeir sem nýttu sér lán Íbúðalánasjóðs væru þeir sem stæðu í því að koma yfir sig húsnæði oft við bágborin kjör; efnafólkið leitaði fremur til banka og annarra lánastofnana enda sæktust efnamenn eftir dýrara húsnæði og þar af leiðandi hærri upphæðum. Ráðstafanir ríkisstjórnarinnar bitnuðu því einkum á hinum efnaminni. Undir þessi sjónarmið tekur Björn Þorri Viktorsson, formaður Félags fasteignasala, á mbl.is degi síðar. Það er fjöður í hatt Félags fasteignasala að tefla fram sanngjörnum og félagslega ábyrgum sjónarmiðum eins og forsvarsmenn félagsins gera í yfirlýsingum sínum í tengslum við þessar breytingar.

Breytingin verri fyrir tekjulága en tekjuháa

Fyrir breytinguna sem nú hefur verið gerð leit dæmið svona út:
Einstaklingur eða fjölskylda átti rétt á 90% láni, að hámarki 18 milljónir. Hér gat íbúðin kostað 20 milljónir því 18 milljónir eru 90% af 20 milljónum.
Eftir ákvörðun ríkisstjórnarinnar lítur dæmið aftur á móti svona út:
Einstaklingur eða fjölskylda á rétt á 80% láni, að hámarki 17 milljónir. Hér gæti íbúðin kostað 21,25 milljónir því 17 milljónir eru 80% af 21,25 milljónum.
Ef hámarkslánsupphæð er nýtt hefur því viðmiðunarverð íbúðarinnar hækkað en réttur til láns hins vegar lækkað sem nemur einni milljón króna.
En á hverjum skyldu skertir lánamöguleikar helst bitna? Hvað með þann sem er að kaupa mjög ódýra íbúð, segjum fyrir 15 milljónir? Fái hann 90% af 15 milljónum í lán frá Íbúðalánasjóði nemur lánsfjárhæðin 13,5 milljónum króna. Fái hann 80% frá Íbúðalánasjóði, eins og nú verður reyndin, nemur lánsfjárhæðin 12 milljónum. Ákvörðun ríkisstjórnarinnar veldur því skertum lánamöguleikum hjá þessum aðila sem nema 1,5 milljónum! Aðgerðirnar bitna með öðrum orðum þyngst á þeim sem hafa minnsta getu til að eignast húsnæði.

Margs að gæta

Á hitt er að líta að ekki er sagan öll sögð með því að einblína á þessar tölur. Oft vill það gleymast í talnaflóðinu að fleiri þröskuldar og sperrur eru í vegi þess að fólk fái lán frá Íbúðalánasjóði en virðist við fyrstu sýn. Þannig er eitt skilyrðanna að lán megi aldrei vera hærra en brunabótamat að viðbættu lóðaverði.
Dæmi úr raunveruleikanum: Einstaklingur keypti nýlega íbúð á 17,3 milljónir. Brunabótamat þessarar íbúðar var 11,5 milljónir og lóðarmat 2 milljónir, samtals 13,5 milljónir. Í stað þess að fá 15,5 milljónir, sem er 90% af 17,3 milljónum fékk viðkomandi aðeins 13,5 milljónir sem að sjálfsögðu var ekki neitt 90% lán heldur 78% lán.
Annað dæmi úr raunveruleikanum: Íbúð var seld á 15,9 milljónir. Brunabótamat ásamt lóðarmati er 10,66 milljónir. Í stað þess að fá 14,31 milljón fékk viðkomandi aðeins 10,66 milljónir sem er 67% lán.

Íhuga þarf breytingar

Eftir stendur að ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að lækka lánshlutfall og viðmiðunarmörk lána Íbúðalánasjóðs bitnar verst á þeim tekjuminni. Minna má á að þeir sem rétt áttu á svokölluðum viðbótarlánum og voru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum fengu lánuð 90% kaupverðs, óháð brunabótamati.  Nú hafa þessi lán verið lögð af og sá hópur, sem áður naut þeirra er tvímælalaust verst settur allra sem nú leita lausna á sínum húsnæðismálum eftir þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar.
Þykir mér vel koma til greina að íhuga að nýju tekjutengd viðmiðunarmörk eins og tíðkuðust um skeið til þess að verja hag þeirra sem eru tekjulitlir.