Ætlar stjórnarmeirihlutinn að reyna að fótumtroða stjórnarskrárvarin mannréttindi?
Forseti Íslands hefur sem kunnugt er neitað að undirrita hina umdeildu fjölmiðlalöggjöf. Vísaði hann í 26. grein stjórnarskrár Íslands. Þar segir: "Ef Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp, skal það lagt fyrir forseta lýðveldisins til staðfestingar eigi síðar en tveim vikum eftir að það var samþykkt , og veitir staðfestingin því lagagildi. Nú synjar forseti lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það þó engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar með leynilegri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi, ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu."
Ekki þarf ég neina lögfræðinga til að skýra fyrir mér hvað þetta þýðir. Það nægir að vera læs. Það þarf meira en lítinn vilja til útúrsnúninga til að segja að þarna standi eitthvað annað en að frumvarp, sem forsetinn synjar að skrifa undir eigi að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ógnvekjandi afstaða stjórnarflokkanna
Fulltrúar ríkisstjórnarflokkanna hafa veitt okkur innsýn í pólitískt sálarlíf sitt sem ég verð að segja að er vægast sagt ógnvekjandi. Sjálfstæðisflokkurinn gengur sýnu lengra en Framsókn. Talsmenn Sjálfstæðisflokksins segja að réttur þjóðarinnar orki tvímælis og að ákvörðun forseta sé stefnt gegn þingræðinu! Þessar yfirlýsingar eru makalausar. Þær eru andlýðræðislegar og ganga út á að meina þjóðinni að fá notið stjórnarskrárvarins réttar síns! Látum það vera þótt Sjálfstæðisflokkurinn óttist þjóðina. Það er hans mál. Það er hins vegar mál okkar allra að hann komist ekki upp með að beita gerræðislegu valdi til að hafa af okkur sjálfsögð mannréttindi. Það verður aldrei þolað!
Framsókn er skárri í sinni afstöðu. Þó var átakanlegt að hlusta á formann flokksins á fréttmannafundi í gær þar sem hann harmaði ákvörðun forsetans. Hann taldi að vísu, að þjóðaratkvæðagreiðsla yrði að fara fram en það væri ríkisstjórnarmeirihlutans að ákvarða alla útfærslu, sem þýðir eins og við vitum að þeir Davíð setjist yfir málið! Slíkt væri framlenging á aðferðafræði foringjastjórnmálanna sem þjóðin er búin að fá upp í háls af.
Þörf á aðkomu allra!
Að sjálfsögðu á að mynda þverpólitíska samstöðu um útfærsluna, og ályktaði þingflokkur VG í dag að allir flokkar kæmu nú að þessum málum. Það er prinsippmál þótt við megum ekki missa sjónar á því að viðfangsefnið er afar einfalt en ekki flókið eins og nú er reynt að telja þjóðinni trú um.
Menn kann að greina á um þetta frumvarp, en eitt er víst að viðbrögð talsmanna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar segja okkur að bráðnauðsynlegt var að láta á það reyna hvort stjórnarmeirihlutinn sé virkilega orðinn svo firrtur í valdblindu að hann sé reiðubúinn að fótumtroða stjórnarskrárvarin mannréttindi.