ÆTLAR FRAMSÓKN Á HNÉN?
Ég rifjaði það upp í pistli hér á síðunni að þegar lauk samstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks vorið 2007 að loknum þremur kjörtímabilum var Framsókn að niðurlotum komin. Ástæðan var sú að flokkurinn var búinn að svíkja nánast allt sem hann á hátíðarstundum segir vera hrygglengjuna í sjálfum sér: Samvinnuhugsjónina.
Þannig var það flokknum erfitt að selja ýmsar félagslega mikilvægar stofnanir í hendur gróða-afla. Hlutafélagsvæðing Ríkisútvarpsins var honum erfið að sama skapi. Síðan var ýmislegt annað sem var flokknum svo hagsmunatengt að slökkt var á samviskunni og ekkert látið trufla sérhagsmuna-pot ráðandi einstaklinga í Framsóknarflokknum. Þar er ég náttúrlega að tala um einkavæðingu bankanna og eftirlitsstofnana, sem flokksgæðingar Framsóknar áttu eftir að hagnast mikið á.
Tvennt var það sem Framsóknarflokkurinn stóð þó vörð um. Í fyrsta lagi vildi hann standa vörð um Íbúðalánasjóð (að vísu eftir að hann hafði eyðilagt grunnstoðir húsnæðiskerfisins með lagabreytingum undir aldarlok) og í öðru lagi heilbrigðiskerfið. Framsóknarflokkurinn hélt svo rækilega aftur af einkavæðingarsinnum í Sjálfstæðisflokknum hvað varðar heilbrigðismálin að Sjálfstæðisflokkurinn sagði það eina meginskýringuna á því að hann vildi ekki frekara samstarf við flokkinn vorið 2007.
Spurningin er hvað Framsókn geri nú. Einkavæðingarkrafan rís nú hærra en nokkru sinni og augljóst að Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að nota fjármálakreppuna sem skálkaskjól fyrir markaðsvæðingu heilbrigðiskerfisins. Það er aumt. En aumara verður þó hlutskipti Framsóknarflokksins ef hann lætur nota sig til slíkra verka. Þessu verður flokkurinn að svara þjóðinni fyrr en síðar. Ætlar Framsókn á hnén frammi fyrir peninga-sérhyggjunni eða verður okkur sýnt að einhver hrygglengja sé enn til staðar í flokknum?