Fara í efni

AF HEILUM HUG

MBL  - Logo
MBL - Logo

 Birtist í Morgunblaðinu 24.01.08.
Hinn 8. janúar sl. beindi ég spurningum til stjórnenda Landspítalans um ýmislegt, sem snertir „útvistun" (sem er fínt orð fyrir einkavæðingu) á störfum læknaritara á spítalanum. Hinn 13. janúar sl. svarar aðstoðarlækningaforstjóri Landspítala, Niels Chr. Nielesen, fyrirspurnum mínum. Ég þakka Niels fyrir að veita opinberlega svör við spurningum mínum þótt þau séu í stikkorðastíl og kalli fyrir bragðið á nánari skýringar sem fulltrúar SFR og BSRB munu ganga eftir í viðræðum við stjórnendur sjúkrahússins á komandi dögum.

Ég vil ítreka það sem ég hef áður bent á í blaðagreinum að stjórnendur á Landspítala hafa gefið frá sér afar misvísandi yfirlýsingar varðandi framtíð læknaritara, nokkuð sem augljóslega þarf að fá botn í. Eitt atriði í svari Nielsar Chr. Nielsen í umræddri grein tel ég ástæðu til að staldra við en það er skírskotun hans í fund sem forsvarsmenn LSH héldu til kynningar á útboðsgögnum. Á þennan fund mættu tugir læknaritara. Niels segist svo frá: „Auglýstur var kynningarfundur fyrir þá sem áhuga hafa á þessu verkefni og var hann haldinn á LSH þriðjudaginn 8. jan. 2008. Þar mættu mjög margir af læknariturum spítalans sem ég vona að hafi komið af heilum hug til að taka þátt í þessu verkefni, auk fulltrúa 8 fyrirtækja. Þeim voru öllum afhent gögn um verkefnið og þær öryggiskröfur sem gerðar eru til öryggis gagna. Þeir sem áhuga hafa á verkefninu skila hugmyndum um framkvæmd þess til innkaupasviðs LSH og verða þær þá metnar með tilliti til þjónustu og verðs. Berist ekki fullnægjandi hugmyndir verður ekki gengið til samninga um tilraunaverkefnið. Tekið skal skýrt fram að hér er ekki um útboð að ræða, heldur tilraunaverkefni."

Sá grunur læðist að mér að hér sé verið að hafa í flimtingum grafalvarlegt mál fyrir þá starfsmenn sem í hlut eiga. Aðstoðarlækningaforstjóri Landspítalans hlýtur að vita að enda þótt einhverjir læknaritarar kunni að hafa komið á umræddan fund í viðskiptaerindum mættu margir tugir læknaritara, yfirgnæfandi meirihluti fundarmanna, á fundinn eingöngu til að fá vísbendingu um hver áform væru uppi varðandi starfsvettvang þeirra og hvort flötur væri á öðrum lausnum en þarna var boðið upp á. Þetta gerðu læknaritarar „af heilum hug" og hef ég trú á að fæstir þeirra hafi haft hugarflug til að ætla að stjórnendur Landspítalans myndu reyna að leggja þátttöku þeirra í fundinum út á þann veg sem aðstoðarlækningaforstjórinn gerði í grein sinni.

Grein þessi var birt 23. jan. en þá féll hluti hennar niður og var hún því endurbirt 24.janúar