AFRÍKUTRÚBOÐIÐ OG ATVINNUREKNDASAMTÖKIN
05.04.2011
Þegar ég var fréttamaður á Sjónvarpinu fór ég eitt sinn til Afríku til að segja fréttir af stórfelldri hungursneyð í Eþíópíu. Á ferð minni kom ég í norska trúboðsstöð. Þar spurði ég boðendur kristinnar trúar hvort innlend stjórnvöld létu þá í friði í boðun sinni. Jú, svo hafði almennt verið. „Nema þegar við komum með kvikmyndasýningarnar. Þá fannst þeim samkeppnin ósanngjörrn við innlenda menn sem gátu ekki boðið upp svo spennandi uppákomur."
Ég spurði hvort þeir hefðu þá látið segjast og hætt kvikmyndasýningum. „Nei, það gerðum við ekki. Við söguðm einfaldlega: Engar kvikmyndasýningar, engar matargjafir. Þá gáfust þeir upp."
Ég man að ég hugsaði að sennilega hefði Kristur ekki verið ánægður með þessa lærisveina sína.
Hugrenningatengsl urðu til þess að þetta kom upp í hugann þegar ég heyrði Samtök atvinnurekenda hóta því í dag að þeir myndu halda kauphækkunum frá launafólki ef ríkisstjórnin félli ekki frá áformum um að umbylta kvótakerfinu, ef hún ekki spýtti í við stóriðjuframkvæmdir, lækkaði skatta á fyrirtæki og viti menn - ef þjóðin felldi Icesave-samninginn!!! Ég vona að mér hafi misheyrst að verkalýðshreyfingin hafi tekið undir þessar hótanir.
Í mínum huga er þetta ekkert annað en tilræði við lýðræðið - og það sem meira er tilræði við launafólk. Að taka það í gíslingu með þessum hætti er nánast sama ofbeldið og trúboðarnir í Eþíópíu beittu forðum eða hver er munurinn?
„Engar kvikmyndasýningar, engar matargjafir."
„Nei, við Icesave, engar kauphækkanir."
„Engin virkjun í neðri Þjórsá, engar kauphækkanir."
„Breyting á kvótakerfi, engar kauphækkanir."
„Engar kvikmyndasýningar, engar matargjafir."