Fara í efni

AF LÍFI OG SÁL

MBL- HAUSINN
MBL- HAUSINN

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 01.03.15.
Aldrei minnist ég þess í uppvexti mínum og á yngri árum að hafa hugleitt aldur stjórnmálamanna. Annað hvort höfðaði málflutningur þeirra til mín eða hann gerði það ekki. Einn aðaltöffari undir lok sjöunda áratugar aldarinnar sem leið, þegar ég var pólitískt að vakna til lífsins, var breski heimspekingurinn og mannréttindafrömuðurinn Bertrand Russell. Hann lést árið 1970, 98 ára að aldri. Kornungur í anda og róttækari með hverju árinu sem leið.

Hér heima voru mínir menn á öllum aldri, Lúðvík, Hjörleifur, Svavar og Svava, Birna og Skjálfti, Jón Múli og Guðrún og Ólafur, að ógleymdum Eysteini sem móðir mín var óþreytandi að útnefna sem frumkvöðul í náttúruverndarmálum.

Og þau voru mörg fleiri og á öllum aldri. Mér var nákvæmlega sama hvers kyns eða hve gömul þau voru. Ég vildi hins vegar vita hvað þau hugsuðu og hvert þau vildu stefna með samfélag okkar.

Þetta kom mér í hug þegar ég las um niðurstöðu könnunar þar sem fullyrt var að þjóðin hefði fengið nóg af „sjónarmiðum sjötugra."

Mér þótti þetta forvitnilegt og las meira. Einn aðstandenda þessarar könnunar sagði í blaðaviðtali að  augljóst væri að ungt fólk hafnaði „umræðuhefð" og „orðræðu" sjötugra! Gildi þessarar kynslóðar væru úrelt: „Fólk verður reitt því það er á móti svona umræðuhefð í dag. Pólitískt landslag hefur breyst að því leyti að í dag kýs fólk stjórnmálamenn út frá orðræðunni sem er í gangi en ekki út frá smáatriðum í stefnuskrá." Síðan var fjölyrt um stjórnmálamenn sem væru óbifanlegir í sínu fari og vildu aldrei hliðra til eða gefa eftir.

En hvað er raunverulega verið að tala um? Óbilgjarna afstöðu til einkavæðingar bankanna á sínum tíma og heilbrigðiskerfisins á öllum tímum, húsnæðismála, almannatrygginga, kvótans, Kárahnjúka?

Ég leyfi mér að segja þetta hina mestu bábilju. Á öllum tímum hefur annars vegar verið til fólk sem samfélagsmálin brenna á og er fyrir vikið brennandi í baráttuanda og hins vegar þau sem eru daufgerðari, nenna lítið að opna sálargluggann og finnst litlu skipta hvernig veltur. Þetta er hinn lati hluti þjóðfélagsins. Og það er honum sem leiðist „orðræðan" og „umræðuhefðin".
Þá bið ég um baráttujaxla, aldna sem um unga, karla og konur, helst úr öllum stéttum, vinnufæra jafnt sem óvinnufæra.

Ég bið um fólk með skoðanir og sannfæringu ; fólk sem nennir að láta umhverfi sitt og velferð samferðarmanna sig máli skipta og hefur skoðanir á því hvernig það verði best gert, meira að segja í smáatriðum.
 
Og ef ágreiningur verður um grundvallaratriði þá þarf að takast á um þau, vissulega málefnalega en helst vel og lengi. Það á að vera erfitt að koma umdeildum málum í gegnum þing og sveitarstjórnir. Stjórnmálamenn eiga að þurfa að svitna.
En ef málstaðurinn er verðugur og sannfæringin er fyrir hendi þá mun erfiðið borga sig og átökin munu á endanum sveigja okkur inn í skynsemisfarveg. En þá dugar að sjálfsögðu ekki kaffibolla (orðræðu)spjall heldur skoðanaskipti af lífi og sál.