Af magni, gæðum og talandi skáldum
Eins stórkostlegt og Ísland er, skiptir þó máli í hvernig skapi veðurguðirnir eru. Með stuttu millibili nú að undanförnu hafa norrænir gestir heimsótt BSRB og hafa náttúruöflin verið okkur bærilega hliðholl. Í dag kemur enn hópur til landsins en hann er frábrugðinn hinum að því leyti að fjölskyldur eru með í för með tilheyrandi tilhlökkun. Einmitt þá opnast gáttir himinsins með ofsaroki og rigningu. Ég orðaði það við Kristján Hreinsson, skáld að mjög þætti mér þetta miður. Kristján sagði að ég skyldi taka gleði mína að nýju, "Það má kannski kvarta undan gæðum veðursins en magnið svíkur ekki," sagði Kristján. Hann bætti síðan við að bragði, "að flókið væri að ráða í afstæð öfl heimsins", en hjá hagyrðingum væri reglan þessi:
Vart má ætl' að þessi þjóð
þannig skáldum fagni
sem yrkja bara ágæt ljóð
en ekki í neinu magni.
Og hæðni jafnan hljóta þeir
sem hampa sínum kvæðum
ef þeir hafa mikið meir
af magni en af gæðum.
Af hóli allir hljóta skammt
sem hérna yrkja kvæði
bara ef þeir brúka jafnt
bæði magn og gæði.