ÆTLA AÐ HALDA ÁFRAM AÐ RUKKA!
Tollheimtumenn við Geysi hörfuðu undan þegar á annað hundrað manns mættu á svæðið í dag til þess að ganga um það gjaldfrjálst eins og lög kveða á um. Í gær sögðu forsvarsmenn rukkunarmanna að ég yrði boðinn velkominn að skoða svæðið gjaldfrjálst. Og átti að ráða af því að þeir hefðu valdið til að bjóða mig velkominn.
Að vísu er alltaf gaman þegar vel er tekið á móti manni. Það gerði Már Sigurðsson, frumkvöðullinn í rekstrinum við Geysi svo sannarlega. Sýndi hann mér þjónustusvæðið og Geysisstofu og var hinn alúðlegasti. Frábært er starfið sem hann hefur unnið. Ég hef margoft tekið fram að oft hef ég snætt á veitingastaðnum við Geysi og fengið margvíslega þjónustu og alltaf verið hæstánægður með að greiða fyrir þá þjónustu. Þó nú væri.
Öðru máli gegnir um gjaldtöku fyrir að horfa á Strokk og Geysi, njóta þeirra og hverasvæðisins almennt. Þar hafa "eigendur" engan rétt á að rukka. Talsmaður rukkaranna sagði fréttamönnum í dag að ákveðið hefði verið að falla frá gjaldtöku eftir hádegið í dag - þegar við vorum væntanleg á svæðið - og hefði valdið því tilviljun tengd ferðamálaátaki á Suðurlandi, "Leyndardómum Suðurlands."
Upplýst hefur verið að þetta er fyrirsláttur enda áður sagt að sérstök ávörðun hefði verið tekin um það í gær að mér yrði boðið gjaldfrítt inn á svæðið. Með öðrum orðum, það átti að rukka nema mér átti að veita undanþágu.
Í dag var mér hins vegar tilkynnt sérstaklega í fjölmiðlum að kæmi ég að nýju á morgun yrði ég rukkaður!
Sem áður segir voru á annað hundrað manns á Geysissvæðinu í þeim erindagjörðum einum að standa á lagalegum rétti sínum. Miklu fleiri hafa sýnt vilja sinn í þessa veru. Þannig að hér er um að ræða fjöldahreyfingu í fæðingu. Um það er engum blöðum að fletta.
Nú er spurningin þessi: Fer fólk að nýju á svæðið á morgun og hringir þá í lögregluna sér til varnar, halds og trausts, ef reynt verður með ólögmætum hætti að hafa af því fé? Þetta er valkostur. Ég hef hins vegar komist að þeirri niðurstöðu fyrir mitt leyti að bíða átekta næstu daga og sjá hvort yfirvöld ætli virkilega að láta lögbrjóta komast upp með framferði sitt. Ef ekkert gerist, verð ég mættur að nýju að Geysi næsta laugardag klukkan hálf tvö. Ég hef grun um að ég yrði ekki einn fremur en fyrri daginn.
Nokkrir tenglar sem vísa á fréttaflutning af heimsókninni að Geysi í dag:
http://www.ruv.is/frett/rukka-ogmund-ef-hann-kemur-a-morgun
http://www.ruv.is/frett/ogmundur-fekk-fritt-inn
http://www.visir.is/utlit-fyrir-ad-fritt-se-inn-a-geysissvaedid-i-dag/article/2014140339977
http://www.visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTV80DE1880-97DE-4BE7-841E-99C97CBBA49C
http://www.ruv.is/sarpurinn/sjonvarpsfrettir
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/28/likir_gjaldtokunni_vid_thjofnad/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/30/gjaldtoku_vid_geysi_haett_i_hadeginu/
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/03/30/skil_ekki_thessa_natturuverndarstefnu/
http://www.visir.is/-vid-eigum-thetta-allt-/article/2014140339943
http://www.visir.is/tekjur-af-gjaldtoku-nalaegt-400-milljonum/article/2014140319147http://www.dv.is/frettir/2014/3/30/ogmundur-er-enginn-domari/