AF HRÚTUM, STJÓRNMÁLAMÖNNUM OG PRÓFESSORUM
Okkur hættir flestum til að gerast alhæfingasöm og iðulega blandast fordómar alhæfingunum. Þurfum ekki einu sinni að heyra tóninn, vitum öll hvað klukkan slær þegar talað er um stjórnmálastéttina. Aðrir segja af og frá að tala um stjórnmálamenn sem einsleitan hóp en alhæfa engu að síður. Annars vegar séu konur og hins vegar karlar; konur hafi kvenlega sýn á heiminn, karlar hafi sín karllægu viðhorf, séu fulltrúar feðraveldis og megi þekkja þá af lyktinni. Hún minni á hrúta.
En hvað með aðra hópa, til dæmis bandaríska háskólaprófessora? Varla lykta þeir allir eins. Þó gæti maður freistast til að halda að þeir séu furðu einsleitur hópur ef dæma skyldi af greinum sem annað veifið birtast í íslenskum blöðum um drög að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland, nú síðast í þessari viku frá lagaprófessor í Berkeley í Kaliforníu.
Þar segir frá örlögum stjórnarskrárdraganna sem á sínum tíma komu frá íslenska Stjórnlagaráðinu. Eins og fyrri greinar úr þessari átt, er um þessi drög fjallað eins og hverja aðra himnasendingu en eingöngu er þó rætt um formlega umgjörð, ekkert um innihald. Íslenska stjórnmálastéttin, og er þar enginn greinarmunur gerður á gimbrum og hrútum, hafi hins vegar brugðið fæti fyrir framfaraöflin. Það góða við stjórnarskrárdrögin, segir lagaprófessorinn, hafi einmitt verið sú staðreynd að „stjórnmálamönnum" hafði ekki verið leyft að koma nálægt sjálfri grunnvinnunni í Stjórnlagaráðinu. Hún hafi verið unnin af „almenningi".
Kannski óþægilega mikil einföldun fyrir prófessor í lögum við háskóla í Berkeley. Tónninn er þó áþekkur og í fyrri greinum sem borist hafa austur yfir hafið frá akademískum „Íslandsvinum" í Bandaríkjunum. Stundum hefur verið tekið dýpra í árinni og jafnvel hvatt til vopnaðrar uppreisnar til að koma nýju stjórnarskránni í framkvæmd! Ekki er gengið svo langt í þessari síðustu grein en samnefnarinn við fyrri skrif engu að síður augljós. Ég get mér til að hinn akademíski bakgrunnur sé ekki það sem sameinar heldur hinir íslensku vinir, væntanlega sjálfir höfundar stjórnarskrárdraganna. Alla vega einhverjir þeirra.
Varla getur þetta talist góður vitnisburður um fræðimennsku í nafntoguðum bandarískum háskólum. En aðvitað á ekki að alhæfa um bandaríska lagaprófessora fremur en um stjórnmálamenn almennt eða kynferði þeirra.
Skoðanir á stjórnarskrárdrögunum margumtöluðu, jafnt stjórnmálalmanna sem annarra, sneru fyrst og fremst að eignarhaldi á auðlindum og skilyrðum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Fram kom það sjónarmið að Stjórnlagaráð hefði verið helst til íhaldssamt varðandi bæði þessi tvö grundvallaratriði. Engu að síður var gerð um það tillaga að taka þau út úr, freista þess að rýmka þau og fá þau samþykkt sem ákvæði í stjórnarskrá á því þingi sem þá sat enda í fullu samræmi við almennan þjóðarvilja eins og hann lá fyrir. Hitt sjónarmiðið varð þó ofan á, ættað frá meintum fulltrúum almennings: Allt eða ekkert!
Þar við sat - og situr í bili og er nú, að mínu mati, komin óhagstæðari samsetning á Alþingi en áður var hvað varðar stóru hagsmunamálin framangreind. Þessi hlið umræðunnar virðist ekki hafa borist til Berkeley né hitt að í meðförum þingsins var um það rætt að betrumbæta þyrfti stjórnarskrárdrögin og skildi ég það svo að allflestir sem á annað borð kynntu sér málin væru sammála um nauðsyn þess.
Nú þarf að endurmeta stöðuna, brjótast í gegnum múra fordóma og vanþekkingar og freista þess að stíga upp úr gömlum skotgröfum alhæfinganna. En vegvísirinn í þeirri umræðu, sem framundan er, verður varla fundinn hjá akademískum „Íslandsvinum" vestanhafs. Það má ráða af skrifum þeirra og þeim upplýsingum sem þeir virðast byggja á.